Þriðjudagsganga í Viðey
Þriðjudaginn 12. júní verður boðið upp á göngu með leiðsögn í Viðey. Þessi önnur ganga sumarsins er helguð fuglalífinu í Viðey, en það stendur í miklum blóma í júní og ungar farnir að skríða úr eggjum. Yfir 30 tegundir fugla verpa í Viðey og því margt spennandi að sjá fyrir áhugasama fuglaskoðara. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og ljósmyndari fer fyrir göngunni en hann hefur gefið út afar fallegar og fræðandi bækur um fugla Íslands. Kærkomið tækifæri til að njóta hressandi útiveru, fuglalífs og fallegrar náttúru í túnfæti borgarinnar.
Í sumar eru aukaferðir á þriðjudagskvöldum til Viðeyjar frá Skarfabakka kl. 18:15 og 19:15. Kaffihúsið í Viðeyjarstofu er opið þessi kvöld og upplagt að njóta kvöldverðar í eynni áður en leiðsögn byrjar. Gangan með Jóhanni Óla hefst kl. 19:30 við Viðeyjarstofu og tekur eina og hálfa til tvær klukkustundir.
Að göngu lokinni er hægt að tylla sér niður í Viðeyjarstofu og fá sér hressingu áður en haldið er heim á leið en seinasta ferjan fer úr eynni kl. 22:00. Gjald í ferjuna fram og til baka er kr.1000 fyrir fullorðna og kr.500 fyrir börn 7-15 ára í fylgd fullorðinna. Frítt fyrir 6 ára og yngri. Við minnum á að handahafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og í Viðeyjarstofu. Leiðsögnin er ókeypis og öllum opin.
Ljósmyndir: Guðlaugur Ottesen Karlsson.
Birt:
Tilvitnun:
Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir „Þriðjudagsganga í Viðey“, Náttúran.is: 9. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/09/thridjudagsganga-i-videy/ [Skoðað:28. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.