Þegar þú tekur eftir fíflunum [Taraxacum spp.] á vorin er fullseint að tína þá í salat – segir enskt máltæki. Blöðin eru mildust snemma á vorin áður en plönturnar fara að blómstra, en það er fyrst þegar gul karfan brosir móti sólinni að við tökum virkilega eftir þeim. Fífillinn er boðberi vorsins, rétt eins og lóan.

Skærgulu vorblómin, túnfífillinn og hófsóleyjan, segja með svo afgerandi hætti að nú sé vetrinum lokið og orkan í litnum virkar svo hvetjandi á okkur. Þó þykir fífillinn of ágengur, enda fékk hann ekki tilnefningu þegar þjóðarblómið var valið. Í sumum tungumálum er fífillinn kenndur við lögun blaðanna og kallaður ljónstönn. Við tókum ekki upp þessa orðmynd heldur notum gamalt og gott norrænt orð, fífill.

Orðin fífill og fífa eru skyld og tákna líklega upprunalega blómskipan, sem er hnöttótt en þó með oddmjóum, mjúkum blöðum eða strengjum. Þegar fífillinn er kominn á fræmyndunarstigið og orðinn að biðukollu þá líkist hann fífunni. Björn í Sauðlauksdal stingur upp á því – að gera sér reit í sáðgarði af þessari urt, því hún sé góð til manneldis, bæði blöð og rætur. Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum finnst þetta fáránleg hugmynd þótt hann hafi eftir norskum fræðimanni að fífillinn hafi verið fluttur inn til Noregs fyrir ekki svo löngu síðan. Mér finnst hugmyndin alls ekki vitlaus ef fífillinn vex ekki í nægilegu magni af eigin hvötum.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Mynd: Fíflar í maí. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
3. apríl 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fífill“, Náttúran.is: 3. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/ffill/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 3. apríl 2014

Skilaboð: