Mikilvægum áfanga að því marki að gera Ísland minna háð jarðefnaeldsneyti var náð nú í byrjun mánaðarins, er 111 síðna skýrsla starfshóps um "heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis" var birt.

Starfshópurinn var skipaður fulltrúum ráðuneyta fjármála, umhverfis- og samgöngumála og sat að tillögugerðinni í meira en ár. Við vinnslu skýrslu sinnar ráðfærði starfshópurinn sig við 29 hagsmunaaðila, en samkvæmt skipunarbréfi hafði hann það hlutverk að gera tillögur um samræmda skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem hefðu þau markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losun gróðurhúsalofttegunda, aukinnar notkunar innlendra orkugjafa, fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins og þjóna áfram sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Grunnur að lagasetningu
Tillögurnar sem reifaðar eru í skýrslunni eru hugsaðar sem grunnur fyrir frekari ákvarðanatöku, svo að á grunni þeirra verði unnt að vinna frumvörp til laga. Bent er á að ýmsar tímabundnar reglugerðir um afslátt af gjöldum á vistvæn ökutæki og orkugjafa renna út um næstu áramót.

Í samantekt skýrslunnar er minnt á að almennt sé litið svo á að árið 2007 hafi sögulegu hámarki verið náð í olíuframleiðslu í heiminum. Hún fari á næstu árum minnkandi vegna takmarkaðra auðlinda. Að sama skapi hefur eftirspurn eftir olíu aukizt jafnt og þétt, ekki sízt vegna iðnvæðingar og hagvaxtar í Kína og á Indlandi, og mun að óbreyttu halda áfram að vaxa. Því er spáð að þetta ójafnvægi framboðs og eftirspurnar muni hafa í för með sér að áfram muni olíuverð hækka.

"Þjóðir heimsins eru farnar að bregðast við þessum aðstæðum með ýmsum hætti og einn ríkur þáttur í því er endurskipulagning skattlagningar á ökutæki og eldsneyti með það fyrir augum að vera ekki jafn háðar jarðefnaeldsneyti og verið hefur," segir í samantektinni. Að sama skapi sé með þessum breytingum verið að bregðast við áhrifum af völdum gróðurhúsalofttegunda og reyna að draga úr losun þeirra.

Mest mengandi bílafloti Evrópu
Fyrir þá sem fylgzt hafa með bílainnflutningi hingað til lands á síðustu árum kemur það lítið á óvart að Ísland er með langhæstu meðaltalslosun koltvísýrings á hvern skráðan bíl af öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Þrátt fyrir að meðaltalslosunin hafi minnkað lítið eitt á síðustu árum hefur heildarlosun aukizt hér. Að óbreyttu er Ísland "afar langt frá að geta uppfyllt þau langtímamarkmið sem sett hafa verið um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum," eins og bent er á í skýrslunni.

Losun grunnur skattlagningar
Til að bregðast við þessari þróun ber að mati starfshópsins að grípa til ráðstafana sem eru í samræmi við alvöru málsins. Lagt er til að tengja skattlagningu í öllum fjórum núgildandi stoðum skattlagningar ökutækja og eldsneytis - stofngjalds (vörugjalds af ökutækjum), árgjalds (bifreiðagjalds), eldsneytisgjalds (vörugjalda af eldsneyti og olíugjalds) og notkunargjalds (kílómetragjalds) - við losun á koltvísýringi (CO2). Það sé í takt við þá þróun sem nú þegar hefur átt sér stað í nágrannalöndunum.

Nánar tiltekið ganga tillögurnar út á eftirfarandi:

  • Stofngjald Í stað vörugjalda á ökutæki komi losunargjald sem miðist við skráða CO2-losun í grömmum á ekinn kílómetra (sjá töflu). Undaný águr frá vörugjaldi, sem nú eru alls 35, verði einfaldaðar og þeim fækkað.
  • Árgjald CO2-losun verði lögð til grundvallar bifreiðagjaldi í stað þyngdar ökutækis.
  • n Kolefnisskattur Nýr skattur, kolefnisskattur, verði lagður á jarðefnaeldsneyti og miðist hann við markaðsverð fyrir losun á tonn af koltvísýringi. Þessi skattur myndi að óbreyttu hækka verð bensínlítrans um 5 kr. og díselolíulítrans um 6 kr.
  • Notkunargjald Kílómetragjald á ökutæki yfir 10 tonn verði óbreytt.

Í heild gera tillögurnar ráð fyrir tekjutilfærslu í skattlagningu af ökutækjum yfir á eldsneyti. Gengið er út frá því að heildarskatttekjur ríkissjóðs verði því sem næst óbreyttar við kerfisbreytinguna, en þegar um fimm ára reynsla verði komin á hið nýja kerfi verði það endurskoðað og stillt af.

Samkvæmt tillögunum er grunnur skattlagningarinnar með sameiginlega þræði þvert í gegn um allt skattkerfið, ólíkt því sem verið hefur. Að auki gera tillögurnar ekki upp á milli ólíkra tæknilausna vistvænna ökutækja eða vistvænna orkugjafa, en það út af fyrir sig væri mikilvæg framför frá núgildandi tímabundnu reglugerðum um gjaldaafslátt af tilteknum vistvænni lausnum.

Ýtir undir vistvæna valkosti
Þar sem þessar tímabundnu reglugerðir renna út um næstu áramót er eðlilegt að vænta þess að ný löggjöf byggð á tillögum starfshópsins geti gengið í gildi strax þá.

Það vill svo til, að brátt koma á markað fyrstu fjöldaframleiddu tengil-tvinnbílarnir, það er bílar sem eru bæði knúnir með rafmagni og hefðbundnum brunahreyfli en bjóða upp á að rafgeymarnir séu hlaðnir úr innstungu. Þannig útbúnir bílar gæfu fólki færi á að aka bíl sínum að stærstum hluta á innlendu vistvænu rafmagni.

Slíkir bílar myndu lenda í lægsta gjaldflokki í nýja gjaldheimtukerfinu og vera þannig sérlega eftirsóknarverðir, ásamt hreinræktuðum rafbílum, metangasbílum og fleiri vistvænum valkostum. Þessi skattkerfisbreyting gæti þannig orðið upphafið að vistvænni orkubyltingu í landsamgöngum hérlendis.

Birt:
10. júní 2008
Höfundur:
Auðunn Arnórsson
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Auðunn Arnórsson „Áfangi að orkubyltingu“, Náttúran.is: 10. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/10/afangi-ao-orkubyltingu/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: