Hótel Rauðaskriða fær Svansvottun
Hótel Rauðaskriða í Aðaldal hefur nú fengið vottun Norræna Umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Strangar kröfur Svansins tryggja að hótelið er í fremstu röð varðandi lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa frá starfseminni. Rauðaskriða er eina hótelið á Íslandi með Svansvottun, en alls bera 15 fyrirtæki nú merki Svansins. Elva Rakel Jónsdóttir starfsmaður Svansins hjá Umhverfisstofnun afhenti leyfið á aðalfundi Félags ferðaþjónustubænda 23. mars sl.
Hótel Rauðaskriða er sveitahótel staðsett í Aðaldal, Þingeyjasýslu við þjóðveg 85. Á hótelinu er gistiaðstaða fyrir rúmlega 60 manns. Hótel Rauðaskriða hefur lengi lagt áherslu á að minnka umhverfisáhrif af starfseminni en með Svansvottun er gengið enn lengra og staðfest að Hótel Rauðaskriða er í fremsta flokki hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa.
Svansmerking fyrir hótel
Allir gististaðir geta fengið Svansmerkið að því tilskildu að þeir uppfylli strangar kröfur Svansins. Nauðsynlegt er að vera með gott heildaryfirlit yfir umhverfisáhrif starfseminnar en Svansvottun tryggir meðal annars að.
- Hótelið nær lágmarksviðmiðum er varðar orkunotkun, vatnsnotkun, efnanotkun og úrgangsmeðhöndlun.
- Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktum vörum og þjónustu í innkaupum hótelsins.
- Flokkun úrgangs sé góð og tryggt að allur hættulegur úrgangur fái rétta meðhöndlun.
- Starfsmenn fái reglulega þjálfun og fræðslu.
- Umhverfisstarfi hótelsins er stýrt á skilvirkan hátt.
Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.
Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.
Myndin var tekin þegar forsvarsmenn Rauðaskriðu þau Kolbrún Úlfsdóttir og Jóhannes Haraldsso, tóku við vottunarskírteininu úr hendi Elvu Rakelar Jónsdóttur starfsmann Svansins hjá Umhverfisstofnun.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hótel Rauðaskriða fær Svansvottun“, Náttúran.is: 29. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/29/hotel-raudaskrida-faer-svansvottun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.