Auðlind Náttúrusjóður og i8 gallerí vilja bjóða þér til listaverkauppboðs þriðjudaginn 19.apríl 2011. 38 listamenn hafa lagt málefninu lið og gefið verk. Allur ágóði uppboðsins verður nýttur við endurheimt og verndun votlendis á Íslandi.

Verkin sem boðin eru upp verða til sýnis í i8 gallerí að Tryggvagötu 16. Opnun verður föstudaginn 15. apríl frá kl. 17 til 19, en verkin verða svo til sýnis daglega í galleríinu fram að uppboði, milli kl. 13 og 17.
Uppboðið verður haldið í Þjóðmenningarhúsinu, Hverfisgötu 15, þriðjudaginn 19. apríl kl 18. Uppboðsskrá liggur frammi í i8 gallerí.

Náttúrusjóðurinn Auðlind hefur að markmiði að efla og varðveita náttúruarfinn sem landið geymir; þann sameiginlega fjársjóð manna og málleysingja sem okkur ber að ávaxta og skila öflugum til niðja landsins. Starfsemi og stefna Auðlindar felst í því að styrkja endurheimt landgæða með höfuðáherslu á votlendi. Með því að færa vatnsbúskap til fyrra horfs getur náttúran sjálf töfrað fram gróðurfar, skordýra- og fuglalíf í takti við fyrri tíma og styrkt þannig vistkerfi, fjölbreytni og lífsgæði á Íslandi. Annað framtíðarátak Auðlindar er að leggja haferninum, lið og stuðla að lífbreytni, styrkari stofni og vistkerfi. Allt ber að sama brunni; að efla heilbrigði og fegurð íslenskrar náttúru. www.i8.is, info@i8.is

Eftirtaldir listamenn gáfu verk á uppboðið:
BIRGIR ANDRÉSSON, HUGINN ÞÓR ARASON, UNNAR ÖRN AUÐARSON, RAGNAR AXELSSON, HILDIGUNNUR BIRGISDÓTTIR, KARLOTTA BLÖNDAL, ÓLAFUR ELÍASSON, HREINN FRIÐFINNSSON, SIGURÐUR GUÐMUNDSSON, KRISTJÁN GUÐMUNDSSON, ÁSDÍS SIF GUNNARSDÓTTIR, DAVÍÐ ÖRN HALLDÓRSSON, ELÍN HANSDÓTTIR, RONI HORN, KRISTINN E HRAFNSSON, GUÐNÝ RÓSA INGIMARSDÓTTIR, HEKLA DÖGG JÓNSDÓTTIR, HARALDUR JÓNSSON, GUÐJÓN KETILSSON, RAGNAR KJARTANSSON, DARRI LORENZEN, ÓLÖF NORDAL, ORRI, FINNBOGI PÉTURSSON, EGGERT PÉTURSSON, RAGNA RÓBERTSDÓTTIR, DIETER ROTH, BJÖRN ROTH, RÚRÍ, EGILL SÆBJÖRNSSON, HRAFNHILDUR ARNARDÓTTIR aka SHOPLIFTER, KATRÍN SIGURÐARDÓTTIR, MAGNÚS SIGURÐARSON, HRAFNKELL SIGURÐSSON, ÍVAR VALGARÐSSON, ÞÓR VIGFÚSSON, KEES VISSER, LAWRENCE WEINER.

Ljósmynd: Svanur við tjörnina á Seltjarnarnesi, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
14. apríl 2011
Tilvitnun:
Ragnhildur Sigurðardóttir „Uppboð Auðlindar Náttúrusjóðs og i8 gallerí“, Náttúran.is: 14. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/14/uppbod-audlindar-natturusjods-og-i8-galleri/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: