Fyrir allnokkrum árum, þegar ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum, flutti ég sýni þangað með mér af víði og öðrum mólendisplöntum sem ég hafði safnað í Mývatnssveit og ætlaði að nýta efniviðinn fyrir mastersritgerð mína í vistfræði. Ég taldi mig hafa allt á hreinu, öll sýni þurrkuð, merkt í umslögum og tvöföldu lagi af rennilásapokum eins og innflutningsvottorðið, sem ég hafði meðferðis, sagði til um. Háskólinn minn hafði aflað undanþágu frá banni á innflutningi plöntu- og jarðvegssýna þar sem sýnt hafði verið fram á að öllum plöntuleifum og jarðvegi yrði fargað á dauð- hreinsaðan hátt. Þegar ferðast er til Bandaríkjanna þurfa ferðamenn að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að viðkomandi sé ekki að bera inn í landið plöntur eða matvæli frá öðrum löndum. Síðan eru á hverjum flugvelli eftirlitsaðilar sem fylgjast með að þessum reglum sé framfylgt og leita í farangri fólks.

Ryðsveppur olli vandræðum

Á tegundalistanum sem ég rétti landbúnaðareftirlitsmanninum var meðal annars einir, en þar sem einirinn okkar er á lista yfir friðaðar plöntur í Bandaríkjunum voru öll sýnin umsvifalaust gerð upptæk. Þau voru sett í rannsókn, þar sem í ljós kom að á hluta víðilaufanna fannst ryðsveppur, sem kom mér í enn verri vandræði.

Ekki tekið hart á innflutningi

Sú tillaga að breytingum á náttúruverndarlögum sem unnin var fyrir umhverfisráðherra og var nýlega til umsagnar tekur ekki eins hart á innflutningi framandi tegunda eins og gert er í ýmsum nágrannalöndum okkar, eins og dæmið að framan sýnir. Að vernda eins stórt landsvæði og Bandaríkin með þessum hætti hlýtur að vera gríðarlega kostnaðarsamt, en hagsmunir bandarískra vistkerfa, landbúnaðar og efnahags réttlæta útgjöld vegna svo strangrar löggjafar. Eftir ítrekuð símtöl og loforð af minni hálfu um aðgætni urðu lyktir málsins þær að ég fékk sýnin í hendurnar, það er að segja öll nema víðinn með ryðinu og eininn.

Gríðarlegir hagsmunir

Á þessum tíma fannst mér við- brögð við sýnainnflutningnum nokkuð harkaleg, en sýndi þó fullan skilning. Mér var þá þegar ljóst hversu gríðarlegir hagsmunir voru í húfi og hversu alvarlegir skaðar höfðu orðið í landinu vegna bæði viljandi og óviljandi innflutnings lífvera til Bandaríkjanna. Sem dæmi má nefna að eitt sinn var kastaníutré verðmætasta harðviðartegundin í skógum austurstrandar Bandaríkjanna. Innflutningur á sýktri sendingu af garðplöntum frá Kína varð til þess að nærri milljarður trjáa dó og tegundin svo að segja hvarf úr skógunum.

Ekki ljóst með ágengi

Enn er ekki ljóst hvort einhverjar af þeim innfluttu trjátegundum sem plantað er á Íslandi reynist ágengar í náttúru landsins. Skógræktin hefur flutt inn um 150 trjátegundir af um 1500 kvæmum og geta að minnsta kosti 18 þeirra dreift sér út*. Líftími og lífsferill trjáa er almennt mun lengri og hægari en jurtkenndra plantna, en inn- flutningur trjátegunda hófst ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 1950. Til þess að skoða hvort áhætta sé fyrir hendi getum við litið til annarra landa og minnkað notkun þeirra tegunda sem í nágrannalöndunum haga sér á ágengan hátt eða eru á alþjóðlegum listum yfir tegundir sem taldar eru geta valdið skaða í náttúrulegum vistkerfum.Strangari reglur um innflutning lífvera eru einnig mikilvægar fyrir þá sem unna skógum og skógrækt. Eins og fram kom í fyrirlestri á ráðstefnunni ,,Fríða Björk – vax- andi auðlind“, sem haldin var 5. nóvember sl., er talið að þrír af fjórum helstu skaðvöldum í birkiskógum séu nýlega innfluttar tegundir smádýra. Þar á meðal er tígulvefarinn, sem er talinn geta valdið hvað alvarlegustum skaða. Á hverju ári berast fregnir af nýjum tegundum smádýra sem borist hafa til landsins. Yfirlit yfir ný smádýr á Íslandi má finna á vef Náttúrufræðistofnunar á slóðinni http://www.ni.is/poddur/ landnemar/.

Ábyrgð færð yfir á innflytjandann

Sá sem ber ábyrgð á að flytja til landsins ágenga, framandi lífveru verður almennt ekki fyrir miklu fjárhagslegu tjóni samanborið við þá sem skaðann þurfa að bera. Sem dæmi má nefna smitandi hósta í hrossum. Allir hestamenn og hrossabændur hér á landi urðu á síðasta ári áþreifanlega varir við áhrif óviljandi innflutnings á því smitefni sem olli sjúkdómnum. Skaði innflytjandans hlýtur að hafa verið hverfandi í samanborið við atvinnugreinina í heild. Í breytingatillögunni á náttúruverndarlögunum er aftur á móti leitast við að færa nokkra ábyrgð yfir áinnflytjandann.

Forskot að búa á eyju

Við búum við þau einstöku skil- yrði hér á landi að búa á eyju þar sem hafið myndar náttúrulega vörn gegn innflutningi óæskilegra lífvera til landsins. Þetta gefur okkur forskot gagnvart ágengum tegundum en þýðir alls ekki að við megum sofna á verðinum. Í lagatillögunum kemur fram að bannað verði að dreifa lífverum sem ætla má að ógni líffræðilegri fjölbreytni á landinu, sem ætti að vera hagsmunamál allrar þjóðarinnar og skylda okkar gagnvart komandi kynslóðum. Breytingar á lögunum eru löngu tímabærar og nauðsynlegt er að íslensk lög gangi í takt við alþjóðlega samninga, lög og reglur í þessum málaflokki. Núverandi breytingatillögur munu auðvelda vernd íslenskrar náttúru til framtíðar, lágmarka efnahagslegt tjón af skaðlegum lífverum og jafnvel vernda heilbrigði manna og dýra.

* Sigurður Blöndal og Skúli Björn Gunnarsson, 1999. Íslandsskógar. Mál og mynd.

Höfundur er skógarvistfræðingur og bóndi.

Birt:
27. mars 2011
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Ragnhildur Sigurðardóttir „Varúð varðandi innflutning framandi lífvera“, Náttúran.is: 27. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/27/varud-vardandi-innflutning-framandi-lifvera/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: