Svifryksmengun er undir heilsuverndarmörkum í dag þótt götur borgarinnar séu þurrar og verður stillt. Ástæðan er sú að í nótt og í morgun voru 290 km eknir til að dreifa 27 þúsund lítrum af rykbindiefnum á allar helstu umferðargötur í Reykjavík.

Götur borgarinnar koma nú rykugar undan snjó en dreifing magnesíumklóríðs kemur í veg fyrir að svifryk (PM10) þyrlist upp þegar bílar keyra hjá og valdi loftmengun. Köfnunarefnisdíoxið (NO2) er hins vegar ekki hægt að hefta því það kemur beint úr útblæstri bíla. Það mælist þó ekki yfir heilsuverndarmörkum í dag. Gula slikjan sem stundum sést yfir borginni er köfnunarefnisdíoxíð.

„Svipuðu veðri er spá um helgina og gæti svifryk því mælst yfir mörkum en hafa ber þó í huga að umferðin er ekki eins stíf um helgar og á virkum dögum,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá mengunarvörnum Umhverfis- og samgöngusviðs og hvetur fólk til að njóta útiveru um helgina á reiðhjólum og gangandi. Svifryksmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra, núna klukkan 16.30 í dag var hálftímagildi svifryks komið yfir heilsuverndarmörk en dagurinn í heild er undir mörkum vegna rykbindingar.

Starfsmenn Framkvæmda- og eignasviðs dreifðu 27.000 lítra af rykbindiefni á eftirfarandi götur í nótt og í morgun: Vesturlandsvegur frá Höfðabakka að Elliðaárbrú, Miklabraut frá Elliðaárbrú að Hringbraut, Hringbraut að Ánanaust, Grensásvegur milli Suðurlandsbraut og Bústaðavegar, Kringlumýrarbraut, Sæbraut, göngubrú við Nesti, Bústaðavegur frá Breiðholtsbraut að Snorrabraut, Reykjanesbraut frá Mjódd að Sæbraut, Sæbraut frá Reykjanesbraut að Kalkofnsvegi, Stórhöfði, Breiðhöfði, Dverghöfði, Bíldshöfði, Snorrabraut, Borgartún, Sundlaugaveg, Dalbraut, Langholtsveg frá Suðurlandsbraut að Sæbraut, Stekkjarbakki frá Reykjanesbraut að Höfðabakka, Höfðabakki frá Stekkjarbakka að Bæjarháls.

Myndin er af vef Reykjavíkurborgar.

Birt:
March 14, 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Rykbindiefni heldur svifriki í skefjum í Reykjavík í dag“, Náttúran.is: March 14, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/14/svifryki-haldio-i-skefjum-i-dag/ [Skoðað:Feb. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: