Pappír - Svanurinn
Pappír - ljósritunar og prentpappír
Hægt er að fá Svansmerktan prentsmiðjupappír, pappír fyrir tölvuprentara faxtæki og ljósritunarvélar.
Prentpappír og umhverfið
Pappír hefur margvísleg áhrif á umhverfið á öllum stigum framleiðslu og notkunar, s.s. við skógarhögg og verkun timbursins, losun mengandi efna frá pappírs- og pappírsmassaverksmiðjum, og að lokum sem sorp, svo dæmi séu nefnd.
Skógar hafa verið ofnýttir um áratugaskeið á norðurslóðum, sem hefur leitt til þess að margar plöntu- og dýrategundir eru í útrýmingarhættu. Til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika á þessum landsvæðum er því nauðsynlegt að taka meira tillit til náttúruverndarsjónarmiða og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við nýtingu skóganna.
Framleiðslan á pappírsmassa og pappírnum sjálfum hefur einnig umtalsvert álag á umhverfið í för með sér. Hún krefst mikillar orku- og efnanotkunar, sem óhjákvæmilega leiðir til mengunar á ferskvatni, sjó og andrúmslofti. Á níunda áratugnum varð mönnum ljóst að notkun klórs við bleikingu á pappír og pappírsmassa skaðaði lífríkið í votlendi í nágrenni verksmiðjanna. Gerðar voru kröfur um aðrar bleikingaraðferðir og í byrjun tíunda áratugarins hættu menn alfarið að nota klór til að bleikja pappír á Norðurlöndunum.
Umhverfismerking
Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað í þeim tilgangi að að auðvelda þér og öðrum neytendum að finna vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif umhverfið. Kröfur Svansins miðast við allan lífsferil vörunnar/þjónustu, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðast kröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu. Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!
Umhverfiskröfur Svansins
Nýting skóga
Til að draga úr ógninni við líffræðilegan fjölbreytileika vistkerfa í og umhverfis skóglendi er gerð krafa um að minnst 15% hráefnisins, þ.e.a.s. trefjanna, komi frá skógum með vottun um sjálfbæra nýtingu, eða að 50% hráefnisins sé endurnýttur pappír. Einnig er mögulegt að uppfylla kröfurnar með samblandi af þessu tvennu. Þessar hráefniskröfur verða síðan hertar smám saman, þannig að hlutfall endurnýtts pappírs og/eða trefja úr vottuðum, sjálfbærum skógi, hækki í umhverfismerktum pappír.
Efnanotkun
Mikið magn kemískra efna er notað við framleiðslu á pappír og pappírsmassa. Þessi efni þjóna ýmsum tilgangi á mismunandi stigum framleiðslunnar, s.s. til bleikingar og til að draga úr froðumyndun, rotnun og slímmyndun við vinnslu pappírsmassa, og til að bæta eiginleika pappírsins sjálfs, s.s. til að gera hann sléttari eða ná fram meiri gljáa. Þá eru notuð tensíð til að fjarlægja prentsvertu af endurvinnslupappír.
Svanurinn gerir þá kröfu að öll kemísk efni, sem notuð eru við pappírsframleiðsluna, séu auðniðurbrjótanleg í náttúrunni og pappírsframleiðslan auki því ekki á magn eiturefna og annarra skaðlegra efna í umhverfinu.
Losun
Framleiðsla á pappír og pappírsmassa hefur óhjákvæmilega í för með sér losun á umtalsverðu magni efna út í andrúmsloftið, ferskvatn og/eða sjó. Efnin, sem rata út í vatn og sjó sökkva til botns og eru ýmist brotin niður af örverum eða mynda ný efnasambönd við efnahvörf. Þetta ferli krefst súrefnis, sem getur leitt til þess að súrefnisskortur verður við botninn ef losun er stórfelld. Súrefnisskorturinn getur svo aftur leitt til botndýradauða í mismiklum mæli og áframhaldandi keðjuverkunar í lífríkinu. Því gerir Svanurinn kröfu um lágt hlutfall súrefniskrefjandi (COD) efna í frárennsli, og á það einnig við um fosfór. Fosfór virkar sem áburður á vatnagróður, aukinn vöxtur kallar á meira súrefni til niðurbrots á gróðurleifum, sem síðan getur valdið súrefnisskorti í vatninu.
Takmarka þarf losun á umframmagni klórdíoxíðs (AOX) vegna bleikingar.
Þá gerir Svanurinn einnig kröfu um lágmarkslosun brennisteins og nituroxíða til að draga úr súrnun og ofauðgun vatns og jarðvegs. Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið er einnig takmörkuð til að draga úr gróðurhúsaáhrifum.
Orkunotkun
Orkuþörf við pappírs- og pappírsmassaframleiðslu er mikil. Til að draga úr orkunotkun og því umhverfisálagi sem henni fylgir (s.s. aukin gróðurhúsaáhrif, súrnun og ofauðgun jarðvegs) gerir Svanurinn ákveðnar kröfur um heildarorkunotkun við framleiðslu á Svansmerktum pappír, sem og sérstakar kröfur um rafmagnsnotkun.
Sorp
Flokka skal allt sorp sem til fellur við framleiðsluna. Það sorp, sem hægt er að brenna, ber að nýta til orkuvinnslu eða endurnýta á annan hátt.
Aðrar kröfur:
Svanurinn gerir kröfu um ítarlega skráningu allra þátta framleiðslunnar sem lúta skilyrðum um umhverfismerkið, auk þess sem óháðir, til þess bærir aðilar (s.s. viðeigandi yfirvöld eða viðurkenndar rannsóknarstofur) verði fengnir til reglulegrar sýnatöku og -greiningar. Gæði pappírsins verða að standast samanburð við það sem almennt gerist annars staðar. Þá verða framleiðendur að starfa í samræmi við gildandi umhverfis- og vinnulöggjöf í hvívetna.
Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.
Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Pappír - Svanurinn“, Náttúran.is: 22. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2008/01/06/pappir-svanurinn/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. janúar 2008
breytt: 22. nóvember 2010