Áður en við förum að huga að ástæðum þess að hafa sem flestar innlendar tegundir og hvernig við öflum þeirra og fáuð þær til þess að þroskast hjá okkur er ekki úr vegi að fjalla svolítið nánar um grunninn, jarðveginn.
Í öllum menningarsamfélögum hefur jörðin eða jarðvegurinn haft sérstaka tilvísun, fósturjörðin til dæmis eða að vera jarðaður í mold föðurlandsins. Það kann þó að vera að síðustu áratugi hafi þessi áhersla hér á landi færst meira yfir á hafið þar sem við byggjum lífsafkomu okkar að verulegu leyti á sjávarfangi. Þetta er ekki alveg nógu gott þar sem leiða má getum að því að heilu þjóðirnar hafi liðið undir lok vegna þess að þær fóru illa með jarðveginn og nægir að nefna Föníkumenn sem dæmi.
Fæstir vita nógu vel hvað jarðvegur er, halda að hann sé eitthvað sem kemur á skóna og undir neglurnar þegar unnið er í garðinum. Jarðvegur er nefnilega meira en efni til miðlunar á næringu eða eitthvað sem plöntur nota til að festa ræturnar í. Jarðvegur er ekki bara eitthvað sem hægt er að ráðskast með og bæta í hinum og þessum áburði til að fóðra plönturnar. Jarðvegurinn er lifandi! Hann er lífkerfi, fullur af lifandi verum með ákveðna eiginleika og efnaskipti sem stuðla að þrifnaði og heilbrigði hans.
Af öllum samverkansi þáttum gróðurræktar er jarðvegurinn sa mikilvægasti. Í moldinni vaxa plönturnar og þar fá þær stærstan hluta af næringu sinni. En hvað er þá mold? Mold er flókið, náttúrulegt efni með efnafræðilegum, líffræðilegum, steindarfræðilegum og áferðarfræðilegum eiginleikum. Hún verður til fyrir áhrif veðurfars, lífvera og fleiri þátta á löngum tíma. Hún er lengur að verða til í köldu loftslagi eins og hér ríkir en þar sem heitara er. Þar af leiðandi er hún öllu dýrmætri mold fjúka á haf út. Aldur moldarinnar hefur bein áhrif á suma eiginleika hennar og þess vegna er hún mismunandi eftir því hversu djúpt hún liggur. Yfirborðslagið er yngst og oftast með mest af rotnandi jurta- eða dýraleifum og því frjósamast að öllu jöfnu. Segja mætti að jarðvegur væri blanda af sandi (kornastærð 0.05 – 2 mm), mélu (kornastærð minni en 0.002 mm), vatni og lofti.
Mikilvægustu næringarefni plantnanna koma úr þeim hluta jarðvegsins sem er að brotna niður. Það geta verið rúmlega hundrað efni í jarðvegi en aðalefnin sem plönturnar þurfa eru köfnunarefni, fosfór, kalí, kalsíum, magnesíum, brennisteinn, kolefni, vetni og súrefni. Fyrir heilbrigðar plöntur er nauðsynlegt að sjá til þess að öll þessi efni séu til staðar. En sandurinn og mélan geyma fleiri efni sem eru aðaluppspretta þeirra steinefna sem gróðurinn þarfnast. Þau eru auk þeirra er áður voru talin, fosfór, mangan, kopar, járn, kóbalt, zink, natríum, joð, bóron og fleiri. Án þessara efna, sem kölluð eru snefilefni fá plönturnar heldur ekki þrifist.
Lífræni hlutinn er sá hluti sem hefur mest áhrif á köfnunarefnisframleiðslu moldarinnar. Þessi hlutur er einn mikilvægasti þáttur jarðvegsins vegna þeirra milljóna örvera sem eru öllu plöntulífi nauðsynlegur og stuðlar beint og óbeint að þrifnaði þeirra. Auk þess geymir jarðvegurinn vatn, kolsýru og fleiri efni sem örverurnar framleiða.
Áferð eða gerð jarðvegsins fer eftir þeim hlutföllum steinefna sem í honum er. Hann getur verið grófur eða fínn, laus eða þéttur, rþr eða næringarríkur, sendinn eða leirkenndur og í ýmsum blöndum af þessum möguleikum.
Vatns- og loftheldni jarðvegsins ákvarðast að verulegu leyti af því hversu grófur hann er. Góður jarðvegur á að vera fjörutíu til sextíu prósent vatn og loft. Því grófari sem jarðvegurinn er því þurrari er hann og rþrari af næringarefnum þar sem regn skolar þeim auðveldlega burtu. Sumar plöntur kjósa þó þannig jarðveg og er melasólin okkar eitt dæmi um það.
