Mig rak í rogastans við að lesa auglýsingu frá Brimborg nú á dögunum. Eftir því sem að marka má af auglýsingunni eigum við að „hætta að hugsa um umhverfið“ og „gera eitthvað í málinu“. Því lengra sem ég las, því minna skildi ég og þá er kannski takmarki auglýsingarinnar náð. Þ.e. að rugla okkur svo mikið í rýminu að engu máli skipti hve mikið við keyrum eða mengum.

Það kann að vera rosalega klókt út frá auglýsingasjónarmiði að orða hlutina svona villandi og vekja upp spurningar en á hvers kostnað er það í þessu tilviki? Það felst ákveðin ábyrgð í því að skella fram fullyrðingum af þessu tagi og málið kemur ekki bara einu bílaumboði við. Það sem að truflar mig við þessa auglýsingaherferð er að hér er vísvitandi reynt að villa um fyrir fólki.

„Visthæf skref“ er í raun ný orðasamsetning og merkið líkist einnig mjög merki sem notað er fyrir „Ecological footprint“ sem er hugtak notað yfir þau spor sem við skiljum eftir okkur og er mælieining á sjálfbærni heimsins, einstakra ríkja, fyrirtækja og einstaklinga og stefnumörkun varðandi sjálfbæra þróun.

Við Íslendingar erum ekki enn nógu kunnug hugtakinu því að fótspor Íslands eða áhrif okkar á umhverfið hefur ekki enn verið nægjanlega mælt né skrásett fyllilega. Hvað þá að raunveruleg stefnumörkun hafi átt sér stað.

Með reiknivélum er þó hægt er að mæla hvaða áhirf við höfum á umhverfið með orku- og eldsneytisnotkun. Orkusetur hefur ný tnisvísa og reiknivélar fyrir orku- og eldsneytisnotkun og kolefnisbókhald og Kolviður einnig fyrir kolefnisbókhald. Hin raunverulegu „fótspor“ felast því í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar frekar en umhverfisstefnu bílaumboðs sem er allt önnu Ella.

Í auglýsingunni og á vef Brimborgar segir orðrétt:

„Taktu vistvæn skref og keyrðu meira með hreinni samviksu. Við hjá Brimborg viljum hvetja þig til að taka þátt í því með okkur að tryggja þau lífsgæði sem við viljum hafa á morgun og stefnt er að í dag.

Vertu í hópi bestu.

Nógu lengi höfum við hugsað um umhverfið. En þótt það sé jákvætt að hugsa skynsamlega um umhverfismál finnst okkur hjá Brimborg kominn tími til að gera eitthvað meira í málinu. Enda eru allar athafnir og allar aðgerðir sem við framkvæmum í þessa veru skref í rétta átt. Slík skref viljum við kalla visthæf skref.“

Síðan er haldið áfram að rugla saman okkar „rétti“ til að viðhalda lífsgæðum og umhverfisskref sem að Brimborg tekur sem fyrirtæki. T.a.m. vinnur fyrirtækið að því að fá ISO 14001 vottun.* Það þýðir samt ekki að sú vottun sé í höfn og getur í raun hver og einn hafið slíkt ferli og er því vafasamt að auglýsa það sérstaklega. Af bílaumboðum hefur aðeins Toyota aflað sér ISO 14001 vottunar. Einnig kemur fram að starfsmenn læri vistakstur sem er auðvitað mjög jákvætt. Tilraunaverkefni með innflutning á Etanólbílum er einnig talið upp. Síðan eru talin upp ýmis góð og gild vistvæn aksturs- bílaumhirðuráð fyrir ökumenn. Þau eru:

  • njóttu þess að læra visthæfan akstur
  • áætlaðu aksturleiðina fyrirfram og reyndu að stytta hana
  • finndu þann hraða sem hentar best og haltu honum jöfnum
  • dragðu úr hraðanum þannig að þú þurfir síður að gefa í og snögghemla
  • hafðu lengra bil á milli bíla til að draga úr örum hraðabreytingum
  • skiptu um gír á réttum vélarsnúning ef bíllinn er beinskiptur
  • farðu með bílinn reglulega í þjónustuskoðun
  • endurnýjaðu næst í sparneytnari árgerð sem mengar minna og losar minni koltvísýring
  • kauptu nýja bíltækni sem hægt er að kaupa í dag, t.d. etanól- eða metanbíl
  • kauptu besta eldsneytið
  • veldu bensínvörumerki sem tryggir þér besta íblöndunarefnið
  • veldu dísilvörumerki sem tryggir þér besta íblöndunarefnið
  • hafðu bílinn í gír þegar þú lætur hann renna
  • notaðu gírana til að hægja ferðina
  • láttu vélhreyfilinn draga úr ferðinni
  • kolefnisjafnaðu aksturinn
  • eigðu minni bíl með stórum
  • hitaðu kælivatn vélarinnar með forhitara
  • keyrðu á nýjum og vönduðum dekkjum
  • notaðu ónegld dekk í innanbæjarakstri
  • hafðu réttan loftþrýsting í dekkjunum
  • láttu skipta reglulega um vélarolíu samkvæmt ábendingum framleiðanda bílsins
  • notaðu ávallt bestu vélarolíu samkvæmt ráðleggingum framleiðanda
  • dreptu á bílnum ef stoppað er lengur en 30 sek.
  • aktu ekki með óþarfa farangur, aukin þyngd eykur eyðslu og mengun
  • aktu ekki með gluggana opna ef kostur er því það eykur loftmótstöðu
  • minnkaðu loftmótstöðuna með því að taka toppgrindur og box af eftir notkun
  • minnkaðu loftmótstöðuna með því að bóna bílinn reglulega með visthæfu bóni
  • tjöruþvoðu bílinn með visthæfum tjöruhreinsi
**Sjá hér á Grænum síðum þau fyrirtæki á Íslandi sem hafa ISO 14001 vottun .
Birt:
6. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skref og fótspor - Vísvitandi villandi?“, Náttúran.is: 6. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/06/skref-og-ftspor/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. maí 2011

Skilaboð: