Umhverfisráðuneytið hefur látið taka saman svör við spurningum umhverfisnefndar Alþingis um Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Spurningarnar komu fram á opnum fundi nefndarinnar með Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra fyrr í þessum mánuði og vörðuðu meðal annars fjölda athugasemda, samráð, umferð um Vonarskarð, aðgengi fatlaðra og heimildir til að tjalda.

1. Hver var fjöldi athugasemda?

Spurningar og svör

Alls bárust 274 athugasemdir og umsagnir í kjölfar auglýsingar á tillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun þann 13. maí 2010. Leitað var umsagna frá aðilum sem lög gera ráð fyrir og bárust 18 slíkar, en að auki bárust 256 athugasemdir frá öðrum aðilum innan þess 6 vikna frests sem gefinn var.

2. Óskað var eftir að greinagerð um svar við athugasemdum yrði birt. Um er að ræða skjal sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs lagði fram við kynningu á verndaráætluninni í ráðuneytinu.

Greinagerð Vatnajökulsþjóðgarðs (pdf-skjal).

3. Óskað var eftir samanburði á upphaflegum tillögum og breytingum sem voru gerðar á þeim vegna athugasemda.

Yfirlit yfir helstu breytingar sem gerðar voru á Stjórnunar- og verndaráætlun í framhaldi af umfjöllun stjórnar um athugasemdir og umsagnir sem bárust:

  • Nokkrar breytingar voru gerðar á vegakerfi þjóðgarðsins. Þar á meðal var sú breyting að takmörkun á umferð um veg í Heinabergsdal var afnumin og þar með hafa allir sömu heimild til að nýta sér vegakerfi þjóðgarðsins.
  • Fallið var frá áformum um framlengingu vegar innst í Hoffellsdal, að jökli við Gjánúpstind.
  • Af lista yfir leiðir til aksturs að sumarlagi á jökul eru felldar leiðir á Lambatungnajökul og Fláajökul.
  • Texta um undanþágur frá banni við utanvegaakstri var breytt til samræmis við ákvæði reglugerðar.
  • Tekin voru af tvímæli um það að umferð á hestum væri heimil á skilgreindum vegum.
  • Tilgreiningu verndarflokka skv. kerfi IUCN var breytt. Horfið var frá því að tilgreina svæði þar sem reglugerð gerir ráð fyrir sjálfbærri nýtingu sem verndarsvæði í flokki IV og þess í stað vísað í flokk II, eins og svæðisráð höfðu gert tillögu um. Undantekningar frá þessu eru svæði þar sem reglugerð heimilar sjálfbæra nýtingu í Heinabergsdal og Hoffellsdal. Þau svæði eru færð í flokk VI enda tengjast þau helst búskap og beitarnotum af öllum slíkum svæðum innan þjóðgarðsins. Þessar breytingar hafa engin áhrif á landnotkun í þjóðgarðinum því hér er aðeins verið að tilgreina þá flokka sem lýsa best þeirri landnotkun sem lögin, reglugerðin og Stjórnunar- og verndaráætlun kveða á um á tilteknum svæðum, í samhengi við alþjóðlegt flokkunarkerfi IUCN um verndarsvæði.
  • Bætt var við upplýsingum um Ramsar-tilnefningu Eyjabakka.
  • Skilmáli um akstur í Öskju var færður til samræmis við reglugerð og ákvæði um tjöldun skýrð.
  • Færð voru inn markmið um vöktun og rannsóknir á vatnafari og eldvirkni.
  • Vetraríþróttasvæði á Goðahrygg var fellt niður.
  • Ákvæði um skógrækt og uppgræðslu  voru endurskoðuð, einkum með tilliti til umsagnar Skógræktar ríkisins.
  • Texti um málsmeðferð í skipulagsmálum og varðandi framkvæmdaleyfi var lagfærður til þess að gera þau skýrari.
  • Skilmálum um aðgang að hraunhellum var breytt og þeir rýmkaðir.

4. Hversu mikil umferð er um Vonarskarð?

Engar tölur eru til um umferð vélknúinna ökutækja um Vonarskarð þar sem engar talningar hafa verið framkvæmdar þar. Þó áætlar Vatnajökulsþjóðgarður að um 100 farartæki hafi farið um skarðið á ári að sumar- og haustlagi.  Til samanburðar er heildarumferð að jafnaði yfir sumarið í Nýjadal um 34 bílar á dag skv. tölum Vegagerðarinnar. Sambærileg tala fyrir Gæsavatnaleið/Öskjuleið frá Nýjadal að Skjálfandafljóti er um 10 bílar á dag.

