Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra sat sinn fyrsta samráðsfund með félagasamtökum á sviði umhverfismála í Þjóðmenningarhúsinu á þriðjudag.

Á fundinum sagði umhverfisráðherra að í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu yrðu efnahagsmál í forgangi hjá ríkisstjórninni. Engu að síður ætlaði hún að beita sér fyrir ákveðnum málum á verksviði síns ráðuneytis sem hún telur að hægt sé að koma á rekspöl á þeim stutta tíma sem er fram að kosningum. Þar á meðal hefur ríkisstjórnin samþykkt tillögu hennar um að Árósasamningurinn verði fullgiltur og nú er hafinn undirbúningur í stjórnarráðinu vegna þess.

Í umræðunni um loftslagsmál sagði umhverfisráðherra að Ísland hefði nær fullnýtt heimildir í Kýótó-bókuninni til að losa gróðurhúsalofttegundir. Hún sagði það mat sérfræðinga að í þeim alþjóðlegu samningaviðræðum sem nú færu fram væru engar líkur á að Ísland fengi auknar heimildir til losunar eftir að gildistíma Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012. Á nýju skuldbindingatímabili muni Ísland því þurfa að draga úr losun á sama hátt og önnur þróuð ríki. Stefnt er að því að ljúka gerð ný s bindandi samkomulags á 15. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári.

Ísland hefur ákveðið að undirgangast viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir, sem mun gilda um flugrekstur eftir 2011 og stóriðju eftir 2012. Þá munu íslensk fyrirtæki á þessum sviðum falla undir viðskiptakerfið og þar með gangast undir sömu reglur og kvaðir og sambærileg fyrirtæki í Evrópu. Umhverfisráðherra sagði það ljóst að öllum þróuðum ríkjum yrði gert að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og Ísland væri þar engin undantekning.

Samráðsfundir umhverfisráðuneytisins og félagasamtaka á sviði umhverfismála fara fram með reglulegu millibili. Þar er fjallað um þau mál sem fulltrúar félagasamtaka bera upp við umhverfisráðherra og jafnframt kynna sérfræðingar ráðuneytisins þau mál sem unnið er að í umhverfisráðuneytinu.

Markmið þessa samstarfs er að efla lýðræðislega umræðu um umhverfis- og náttúruvernd og auka samráð um stefnumörkun og framkvæmd umhverfisverndar. Að mati umhverfisráðuneytisins er framlag félagasamtaka við að upplýsa almenning, stjórnvöld og fjölmiðla mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun íslensks samfélags.

Félög sem eru þátttakendur í samstarfi við umhverfisráðuneytið eru:

  • Framtíðarlandið
  • Fuglavernd
  • Garðyrkjufélag Íslands
  • Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs
  • Hið íslenska náttúrufræðifélag
  • Landvernd
  • Náttúruvaktin
  • Náttúruverndarsamtök Austurlands
  • Náttúruverndarsamtök Íslands
  • Náttúruverndarsamtök Suðurlands
  • Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi
  • Skógræktarfélag Íslands
Mynd: Umhverfisráðuneytið, Guðmundur Hörður Guðmundsson.
Birt:
26. febrúar 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Fundur umhverfisráðherra með félagasamtökum“, Náttúran.is: 26. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/26/fundur-umhverfisrao-meo-felagasamtokum/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: