Vilja rækta ávaxtatré á Íslandi
Í dag verður undirritað samkomulag milli Garðyrkjufélags Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands um prófun á ræktun á norðlægum yrkjum af ávaxtatrjám við íslenskar aðstæður með það fyrir augum að í framtíðinni verði hægt að leiðbeina um val og ræktunaraðferðir.
„Verkefnið fór af stað í kjölfar fræðsluerinda sem Jón Þ. Guðmundsson, garðyrkjufræðingur hefur flutt að undanförnu á vegum Garðyrkjufélagsins víða um land. Jón byggir þar á eigin reynslu og Sæmundar Guðmundssonar, áhugamanns sem reynt hefur eplarækt um nokkurt skeið og búsettur er á Hellu,“ segir í tilkynningu frá Garðyrkjufélagi Íslands og Landbúnaðarháskólanum.
Þar segir að um 160 félagar í Garðyrkjufélaginu hafi nú ákveðið að taka þátt í verkefninu og prófa yrki af eplatrjám, perutrjám, plómum og kirsiberjum við breytileg skilyrði um allt land. Landbúnaðarháskólinn hefur faglega umsjón með framkvæmd prófana, veitir ráðgjöf um ræktunina og tekur við upplýsingum um árangurinn hjá ræktendum. „Stefnt er að því að prófanir fari fram sem víðast á landinu hjá aðilum sem líklegir eru til að annast ræktunina af alúð. Um 40 manns í öllum landshlutum taka þátt í kjarna verkefnisins og skuldbinda sig til að gefa reglulegar skýrslur samkvæmt forsögn frá LbhÍ um lifun, þroska og þrif trjánna og uppskeru þegar þar að kemur. Hinir 120 verða tiltækir með einfaldari skýrslugerð og viðbótarreynslu eftir því sem þörf gerist.“
„Meðal atriða sem kanna þarf eru samspil yrkja við jarðveg og staðbundið veðurfar og skjól á ræktunarstað, svo og ræktunartækni og umhirða, m.a. undirbúningur jarðvegs, áburðargjöf og tæknilegar aðferðir til að tryggja blómgun, frjóvgun og uppskerumagn. Arflægir eiginleikar og uppskerutími ávaxta er mjög breytilegur eftir tegundum og yrkjum.“
Yfir 130 yrki verða prófuð og eru þau flest ættuð frá Finnlandi, Rússlandi og Eystrasaltslöndunum og byggja mörg á gamalli hefð kynbóta í þessum löndum. „Sum þeirra hafa verið í sölu hjá garðplöntustöðvum hér á landi til þessa og lofar reynslan góðu. Trén sem notuð verða til verkefnisins eru eins árs gömul og því mikilvægt að þau fái góða umhirðu í byrjun og undirbúningur gróðursetningar sé vandaður. Ljóst er að íslenskur jarðvegur er líklega jafn erfiður í ræktun ávaxtatrjáa eins og veðrátta, skjólleysi og harðgerði sjálfra trjánna. Þess vegna hefst átakið formlega í dag með því að þátttakendunum 40 í kjarna verkefnisins er boðið að taka þátt í námsstefnu sem aðstandendur verkefnisins skipuleggja. Námstefnan fer fram í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti.“
Á vegum Garðyrkjufélagsins hefur nú verið stofnaður sérstakur klúbbur um ávaxtarækt. Allir sem eru félagar í Garðyrkjufélagi Íslands geta gerst meðlimir í ávaxtaræktarklúbbnum.
Birt:
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Vilja rækta ávaxtatré á Íslandi “, Náttúran.is: 25. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/25/vilja-raekta-avaxtatre-islandi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.