Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg og Norræna húsið hafa tekið höndum saman um endurbætur á friðlandinu í Vatnsmýrinni. Mánudaginn 11. apríl n.k. undirrita Jón Gnarr borgarstjóri, Kristín Ingólfsdóttir rektor og Max Dager forstjóri samkomulag um samstarfið og fer athöfnin fram í gróðurhúsinu í Vatnsmýrinni kl 13:30.

Tilgangur verkefnisins er að tryggja örugg varplönd fyrir Tjarnarfugla og að í friðlandinu verði sjálfbært vistkerfi, að þar megi finna vísbendingu um þann gróður sem einkenndi þetta svæði áður. Þörf er á að endurnýja og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika á svæðinu. Vatnsmýrin er undirstaða vatnsbúskapar Tjarnarinnar en hún safnar bæði vatni og áburðarefnum sem renna þangað. Í friðlandinu verpa endur og gæsir sem síðar fara með ungana á Tjörnina þar sem þeir eru aldir upp á mýi og smádýrum.

Háskóli Íslands og Norræna húsið leggja áherslu á að vegna einstakrar legu svæðisins er það kjörið til skapandi vísindamiðlunnar og eru nemendur á vegum HÍ þegar byrjaðir að stunda rannsóknir á svæðinu. Þeirri þekkingu verður miðlað til gesta og gangandi á gagnvirkan og lifandi hátt.

Við undirritunina 11. apríl verður verkefnið kynnt nánar, greint verður frá rannsóknum á svæðinu, fjallað verður um mikilvægi Tjarnarinnar í hugum borgarbúa og fjallað um margvíslega möguleika til vísindamiðlunar og þátttöku almennings í verkefninu.

Léttar veitingar frá Dill restaurant. Verið velkomin!

Ljósmynd: Skúfönd.

Birt:
April 7, 2011
Höfundur:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „Samkomulag um endurbætur á friðlandinu í Vatnsmýrinni“, Náttúran.is: April 7, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/07/samkomulag-um-endurbaetur-fridlandinu-i-vatnsmyrin/ [Skoðað:April 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: