Vatnavinir fá hin virtu Alþjóðlegu verðlaun í sjálfbærum arkitektúr 2011
Vatnavinir hafa hlotið hin virtu alþjóðlegu verðlaun í arkitektúr „Global Award for Sustainable Architecture 2011“ fyrir verkefnið Heilsulandið Ísland. Verðlaunin eru veitt af Locus Foundation sem hefur það að markmiði að veita arkitektum er starfa víða um heim viðurkenningu fyrir framþróun á sviði sjálfbærni í arkitektúr. Yfir 200 tilnefningar bárust til verðlaunanna og eru fimm viðurkenningar veittar á ári hverju. Vatnavinir samanstanda af alþjóðlegum hópi fagfólks sem koma úr ólíkum greinum byggingarlistar, hönnunar, markaðssetningar, ferðamennsku, heimspeki og listum.
Verðlaunin, eru nú veitt í fimmta sinn, en fyrri verðlaunahafar telja m.a. Snöhetta, arkitektar að Óperuhúsinu í Osló. Formleg verðlaunaafhending verður í Cité de l´Architecture í París í maí. Eitt af markmiðum Locus Foundation er að efla alþjóðlegt samstarf sérfræðinga á sviði sjálbærni og að efla aukna vitund fagaðila sem almennings um nauðsyn samfélagslegrar ábyrgðar við mótun manngerðs umhverfis. Arkitektarnir og félagarnir í Vatnavinum Olga Guðrún Sigfúsdóttir, Sigrún Birgisdóttir og Jörn Frenzel kynna verkefni Vatnavina í Cité de l´Architecture í París og taka þátt í ráðstefnu á vegum Unesco og Locus Foundation „ Rediefining progress: Architecture for a new Humanism“ í lok maí á þessu ári.
Vefsíða Vatnavina: www.vatnavinir.is
Vefsíða Locus Foundation: www.locus-foundation.org, www.global-award.org
Vatnavinir hafa unnið að hugmyndafræði sem byggir á fjölbreyttri uppbyggingu atvinnulífs og sjálfbærri nýtingu auðlinda Íslands með heilsutengdri ferðaþjónustu í nánum tengslum við jarðvarma og náttúru landsins. Undir yfirskriftinni Heilsulandið Ísland hafa þau kortlagt staði og möguleika, og unnið að endurbótum á eldri laugum og baðstöðum ásamt því að koma að uppbyggingu nýrra heilsulinda víðsvegar um landið. Baðmenning Íslendinga er einstök á heimsvísu og byggir hún á einstökum náttúrgæðum landsins. Vatnið, bæði heitt og kalt er ómengað og gætt fjölbreyttum eiginleikum og er aðdráttarafl fyrir innlenda sem erlenda gesti. Verkefnið Heilsulandið Ísland hefur að markmiði að byggja á einstakri staðarmyndun heitra lauga á Íslandi og nýta laugarnar til stuðla að fjölbreyttri heilsutengdri afþreyingu og upplifunum fyrir ferðamenn. Verkefnið fjallar um að virkja samvinnu þeirra fjölmörgu aðila sem koma að atvinnusköpun og ferðaþjónustu um land allt.
Vestfirðir voru í farabroddi á landsvísu með stofnun Vatnavina Vestfjarða vorið 2009. Vatnavinir Vestfjarða er samstarfsnet landeigenda og staðarhaldara lauga á Vestfjörðum, sveitarfélaga og Markaðsstofu Vestfjarða ásamt Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða (ATVEST) og Vatnavinum sem hlúðu að verkefninu. Ellefu staðarhaldara heitra lauga á Vestfjörðum tóku þátt í að skapa þetta tengslanet fjölbreyttra lauga og að bjóða upp á margvíslega þjónustu fyrir ferðamenn. Vatnavinir hafa sinnt ráðgjafarhlutverki með hugmyndavinnu, greiningu, þróun og hönnun staðanna. Markmiðið er að þróa vestfirsk aðdráttarafl á heimsvísu tengt vatni, baðmenningu, náttúru, heilsu og útivist og auka þannig verðmætasköpun innan svæðisins. Verkefnið Vatnavinir Vestfjarða hlaut Eden verðlaun Evrópusambandsins og viðurkenningu sem Tourist Destination of Excellence Award fyrir vatnatengda ferðaþjónustu árið 2010. Að auki vinna Vatnavinir að þróun á jafnt stórum sem smáum heilsutengdum ferða – og meðferðarstöðum um land allt jafnt í þéttbýli, dreifbýli og náttúrulegu umhverfi.
Stofnendur Vatnavina eru: Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir heimspekingur og fjallaleiðsögumaður, Anna G. Sverrisdóttir ferða- og spa- ráðgjafi, Caroline Tayar markaðas- og iðnhönnuður, Igor Micevic grafískur hönnuður, Jörn Frenzel arkitekt og stundakennari við „School of Design thinking“, María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir iðnhönnuður og listamaður, Olga Guðrún Sigfúsdóttir arkitekt FAÍ og stundakennari við LHÍ, Sigrún Birgisdóttir arkitekt FAÍ, lektor og fagstjóri við LHÍ og Sigurður Þorsteinsson markaðs- og iðnhönnuður.
Frekari upplýsingar fást hjá: Olgu Guðrúnu Sigfúsdóttur, olga@vatnavinir.is, s: 6911144 og Sigrúnu Birgisdóttur sigrunbirgis@lhi.is, s: 8683497
Birt:
Tilvitnun:
Olga Guðrún Sigfúsdóttir „Vatnavinir fá hin virtu Alþjóðlegu verðlaun í sjálfbærum arkitektúr 2011“, Náttúran.is: 16. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/08/vatnavinir-fa-hin-virtu-althjodlegu-verdlaun-i-sja/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. mars 2011
breytt: 16. mars 2011