5. Hver er opnunartími um Vonarskarð?

Undanfarin ár hefur færðin farið eftir snjóalögum og vorhlýindum. Síðastliðið sumar var orðið fært um mánaðarmótin júní – júlí en að jafnaði er 10.-15. júlí nær lagi vegna einstakra skafla og bleytu.

6. Af hverju var verndarflokkum breytt úr 6 í 2. Þýðir hækkun verndargildis meiri takmörkun á nytjum?

Verndarflokkun í kerfi Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) var breytt í ljósi ábendinga um að flokkur II lýsti garðinum og stefnu hans betur á þessum svæðum en flokkur VI. Stjórnin féllst á þær röksemdir eftir að hafa rætt við sérfræðinga innanlands og utan. Horfið var frá því að tilgreina svæði þar sem reglugerð gerir ráð fyrir sjálfbærri nýtingu sem verndarsvæði í flokki IV og þess í stað vísað í flokk II, eins og svæðisráð höfðu gert tillögu um. Undantekningar frá þessu eru svæði þar sem reglugerð heimilar sjálfbæra nýtingu í Heinabergsdal og Hoffellsdal. Þau svæði eru færð í flokk VI enda tengjast þau helst búskap og beitarnotum af öllum slíkum svæðum innan þjóðgarðsins. Þessar breytingar hafa engin áhrif á landnotkun í þjóðgarðinum því hér er aðeins verið að tilgreina þá flokka sem lýsa best þeirri landnotkun sem lögin, reglugerðin og Stjórnunar- og verndaráætlun kveða á um á tilteknum svæðum, í samhengi við alþjóðlegt flokkunarkerfi IUCN um verndarsvæði. Heimild til hefðbundinna nytja breytist því ekki, þó IUCN flokkuninni hafi verið breytt.

7. Óskað var eftir yfirliti yfir samráðsferlið.

Stjórnunar- og verndaráætlunin er samstarfsverkefni stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, svæðisráða rekstrarsvæðanna fjögurra, fjölmargra sérfræðinga og hagsmunaaðila. Áætlunin byggist á tillögum svæðisráðanna og ráðgjafa þeirra að verndaráætlunum fyrir hvert rekstrarsvæði sem mótaðar voru á grunni umfangsmikillar upplýsingaöflunar, kortlagningar og samráðs við hagsmunaaðila. Að vinnu á vettvangi svæðisráða og ráðgjafa þeirra komu fjölmargir aðilar og er þeirra nánar getið í tillögum svæðisráðanna sjálfra. Af hálfu stjórnar var sömuleiðis unnið með fjölda hagsmunaaðila að sameiginlegri stefnumótun fyrir þjóðgarðinn.

Samráðsferlið hófst við gerð tillagna að verndaráætlunum hjá svæðisráðunum og stóð allan vinnslutímann. Samráð átti sér stað með ýmsum hætti. Á vegum svæðisráða og ráðgjafa þeirra voru haldnir opnir íbúafundir, fundir með svæðisbundnum félagasamtökum og kynningar. Einnig voru lokaðir fundir um einstök málefni og viðhorfskannanir unnar meðal gesta og starfsmanna þjóðgarðsins.

Stefnuhluti Stjórnunar- og verndaráætlunar byggist að verulegu leyti á efnivið sem fenginn var á samráðsfundi með fjölmörgum hagsmunaaðilum í nóvember 2009. Þar var meðal annars leitað svara við spurningum um sérstöðu og gæði þjóðgarðsins, framtíðarsýn og markmið í starfi hans og reynt að skilgreina áhrif þjóðgarðsins og hlutverk sem aflvaka í margvíslegu tilliti.

Meðan á gerð Stjórnunar- og verndaráætlunar stóð var auk þess haft samráð við ýmsar opinberar stofnanir og ráðuneyti. Var það ekki einungis gert til að uppfylla lagaskyldu heldur var leitað til stofnana sem álitið var að gætu komið með mikilvægar ábendingar og hugmyndir inn í vinnuna. Einnig var haft samráð við félagasamtök, fulltrúa í svæðisráðum, starfsmenn þjóðgarðsins, sérfræðinga á tilteknum sviðum og aðra aðila eftir atvikum.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta aðstoðaði stjórn í vinnu við stefnumótun fyrir þjóðgarðinn og við samræmingu tillagna svæðisráðanna fjögurra og frágang á sameiginlegri Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Að textaskrifum komu fulltrúar í svæðisráðum og ráðgjafar þeirra, þjóðgarðsverðir og starfsfólk þjóðgarðsins, ráðgjafar Alta, auk þeirra Helga Björnssonar jöklafræðings, Snorra Baldurssonar líffræðings og Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings sem sömdu kaflana um náttúru og samfélag og sérstöðu þjóðgarðsins.

Tillaga að Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og umhverfisskýrsla hennar voru skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, auglýstar opinberlega og jafnframt sendar hlutaðeigandi stofnunum til umsagnar. Auglýsing birtist þann 12. maí 2010 í Lögbirtingablaði og daginn eftir í dagblöðum á landsvísu og fréttamiðlum á starfssvæði þjóðgarðsins. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna var sex vikur frá birtingu auglýsingarinnar þann 13. maí, þ.e. til og með 24. júní 2010.

Gögnin lágu frammi til sýnis á sama tíma, á opnunartíma á eftirfarandi stöðum: á skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs, Klapparstíg 25-27, Reykjavík og á starfsstöðvum þjóðgarðsvarða í Jökulsárgljúfrum, á Skriðuklaustri, í Skaftafelli og á Kirkjubæjarklaustri, hjá Skipulagsstofnun í Reykjavík og á skrifstofum Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Norðurþings, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Skaftárhrepps og Ásahrepps.

Almenningi, hagsmunaaðilum og umsagnaraðilum gafst þannig kostur á að kynna sér efni tillögunnar og umhverfisskýrslunnar og leggja fram ábendingar, athugasemdir og umsagnir. Að loknum athugasemdafresti tók stjórn ábendingar, athugasemdir og umsagnir til umfjöllunar og nýtti til frekari mótunar Stjórnunar- og verndaráætlunar. Endanleg tillaga stjórnar var afhent umhverfisráðherra til staðfestingar þann 8. september 2010. Umhverfisráðherra fékk athugasemdir frá nokkrum aðilum og beiðni um fund vegna málsins og hitti ráðherra alla þá sem þess óskuðu.

Þann 28. febrúar 2011 staðfesti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra áætlunina og birti jafnframt greinargerð um verndaráætlunina. Þar er lagt til að skipaður verði samráðsvettvangur um samgöngumál í þjóðgarðinum og hefur stjórn þjóðgarðsins greint frá því að það verði gert.

8. Spurt var um aðgengi fatlaðra að þjóðgarðinum og hverjar athugasemdir Öryrkjabandalagsins hafi verið og hvernig hafi verið brugðist við þeim.

Athugasemdir sem gerðar voru um aðgengi fatlaðra að þjóðgarðinum voru settar fram í tengslum við vegakerfi þjóðgarðsins með þeim rökum að fatlaðir, aldraðir og aðrir þeir sem ófærir eru um að ganga langar vegalengdir hafi ekki aðgang að þeim stöðum sem vegur liggur ekki að. Markmið um aðgengi fatlaðra var ekki breytt.  Á fundi með Öryrkjabandalagi Íslands í kjölfar auglýsingar á Stjórnunar- og verndaráætlun, varð samkomulag um að bandalagið og stjórn þjóðgarðsins ynnu saman að aðgengismálum fatlaðra. Texta í Stjórnunar- og verndaráætlunar var því ekki breytt að öðru leyti en því að í auglýstri tillögu var talað um aðgengi hreyfihamlaðrar í kafla 9.3.6, en að tillögu bandalagsins er í endanlegri útgáfu talað um aðgengi fatlaðra.

9. Spurt var um heimild til að tjalda. Hver var staðan áður en verndaráætlun var samþykkt og hver er hún í dag. Er um meiri takmörkun að ræða en var?

Ákvæði um tjöldun er að finna í reglugerð þjóðgarðsins frá 2008 og engin breyting varð á þeim ákvæðum við gerð og staðfestingu Stjórnunar- og verndaráætlunarinnar, enda ekki heimilt að breyta ákvæðum laga og reglugerðar í verndaráætlun.

Ljósmynd: Umhverfisráðherra situr fyrir svörum í Umhverfisnefnd Alþingis

Birt:
24. mars 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Svör við spurningum umhverfisnefndar Alþingis“, Náttúran.is: 24. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/24/svor-vid-spurningum-umhverfisnefndar-althingis/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: