Fjölmenni á fróðskaparkvöldi um jurtanytjar
Í gærkveldi var opinn fundur í félaginu Matur-Saga-Menning í Matarsetrinu Grandagarði 8 undir titlinum „Fróðskaparkvöld um jurtanytjar“. Viðfangsefni fundarins hitti greinilega í mark því gríðarlegt fjölmenni var á fundinum. Þegar mest var voru um tvöhundruð gestir á staðnum. Ræðumenn fundarins voru heldur ekki af lakara taginu og stóðu sig öll með afbrigðum vel.
Guðfinnur Jakobsson forstöðumaður Skaftholtsheimilisins og lífrænn garðyrkjubóndi þar á bæ, reið á vaðið og ræddi ofan og utan af fjallagrösum [Cetraria islandica].
Guðfinnur ólst upp með fjallagrösum og fékk þau tilreidd af móður sinni bæði til matar og sem meðal til að vinna gegn pestum. Hann hefur um áratuga skeið farið á grasafjall. Guðfinnur las úr gömlum bókum s.s. úr „Grasnytjum“ og „Arnbjörgu“ Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og „Ferðabók“ Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá öndverðri átjándu öld og úr nýrra riti „Íslenskum lækningajurtum“ Arnbjargar Lindu Jóhannsdóttur.
Meðferðis hafði Guðfinnur ljúffengt fjallagrasaseyði sem hann bauð gestum að smakka á. Einnig var fjallagrasa- kex og brauð bakaða af HilduiHákonardóttur og Þór Vigfússyni á boðstólum.
Næstur á mælendaskrá var Hannes Lárusson myndlistarmaður og frumkvöll Íslenska bæjarins í Flóanum. Hannes er mikið náttúrubarn og hefur í áratugi m.a. gert tilraunir með að brugga vín úr íslenskum jurtum og berjum. Hannes er skemmtilegur sögumaður og lýsti víngerð sinni af mátulegum skammti af hógværð og húmor. Hannes sagði að eftir að hann hafi byrjað að lesa sig til um bruggun á Íslandi hér á öldum áður hafi hann næstum misst móðinn því sífellt var verið að telja mönnum hughvarf og lýsa því hve erfitt það væri og líklega myndi allt hvort eð er mistakast. Hann lét þetta þó sem vind um eyrun þjóta og vitnar að aldrei hafi vín mistekist hjá honum, þó að tilraunirnar hafi kannski ekki allar endað jafn stjórkostlega. Niðurstaða Hannesar er að mjaðurtin [Filipendula ulmaria] sé hvað best í vín enda blómin bæði yndislega ilmandi og hunangið sætt. Hannes gerir einnig bláberja-, krækiberja- og fíflavín sem hann gaf öllum síðan að smakka á í lokin. Múgur og margmenni ruddist fram í salinn að Hannesi til að bragða á góðgætinu.
Ég lét mér nægja að fylgjast með í fjarlægð enda hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að súpa veigar Hannesar og konu hans Krístínar heila kvöldstund hjá þeim í Flóanum og jú vínið er harla gott og meira en það. Niðurstaða mín er sú að Hannes gæti vel söðlað um og snúið sér alfarið að víngerð eftir viðtökunum á fundinum í gær að dæma. En hann á marga drauma og sinnir þeim öllum af alúð þangað til að þeir verða að veruleika svo varla fer Hannes að stunda víngerð eingöngu. Sjá t.d. „Íslenska bæinn“. Hannes vilidi ekki meina að hann notist við uppskriftir en hér eru nokkra í bókinni Ætigarðinum eftir Hildi Hákonardóttur.
Næst á dagskrá var fjöllistakonan Hildur Hákonardóttir sem af mikilli innlifun lýsti kynnum sínum af sölvum [Palmaria plamata] og sölvatöku. Að ná í söl er vandaverk því tll þess þarf að komast langt út á sker, á háfjöru þegar stórstreymt er. Hildur nær í sín söl með sölvatekjuhópi sínum og notar til þess kajak. Sumir nota til þess pollagalla og góð stígvél. Aðeins eru tveir dagar til sölvatöku á ári þ.e. á Jónsmessu og á Höfuðdegi. Söl geta að sögn Hildar verið allt í senn: krydd, meðlæti, krás eða hallærismatur. Nokkrir punktar úr fyrirlestri Hildar:
- Flestir skola saltið af sölvunum en það er smekksatriði
- Það er best að þurrka sölin hægt - í bílskúr eða kaldri geymslu eða úti og má gjarnan skína sóla á þau
- Það er þjóðráð að þra vatni í sölin ef þau eru of þurr
- Þau mega ekki blotna eftir að þau eru farin að þorna
- Eftir að þau eru þurr en helst ekki skráfþurr heldur mjúk þarf að fergja þau í amk. þrjár vikur svo sykrun geti átt sér stað
Sjá hvað Hildur segir um söl í bók sinn Ætigarðinum.
Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur ræddi að lokum um sveppi og ber af mikilli kunnáttusemi og skýrði vel hvernig hægt er á öruggan hátt að sneiða hjá því að innbirða eitraða sveppi. Hún notar aðeins hattsveppi „án fana“ þ.e. þá sem eru með svampkenndum botni. Mikið af góðum ætisveppum eru á Íslandi, svo mikið að Guðrún furðar sig mjög að íslendingar hafi nokkurn tíma þurft að líða hungur. Guðrún talaði einnig um ber og berjanytjar. Eins og aðrir ræðumenn vitnaði Guðrún oft í þau rit sem geyma sögu fyrri ára og alda af berjum og sveppum. Níu villtar berjategundir hafa sannanlega verið nýttar hérlendis að einhverju ráði þ.e.: krækiber, bláber, aðalbláber, hrútaber(mulningur), jarðaber, reyniber, einiber, sólber og rifsber Það er því ýmislegt hægt að finna af efni um geymsluaðferðir s.s. þurrkun, geymsla í skyri, sultun og söftun. Í nútímanum er auðveldara að geyma berin því auðvelt er að frysta þau.
Sjá nokkrar uppskriftir hér á Grasaguddu Náttúrunnar. Sláðu einfaldlega inn nafn þess sem þú leitar að í leitarvélina hér efst fyrir miðju á síðunni.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fjölmenni á fróðskaparkvöldi um jurtanytjar“, Náttúran.is: 27. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/27/fjmenni-matarmenningarfundi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. september 2011