Sannleikann ofanjarðar - lagnir neðanjarðar
Í auglýsingu frá sveitarfélaginu Ölfus sem birt var m.a. í Dagskránni 15.11.07 eru kynntar breytingar á deiliskipulagi virkjunarsvæða á Hellisheiði. Í lið 4 er kynnt breyting sem felur í sér að lögn fyrir neyðarlosun verði ofanjarðar en ekki neðanjarðar eins og var í samþykktu skipulagi. Síðan er farið í verkfræðilegar úskýringar á þessari beiðni og látið í það skína að ekki sé tæknilega mögulegt að leggja lagnirnar neðanjarðar.
Það vekur þá spurningu hvort menn hafi ekki gert sér grein fyrir því sem var verið að hanna í upphafi eða hvort lagnaefni hafi versnað síðan þá. Og eins hvort lagnir sem liggja eiga neðanjarðar frá Skarðsmýrarfjalli, fyrir ekki minni hita né þrýsting, séu þá orðnar óöruggar.
Eða eru hér á ferðinni útúrsnúningar OR til þess að blekkja yfirvöld og borgara í Ölfusi og spara örlítið í framkvæmdinni?
Í auglýsingunni 4. lið segir:
Lögn fyrir neyðarlosun affallsvatns við hraunjaðar vestan stöðvarhússvæðisins verður ofanjarðar en ekki neðanjarðar eins og gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir.
Ástæða breytingarinnar er eftirfarandi:
Hitastig skiljuvatns í niðurrenslisveitu er um 180°C og þrýstingur um 9 bar[bör]. Áður en vatninu er hleypt niður í holur á neyðarlosunarsvæði er því hleypt út í svokallaðan hljóðdeyfi þar sem það sþður og lækkar hitastig þess við það niður í um 100°C. Upphaflega var reiknað með að neyðarlosunarbúnaður væri tengdur við niðurrennslisveitu og væri staðsettur nærri lögninni norðaustan megin við Litla Reykjafell. Þar var reiknað með að hleypa skiljuvatni út í hljóðdeyfi, láta það sjóða niður í 100°C, og leiða þrýstingslaust affallsvatnið frá hljóðdeyfinum að núverandi holum í foreinangraðri neðanjarðarlögn. Slíkar foreinangraðar lagnir þola allt að 130°C hita. Við hönnun lagnarinnar þótti fþsilegra að flytja hljóðdeyfinn að neyðarlosunarsvæðinu og hleypa vatninu beint niður eftir suðu. Það þýðir að í stað þess að vatn í lögninni sé 100°C og þrýstingslaust er það 180°C og undir fullum þrýstingi. Hitastig þess er þá komið upp fyrir það sem hafðbundnar foreinangraðar lagnir þola. Vegna þessara ástæðna verður sett upp ofanjarðarlögn, sambærileg við þær lagnir sem eru í aðveitukerfi virkjunarinnar.
Til að milda ásýnd að lögninni verður jarðvegur settur upp að undirstöðum hennar norðan Hamragilsvegar. Raskað svæði meðfram lögninni verður sett gróðri sem skal vera af sömu tegund og gróður umhverfis lögnina.
Nú munu vera lagnir á svæðinu sem liggja eiga neðanjarðar og þola hiatstig vel yfir 200°C og allt að 15 bara þrýsting. Þær dygðu því vel þrátt fyrir flutning hljóðdeyfisins. Slíkar lagnir eru þó m ögulega eitthvað dýrari í kaupum og lagningu en í samræmi við samþykkt skipulag og fyrri áætlanir og orð OR um að hafa umhverfisrask sem minnst.
Hér er því margt sem bendir til að þessar skýringar séu fyrirsláttur og eigi ekki við fullkomin rök að styðjast. Það er auðvelt að flækja almenning og kjörna fulltrúa hans í vef tækniflækju og rökleysu. Flestir vilja trúa því að stofnanir á borð við OR hafi hagsmuni allra að leiðarljósi. En því miður er því ekki alltaf þannig háttað og þrátt fyrir að OR sé að gera góða hluti á mörgum sviðum verður almenningur og stofnanir sveitarfélaganna að standa stöðugan vörð um hagsmuni sína og umhverfisins.
Þess er rétt að geta að frestur til að skila inn athugasemdum um tillögur þessar rennur út 26. desember n.k., annan dag jóla. Í Ráðhúsi Ölfuss má skoða tillögurnar til 12. desember n.k.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Sannleikann ofanjarðar - lagnir neðanjarðar“, Náttúran.is: 16. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/15/sannleikann-ofanjaroar-lagnir-neoanjaroar/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 15. nóvember 2007
breytt: 16. nóvember 2007