Nýting jarðhita við Gráuhnúka fyrir Hellisheiðarvirkjun
Orkuveita Reykjavíkur kynnir nú áform um nýtingu jarðhita við Gráuhnúka fyrir Hellisheiðarvirkjun og fer kynningin fram í Sveitarfélaginu Ölfusi. Ef í ljós kemur að um gjöfult jarðhitasvæði er að ræða verður 45 MW vél bætt við virkjunina.
Skýrslan hefur verið gerð aðgengileg á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur sem fyrirhugar nýtingu jarðhita fyrir Hellisheiðarvirkjun á nýju vinnslusvæði við Gráuhnúka í Ölfusi, Svæðið er í landi Orkuveitu Reykjavíkur innan þess svæðis sem Orkuveitan hefur leyfi iðnaðarráðherra til rannsókna. Leyfið var veitt þann 7. maí 2001 og gildir frá 1. júní 2001 til 1. júní 2016. Orkan verður nýtt í núverandi aflvélum Hellisheiðarvirkjunar. Ef í ljós kemur að um gjöfult jarðhitasvæði er að ræða verður 45 MW vél bætt við virkjunina.
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Nýting jarðhita við Gráuhnúka og þar með aukin jarðhitavinnsla á Hellisheiðarsvæðinu getur haft áhrif á jarðhitageyminn segir í matsskýrslu. Hugmyndalíkan fyrir jarðhitakerfið hefur verið notað til að meta afkastagetu Hellisheiðarvirkjunar. Niðurstöður líkanreikninga hafa m.a. verið kynntar í matsskýrslum vegna jarðhitavirkjana Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu.
Sérfræðingar munu leggja mat á möguleika aukinnar vinnslu á nýju vinnslusvæði við Gráuhnúka og áhrif á jarðhita og orkuforða út frá fyrirliggjandi gögnum og rannsóknum. Í frummatsskýrslu verður fjallað um jarðhitann, áætlaða jarðhitavinnslu og hugsanleg áhrif á jarðhitageyminn. Matsvinnan er hafin og má nálgast drög að tillögu að matsáætlun á heimasíðu Mannvits hf.
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Nýting jarðhita við Gráuhnúka fyrir Hellisheiðarvirkjun“, Náttúran.is: 24. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/24/nyting-jarohita-vio-grauhnuka-fyrir-hellisheioarvi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.