Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Vatnajökulsþjóðgarður er umfangsmesta verkefni á sviði náttúruverndar sem ráðist hefur verið í hérlendis en hann nær yfir 13% landsins og er stærsti þjóðgarður Evrópu. Stjórnunar- og verndaráætlunin felur í sér stefnu, markmið og framtíðarsýn þjóðgarðsins hvað varðar náttúruvernd, útivist og byggðarþróun. Þar er kveðið á um skipulag samganga í þjóðgarðinum, þjónustu við ferðamenn, náttúrurannsóknir og umhverfisvöktun.

Stjórn þjóðgarðsins vann stjórnunar- og verndaráætlunina eftir samráð við fjölda einstaklinga, stofnana og félaga og sendi ráðherra hana til staðfestingar í september 2010. Í kjölfar þess barst ráðuneytinu fjöldi athugasemda og átti ráðherra fund með sjö einstaklingum, félögum og stofnunum og tók við sextán formlegum athugasemdum. Flestar athugasemdirnar lutu að skorti á samráði við gerð áætlunarinnar.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að skilyrðum laga og reglna hafi verið uppfyllt við gerð áætlunarinnar, þar á meðal um samráð. Því eru ekki taldar forsendur til að synja áætluninni staðfestingar. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð takmarka vald ráðherra til að breyta tillögu stjórnar þjóðgarðsins við þau tilvik þar sem talið er að hún brjóti í bága við lög eða reglugerð um þjóðgarðinn eða gegn verndarmarkmiðum þjóðgarðsins.

Umhverfisráðuneytið telur engu að síður æskilegt að stjórn þjóðgarðsins skoði betur þann kafla áætlunarinnar sem lýtur að samgöngum í þjóðgarðinum. Fram hafa komið tillögur að breytingum sem kalla á umræðu og ítarlegri yfirferð. Ráðuneytið beinir því þeim tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins að skoða samgönguþáttinn sérstaklega og hafa samstarf við helstu hagsmuna- og umsagnaraðila í því skyni að tryggja að sem best sé haldið á hagsmunum náttúruverndar og útivistar. Þannig telur ráðuneytið að hægt sé að skapa meiri sátt um þjóðgarðinn.

Ráðuneytið ítrekar að það telur að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hafi sett fram góðar grunnforsendur og almenn rök fyrir tillögum sínum að samgöngukerfi þjóðgarðsins, en að frekari umræða þurfi að fara fram um einstakar leiðir og tillögur sem fram hafa komið í athugasemdum við verndaráætlun.

Hvað önnur atriði en samgöngur varðar er ljóst að alltaf þarf að endurmeta og endurskoða áætlunina. Lög kveða á um að endurskoða eigi áætlunina í heild ekki sjaldnar en á tíu ára fresti, en heimild er fyrir stjórn að gera breytingar á því tímabili, sem gera þarf í samráði við svæðisráð. Ráðuneytið telur að stjórn þjóðgarðsins sé rétti aðilinn til að meta hvenær ráðast þurfi í breytingar á verndaráætlun, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða vegna utanaðkomandi beiðni.

Greinargerð umhverfisráðherra vegna staðfestingar á verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (Pdf-skjal).

Heimasíða Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ljósmynd frá Skaftafelli, ljósm. Árni Tryggvason.

Birt:
28. febrúar 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs staðfest“, Náttúran.is: 28. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/28/verndaraaetlun-vatnajokulsthjodgards-stadfest/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: