Vanmerktar efnavörur í byggingavöruverslunum
Almenningur kaupir gjarnan efnavörur í byggingavöruverslunum á sumrin meðal annars vegna viðgerða og viðhalds á eigin húsnæði. „Verulegur misbrestur er á merkingum í byggingavöruverslunum. Sérstaklega vantar íslenskar varnaðarmerkingar á efnavörur frá erlendum framleiðendum,“ segir Einar Oddsson hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og einn höfunda skýrslu um niðurstöður. Alls voru kannaðar 2272 vörutegundir í 16 verslunum.
Byggingavöruverslanir hafa á boðstólum mikið úrval efnavöru en hátt hlutfall inniheldur efni sem flokkast hættuleg og þurfa því íslenskar varnaðarmerkingar í samræmi við reglugerð. Röng meðhöndlun getur valdið slysi, örorku eða jafnvel dauða. Einar hvetur viðskiptavini í byggingavöruverslunum að athuga vel merkingar og gera kröfu um íslenskar varnaðarmerkingar á þeim efnavörum sem innihalda hættuleg efni. Innflytjendur og innlendir framleiðendur eru ábyrgir fyrir þessum merkingunum en söluaðilum er bannað að selja vanmerktar efnavörur.
Helstu niðurstöður könnunarinnar voru að 55% vara voru rétt merktar á íslensku, í 28% tilvika vantaði alfarið íslenskar merkingar en í 17% tilvika voru vörurnar merktar á íslensku en á ófullnægjandi hátt. Vanmerktar efnavörur voru í öllum verslunum sem heimsóttar voru. Eftir því sem verslanirnar stækka og vöruúrvalið eykst virðist hlutfall vara sem ekki eru rétt merktar á íslensku hækka. Öryggisblöð á íslensku voru ekki til staðar í neinni verslun sem könnunin náði til. Gerð er krafa um að þau séu til staðar í verslunum þar sem efnavörur sem innihalda hættuleg efni eru afhent í atvinnuskyni. Eiturefni og bannvörur fundust í nokkrum verslunum en eiturefni eru ekki leyfileg í almennri sölu.
Einar segir mikilvægt að heildsalar og smásalar komi sér upp verklagi til að tryggja varnaðarmerkingar á fullnægjandi hátt. Einnig að áþreifanlegar viðvaranir séu til staðar fyrir sjónskerta en könnunin sýndi að slíkt vantaði helst á innlendar efnavörur og vörur framleiddar utan Evrópu.
Tenglar:
Skýrslan: Könnun á merkingarskyldum efnavörum
Fréttatilkynning Umhverfisstofnunar
Varnaðarmerki - stök
Varnarmerki - spjald
Frekari upplýsingar veitir Einar Oddsson í síma 693 9653
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Vanmerktar efnavörur í byggingavöruverslunum “, Náttúran.is: 13. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/13/vanmerktar-efnavorur-i-byggingavoruverslunum/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.