Gervigrasvellir úr notuðum dekkjum heyri brátt sögunni til
Í framhaldi af fyrirspurn Sifjar Friðleifsdóttur þ. 30. mars sl. varðandi viðhald gervigrasvalla sem eru með gúmmíkurli úr notuðum dekkjum mun umhverfisráðuneytið fara fram á það við Umhverfisstofnun að stofnunin gefi út almenn tilmæli um að ávallt verði leitast við að nota hættuminni efni en notuð dekk sem innihalda eiturefni og krabbameinsvaldandi efni.
Á vef Alþingis segir svo:
Svar umhverfisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um gervigrasvelli og gúmmíkurl úr notuðum dekkjum sem innihalda krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni.
Spurningar hafa vaknað um notkun kurlaðra gúmmídekkja sem fyllingarefni á gervigrasvöllum. Dekk geta innihaldið ýmiss konar hættuleg efni, svo sem arsen, ýmsa þungmálma, PAH, PCB, þalöt og fenól og því hafa vaknað upp spurningar um möguleg áhrif á heilsufar og umhverfi af slíkri notkun.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu atriði í nágrannalöndum okkar, en niðurstöður þeirra gefa til kynna að notkun gúmmíkurls úr notuðum dekkjum á gervigrasvöllum hafi ekki í för með sér áhrif á heilsu þeirra sem stunda íþróttir á slíkum völlum. Þó kunni að vera einhver hætta á að ofnæmisviðbrögð gagnvart efnum í gúmmíinu geti komið fram hjá einstaklingum viðkvæmum fyrir ofnæmi. Einnig gefa þessar rannsóknir til kynna auknar líkur á myndun svifryks á völlum þar sem kurluð bíldekk eru notuð og það geti haft áhrif til myndunar astma þegar til lengri tíma er litið. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að hættuleg efni geta komist út í umhverfið í einhverju magni, með sigvatni frá völlunum, við verstu mögulegu aðstæður. Hægt er að koma í veg fyrir slík áhrif með viðeigandi mengunarvörnum, svo sem frárennsliskerfi. Þetta málefni hefur verið í umræðu annars staðar á Norðurlöndum. Í Danmörku hafa ekki verið gefnar út sérstakar leiðbeiningar og í upplýsingum sem finna má á heimasíðu Miljöstyrelsen kemur fram að ekki sé heilsufarsleg áhætta af notkun gervigrasvalla þar sem endurunnin bíldekk eru notuð sem fyllingarefni. Í Svíþjóð og Noregi hafa verið gefin út tilmæli þar sem mælst er til þess að gúmmíkurl úr endurunnum bíldekkjum sé ekki notað sem fyllingarefni á nýjum gervigrasvöllum. Ekki er hvatt til þess að loka þeim gervigrasvöllum sem þegar eru í notkun, en þegar þurfi að endurnýja eða bæta við fyllingarefni á þeim völlum er mælst til þess að hættuminni efni séu notuð. Minnt er á ábyrgð framleiðenda og innflytjenda gervigrasvalla að vinna að því að vellirnir séu öruggir fyrir menn og umhverfi. Tilmælin hafa orðið til þess að notkun gúmmíkurls úr endurunnum bíldekkjum á nýjum íþróttavöllum í þessum löndum hefur minnkað umtalsvert. Þó er ljóst að þörf er á meiri þekkingu á áhrifum gúmmíkurls úr endurunnum dekkjum á heilsufar og umhverfi og það er á ábyrgð framleiðenda og innflytjenda efna að sýna fram á að vörur þeirra uppfylli kröfur um að þær skaði ekki heilsu manna eða umhverfi.
1. Telur ráðherra koma til greina að gefa út tilmæli, að fyrirmynd Svía, um að við viðhald gervigrasvalla sem eru með gúmmíkurli úr notuðum dekkjum verði ávallt notað hættulaust efni?
Í tilefni fyrirspurnarinnar hefur ráðuneytið ákveðið að fara þess á leit við Umhverfisstofnun að gefin verði út almenn tilmæli, að fyrirmynd Svía, um að við viðhald gervigrasvalla sem eru með gúmmíkurli úr notuðum dekkjum verði ávallt leitast við að nota hættuminni efni.
2. Telur ráðherra líklegt að slík tilmæli mundu fækka þeim gervigrasvöllum hérlendis þar sem notað er gúmmíkurl úr notuðum dekkjum á sama hátt og í Svíþjóð, en þar hefur slíkum völlum fækkað úr 91% í um 40% á síðustu fjórum árum?
Telja má líklegt að slík tilmæli mundu fækka þeim gervigrasvöllum hérlendis þar sem notað er gúmmíkurl úr notuðum dekkjum
3. Telur ráðherra koma til greina að gefa út tilmæli um að gúmmíkurl úr notuðum dekkjum sem innihalda krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni verði ekki á nýjum gervigrasvöllum?
Ráðuneytið mun fara þess á leit við Umhverfisstofnun að útbúin verði almenn tilmæli þar sem hvatt er til þess að við uppsetningu á nýjum gervigrasvöllum verði leitast við að nota ekki endurunnin bíldekk heldur leitast við að nota hættuminna efni. Unnar verði leiðbeiningar og tilmæli til rekstraraðila þeirra sem reka gervigrasvelli þar sem hvatt er til þess að við endurnýjun vallanna verði leitast við að skipta út endurunnum bíldekkjum fyrir hættuminna gúmmíkurl. Jafnframt þarf að minna framleiðendur og innflytjendur gervigrasvalla á ábyrgð sína um að sýna fram á að vörur sem þeir setja á markað uppfylli kröfur um að þær skaði ekki heilsu manna eða umhverfi. Mikilvægt er að leitað verði eftir samvinnu við Íþróttasamband Íslands og Knattspyrnusamband Íslands um að farið verði eftir þessum tilmælum.
4. Hyggst ráðherra láta kortleggja hvar þeir gervigrasvellir eru þar sem notað er gúmmíkurl úr notuðum dekkjum með krabbameinsvaldandi efnum og öðrum eiturefnum? Mun ráðherra jafnframt beita sér fyrir því að þær upplýsingar verði gerðar almenningi kunnar?
Knattspyrnusamband Íslands hefur upplýsingar um sparkvelli og aðra gervigrasvelli hér á landi, hvort sem þeir eru innan húss eða utan. Í samvinnu við íþróttahreyfinguna þarf að safna upplýsingum um þá gervigrasvelli á landinu þar sem notuð eru endurunnin gúmmídekk og fylgjast með hvort farið sé að tilmælum. Ráðuneytið mun óska eftir því við Umhverfisstofnun að stofnunin afli þeirra upplýsinga og tryggi að almenningur fái reglulega upplýsingar um stöðuna.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gervigrasvellir úr notuðum dekkjum heyri brátt sögunni til“, Náttúran.is: 6. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/06/gervigrasvellir-ur-notudum-dekkjum-heyri-bratt-sog/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.