Undir yfirsögninni „Verjum Þjórsá!“ verður dagskrá í Fríkirkjunni í Reykajvík sunnudaginn 17. febrúar klukkan 16:00

Ár er nú liðið frá því fjögurhundruð Íslendingar komu saman í félagsheimilinu Árnesi (sjá frétt) til að mótmæla áformum Landsvirkjunar um að þrívirkja Þjórsá í byggð. Sterk andstaða kom fram, bæði meðal heimamanna og fjölda annarra sem til þekkja og er annt um byggðir og náttúru á Suðurlandi. Eldri borgarar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi andmæltu áformunum einum rómi og stofnuð voru samtökin Sól á Suðurlandi.

Sólin hefur starfað óslitið síðan og fylgst með gjörðum Landsvirkjunar og ráðherra við virkjanaundirbúning. Komið hefur í ljós að stjórnsýslan var ekki sem skyldi, upplýsingar af hálfu Landsvirkjunar voru af skornum skammti og stundum villandi eða jafnvel rangar. Samningar um afsal ríkisins á vatnsréttindum voru gerðir tveimur dögum fyrir kosningar og hvergi kynntir. Samningarnir stóðust ekki skoðun og voru einskis virði. En Landsvirkjun lét eins og fyrirtækið hefði vatnsréttindin í hendi sér. Sú túlkun Landsvirkjunar hefur ekki verið leiðrétt. Umfangsmiklar rannsóknarframkvæmdir voru gerðar við Skarðsfjall í vetur án nægilegrar kynningar meðal heimamanna, landeigendur og nágrannar vissu fátt um hvað þar var á ferðinni..

Nú þegar ár er liðið frá mótmælafundinum í Árnesi fer Landsvirkjun sínu fram og lítið gert úr víðtækri andstöðu framkvæmdanna. Því er nú haldinn annar fundur. Sól á Suðurlandi og aðrir unnendur Þjórsár halda þessa samkomu og vonast til þess að sem flestir komi í Fríkirkjuna.

Þjórsá er eign þjóðarinnar.
Birt:
12. febrúar 2008
Höfundur:
Unnendur Þjórsár
Tilvitnun:
Unnendur Þjórsár „Verjum Þjórsá! - Dagskrá í Fríkirkjunni “, Náttúran.is: 12. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/12/verjum-thjorsa-dagskra-i-frikirkjunni/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: