Tungldagatal, þvottur. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.Til að fylgja tunglinu þarf að gera hlutina á réttum tíma

Gott er að hafa við hendina:
Bók: Moon time, the art of harmony with nature and lunar cycles. Eftir Johanna Paungger and Thomas Poppe.
Einnig er hægt að fylgjast reglulega með þessari heimasíðu: http://www.paungger-poppe.com.
Dagbók með tunglstöðu: Setja þarf í dagbók/ gsm símann hvað á að gera hverju sinni.

Til að geta nýtt sér krafta tunglsins þarf að fara eftir nokkrum grunnþáttum þess. Nauðsynlegt er að vita hvort tunglið sé vaxandi eða minnkandi en þær upplýsingar má nálgast t.d. í Almanaki Háskólans Íslands,
Tunglið er ca.14 daga að vaxa, er fullt í aðeins eina til tvær klukkustundir og minnkar eftir það í ca 14 daga, síðan hverfur það í eina til tvær klukkustundir og vex svo á ný.

Minnkandi tungl
Best er að nýta minnkandi tungl til afeitrunar, hreinsunar, svitna út, anda út, þurrka, styrkja og sameina. Gott er að stunda líkamsrækt til að auka brennslu. Því nær nýju tungli þeim mun sterkara er þetta afl.
Ef þú ert á leið í skurðaðgerð reyndu þá að fara í minnkandi tungli. Þá er von á skjótari bata. Í minnkandi tungli verður minni blæðing og minni líkur eru á að fá afmyndandi ör sem hindra orkuflæði líkamans.

Nýtt tungl
Í nýju tungli er afeitrunarorkan sterkust og gott að fasta þann daginn eða borða minna en venjulega.

Vaxandi tungl
Vaxandi tungl er tími til endurnýjunar, skipulagningar, uppbyggingar og að hlaða batteríin. Því nær því að tunglið verði fullt þeim mun áhrifaríkara er þetta.
Á þessum tíma tekur líkaminn betur við og á auðveldara með að bæta á sig aukakílóum þótt borðað sé jafn mikið.
Á þessum tíma er best að styrkja sig sérstaklega hafi fólk verið í afeitrun eða föstu í minnkandi tungli á undan. Hafi fólk ekki afeitrað sig má segja að það “sé “hella nýrri olíu saman við þá gömlu”.
Þar sem líkaminn tekur betur á móti öllu í vaxandi tungli er líka betra að taka vítamín og steinefni. Þetta á sérstaklega um kalsíum, magnesium og járn.

Öll óæskileg efni og áföll sem líkaminn fær á þessum tíma hafa langtum meiri áhrif en í minnkandi tungli.

Fullt tungl
Það er gott að fasta líka á fullu tungli eða borða minna en venjulega eins og á engu tungli. Því á þessum degi er líkaminn langtum móttækilegri fyrir öllu þar á meðal aukaefnum í mat. Vatn á greiðari leið um vefi í líkamans.
Óráðlegt er að fara í skurðaðgerð eða bólusetningu á þessum degi. Meiri áreynsla en venjulega er mjög slæm í fullu tungli.

Það hafa margir áhuga á tunglinu, og hvernig hægt er að nýta sér krafta þess.
Ég er alltaf að leita eftir meiri upplýsingum og finnst gaman að heyra um reynslu annarra sem hafa nýtt sér krafta tunglsins á einhvern hátt. Listin er að tímasetja hlutina rétt.
Með því að tímasetja hlutina rétt þá ganga þeir betur fyrir sig og oft hlúum við betur að jörðinni okkar í leiðinni.

Að læra að þvo upp á nýtt
Besti tíminn til að þvo þvott er í minnkandi tungli, þvotturinn verður hreinni, þvottaefnið skolast betur úr þvottinum, náttúran á betur með að brjóta efnin í þvottaefninu á þessum tíma.

Þetta þýðir að það þarf minna þvottaefni og í svörtum fötum verða minni taumar. Það getur verið erfitt að þvo bara í hálfan mánuð og svo leyfa þvottinum að hrúgast upp í hálfan mánuð. Þó er hægt að setja sér markmið að vera búinn að þvo mest allan þvott áður en tunglið fer að vaxa og þvo eins lítið og hægt er í vaxandi tungli. Það getur tekið smátíma að aðlagast þessu.

Það er ótrúlegt hvað það er auðvelt í minnkandi tungli að setja þvott í þvottavélina, taka úr henni, þurrka þvottinn og áður en maður veit af er þvotturinn kominn samanbrotinn inn í skáp. Ef þvottur er þveginn í vaxandi tungli kallar það á meiri orku og venjulega stoppar ferlið einhvern staðar og fatahrúgur myndast hér og þar en þvotturinn endar ekki inní skáp. Í dag íþyngir þvotturinn mér ekki, heldur hef ég gaman af að þvo og ótrúlega oft sé ég í botninn á þvottakörfunni í einn dag.

Birt:
18. janúar 2015
Uppruni:
Heilsuhöndin
Tilvitnun:
Bylgja Matthíasdóttir „Tunglið og dagverkin“, Náttúran.is: 18. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2011/03/13/tunglid-og-dagverkin/ [Skoðað:17. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. mars 2011
breytt: 18. janúar 2015

Skilaboð: