Hlustum á rödd þjóðarinnar! Ekki of seint!
Rúmlega 47.000 undirskriftir á orkuaudlindir.is
Áskorun á www.orkuaudlindir.is fjallar um söluna á Hs Orku, þriðja stærsta orkufyrirtækis landsins og jafnframt um þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarrétt og nýtingu á orkuauðlindum Íslands.
Þegar rúmar 47 þúsundir hafa skrifað undir áskorunina heyrist sú gagnrýni að áskorunin sé marklaus, almenningur sem skrifar undir vitlaus og að leikurinn sé tapaður nú þegar. En því fer fjarri. Forsvarsmenn undirskriftasöfnunar á orkuaudlindir.is telja að mikilvægi áksorunarinnar hafi að undanförnu jafnvel skýrst enn frekar.
Ekki of seint
Ólafur Stefánsson, handboltakappi, sagði á blaðamannafundi sem orkuaudlindir.is boðuðu til í Norræna húsinu fyrir helgi, að við verðum vakna og sjá hversu alvarleg yfirtaka Magma á orkuauðlindum okkar sé; „Að við verðum að stöðva framsalið á orkuauðlindunum og söluna á HS Orku ef við viljum við ekki verða að aumri orkunýlendu. Hann benti á þá sögulegu staðreynd að nú væru lönd ekki endilega yfirbuguð og sigruð með vopnaðri innrás, heldur ætti yfirtakan sér stað smátt og smátt og á lokuðum samningafundum og á tölvuskjám. Hann sagðist vera viss um að ákvörðunin um söluna á HS Orku væri ein slikra afdrifaríkra ákvarðana sem svipta okkur frelsinu.“ Alltof mikil leynd hafi ríkt yfir þessari afdrifaríku ákvörðun og upplýsingar óskýrar en ef maður leggi sig fram um að skilja hvað sé í gangi þá sé á hreinu að þetta verði að stöðva strax. Og það sé aldrei of seint að hlusta á sannfæringu sína og gera það sem er rétt fyrir land og þjóð.
Forstjóri gerir lítið úr andstöðu. En raun ber vitni!
Ásgeir Margeirsson gerði lítið úr undirskriftum þúsunda Íslendinga í hádegisfréttum Rúv í gær, en hann er forstjóri Magma Energy Sweden AB á Íslandi, stjórnarformaður HS Orku- einn stærsti hagsmunaaðili málsins og hvergi nærri hlutlaus. Hann segir að það sé til einskis að krefast þess að komið verði í veg fyrir söluna á Hs Orku þar sem nú þegar hafi verið gengið frá málinu. Einnig segir hann að gagnrýni á nýtingarfyrirkomulag sé marklaus þar sem ekki sé ætlunin að nýta meiri orku en heimilt er. Hann vísar í lög og eftirlit og að hvergi sé hægt að fara fram hjá því. En raun ber vitni. Löggjöf okkar og eftirlit er byggt á of veikum grunni nú eftir hrun svo við getum treyst því í blindni að þeim verði fylgt.
Einnig hefur verið gert lítið úr kröfu um að orkuauðlindir séu í almannaeigu þar sem í tilfelli Magma varði eingöngu nýtingarréttinn. En málið er að auðlind er ekki uppspretta auðs nema hún sé nýtt og sala á nýtingarrétti samsvarar sölu á auðlindinni sjálfri.
Gloppótt lög, siðleysi og dómstólar: Salan bæði lögleg og ólögleg
Hagsmunaaðilar málsins fögnuðu því opinberlega að nefnd um Magmamálið hefði úrskurðað söluna á Hs Orku löglega. Síðan var málið ekki rætt frekar. En staðreyndin er sú að nefndin sem skilaði hundrað síðna skýrslu um málið komst að þeirri niðurstöðu að sala á þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og framal á nýtingarrétti mikilvægra orkuauðlinda landsins til langs tíma stangist í mikilvægum grundvallaratriðum á við markmið orkulögjafar okkar. Niðurstaða nefndarinnar er sú að salan sé bæði lögleg og ólögleg. Einnig var í skýrslunni farið ítarlega yfir möguleikana í stöðunni; hvað hægt er að gera núna.
Í Magmaskýrslunni er beinlínis varað við því að einkavæðing í orkuiðnaðinum sé í hliðstæðum farvegi og ferli einkavæðingar bankanna. Á blaðamannafundi orkuauðlinda.is í Norræna húsinu benti Eva Joly stjórnvöldum á að hrinda af stað sérstakri rannsókn á málinu og gera út um kaupin á Hs Orku fyrir dómstólum enda virtist söluferlið vera markað af spillingu og siðleysi.
Krafa um að vita hvað gerðist, hvað er að gerast: Var samningurinn við Magma besti samningurinn? Var öðrum áhugasömum kaupendum hleypt að?
Orkuauðlindir Íslands verða dýrmætari með hverjum deginum sem líður og eftirspurn eftir nýtingu þeirra ætti að aukast í jöfnu hlutfalli ef fer sem horfir í heiminum. Það er því eðililegt að Íslendingar fái sjálfir arð af sínum auðlindum og hafi lögsögu um þær.
Sama hvaða stjórnmálaflokki við erum í, sama hvort við viljum tilheyra Evrópu eða öðru samhengi, sama hvort við erum hliðholl einkarekstri eða ríkisrekstri, hvort við viljum frjálsa samkeppni eða ekki, þá eigum við rétt á að vita hvað gerðist og hvernig : Er þetta besti mögulegi sölusamningurinn? Er þetta í almannahag? Atvinnuuppbygging og endurreisn Íslands verður framvegis að stjórnast af öðru en hagsmunum lokaðra og samtengdra hagsmunahópa og stórfyrirtækja. Almenningur á að njóta góðs af uppbyggingunni í orkuiðnaðinum og verður að krefjast þess að fá að vita hvert er stefnt.
Misvísandi upplýsingar um mikilvægt mál : Magma orðið að fordæmi? Hvaða auðlindum afsölum við okkur næst í skjóli nætur?
Það er ekki nóg að vísa til einstakra lagaákvæða og réttlæta þannig framsal á auðlindum þjóðarinnar, markmið laga okkar þarf að skýrast af vilja þjóðarinnar. Magma Energy nýtti sér mótsagnir í lögum okkar og notfærði sér millibilsástand þar sem þjóðin er enn ekki búin að marka sér nýja stefnu eftir stórfellt hrun og ákvarðanir teknar án vitundar almennings. Og nú virðist þessi leið Magma inn um gloppur á okkar vitund og kerfi vera orðin að fordæmi:
Fréttir gærdagsins af Orkuveitu Húsavíkur undirstrika enn frekar þörfina á ákvörðun þjóðarinnar. Upplýsingar um málið eru misvísandi –ýmist er sagt að verið sé að lána fyrirtækið eða selja það- til bresks eða ástralsks fyrirtækis. Af fréttatilkynningum kaupandans er ljóst að fyrirtækið Wasabi Energy er komið til að vera og af yfirlýsingum þess um fyirrhugaða starfsemi er full ástæða til óttast um heilbrigða samkeppni í atvinnuuppbyggingu, um fjölbreytileika atvinnulífsins og ekki síst um raforkuverð til almennings. Er verið er að selja Orkuveitu Húsavíkur til erlends einkaaðila til að borga fyrir skuldir sem m.a. álrisinn Alcoa ætti að taka á sig vegna kostnaðaráhættu við orkurannsóknir vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka? Þá væri ágætt að fá að vita það.
P.s. : Athugasemd varðandi fyrirhugaða orkunýtingu Magma Energy:
Ásgeir segir að engin hætta sé á ofnýtingu orkuauðlindarinnar. En staðreyndin er sú að nafnlausir jarðfræðingar á vegum Hs Orku og Ásgeir sjálfur og Ross Beaty forstjóri kanadíska móðurfyrirtækisins Magma Energy, hafa gefið út yfirlýsingar um nýtingargetu orkuauðlindanna sem stangast heldur betur á við allar rannsóknir okkar virtustu jarðfræðinga til margra ára og opinberar áætlanir fyrirtækisins um stórfellda sölu orku til álframleiðslu gefa mikla ástæðu til þess að efast um að farið verði með fyllstu gát að auðlindunum.
(Eins og kom fram í máli Stefáns Arnórssonar, okkar reyndasta jarðvísindamanns,
á Magma-málþinginu 7. október 2010 verða jarðorkuauðlindir okkar uppurnar eftir 50 ár ef reynt verður að kreista allt að 4.000 MW út úr þeim. Sjá t.d. hér: http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/11/16/glaepur-eda-galeysi/
Frekari upplýsingar veita Oddný Eir Ævarsdóttir, sími 8480767 og Jón Þórisson, sími 8219954.
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Hlustum á rödd þjóðarinnar! Ekki of seint! “, Náttúran.is: 11. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/11/hlustum-rodd-thjodarinnar-ekki-seint/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.