Viðunandi jafnvægi lofts, vatns og moldar er nauðsynlegt fyrir heilbrigðan vöxt. Það er þó afstætt eins og áður sagði hvað hver planta kþs en almennt má segja að of mikið vatn dragi úr losun köfnunarefnis og eyði steinefnum. Of mikið loft hraðar losun köfnunarefnis svo að plönturnar geta ekki nýtt sér það og það tapast.
Vatn í jarðvegi er þrenns konar, ídrægt, grunnvatn og jarðvegsraki. Ídrægt vatn er það vatn sem bundið er jarðveginum, loðir við yfirborð korna og er ekki aðgengilegt plöntunum nema að litlu leyti. Í því er mest af þeim næringarefnum sem plönturnar þurfa, eins og uppleyst steinefni og örverur. Grunnvatnið er það vatn sem sígur úr jarðveginum niður í berggrunninn og er heldur ekki mjög aðgengilegt plöntunum. Jarðvegsrakinn er hins vegar það vatn sem er í yfirborðsveginum, í plássinu sem myndast milli korna, og sem plönturnar geta nýtt sér. Ef skortur er á því geta plönturnar skaðast. Kannski er þetta orðið örlítið of fræðilegt og leiðinlegt og skýrir ekki beint hvað það er sem plönturnar þrífast á.
En hvað er það þá sem plöntur éta eiginlega? Ég á fullt eins von á því að svarið við því komi þér rækilega á óvart. Við skulum aðeins velta því fyrir okkur ásamt öðrum eiginleikum jarðvegsins. Þegar þú ert að hreinsa og undirbúa beðin þín fyrir plönturnar finnur þú óhjákvæmilega steina í jarðveginum.
Þeir samviskusöm tína þá úr moldinni. Láttu það eiga sig. Ekki vegna þess að það sé allt of mikil vinna, heldur vegna þess að grjót er, fyrir utan allt annað eins og uppleystar örverur og önnur lífræn efni, það sem plöntur éta. Steinefnin í jarðveginum eru uppleyst grjót. Grjót sem er orðið svo smátt að það er komið niður í frumeindir. Grjót sem hefur molnað í frostum, sorfist í regni og jarðvatni og tærst af sýru eins og sjá má á holtagrjóti sem skófirnar eru að vinna á.
Skófirnar taka til sín steinefni úr grjótinu sem þær lifa á og setja það inn í frumur sínar sem óleysanlegar, lífrænar sameindar. Þær, og reyndar allur annar gróður, verða þannig steinefnalager. Jurtaæturnar og þeir sem þæt éta verða líka steinefnalager. Hægt og rólega á hundruðum milljóna ára verða þannig til geipileg steinefnaverðmæti sem geymd eru í lifandi vefjum eins og innistæða í banka. Svo þegar þessir lifandi vefir deyja taka rotnunargerlarnir við og hluta vefina sundur svo að steinefnin verða aftur tiltæk rótum plantnanna. Þessir rotnunargerlar lifa í efsta lagi jarðvegsins svo að þegar þú rakar ofan af beðunum ertu í raun og veru  að fjarlægja endurvinnslukerfi garðsins. Og það sem þú stingur gafflinum í þegar þú ert að stinga upp beðin eru meltingarfæri beðsins.  Svo að ef þú hvorki rakar né stingur upp, þarftu ekki heldur að gefa áburð. Það er nefnilega þannig að plöntur eru betur færar um að viðhalda, og reyndar bæta, frjósemi jarðvegsins en ég og þú. Við þetta njóta þær aðstoðar ýmissa lífvera.
Stórvirkasti  lífveran sem hjálpar þeim er gamli góði ánamaðkurinn. Það eru reyndar til ellefu tegundir ánamaðka hér á landi. En ánamaðkurinn er svo stórvikur að það sem þú gerir með gaffli eru smámunir hjá því sem hann gerir. Í fyrsta lagi fer hann miklu dýpra en þú getur farið. Hann fer niður fyrir frost og hefur fundist á næstum fimm metra dýpi. Maðkar eru svo margir að undrun sætir. Þar sem land er frjósamt og gróður er nægur getur samanlagður þungi ánamaðkanna undir yfirborðinu orðið meiri en sem nemur þyngd dýranna á yfirborðinu. Ánamaðkar og þráðormar, sem eru enn fleiri, loftræsa jarðveginn, þ.e. hleypa súrefni inn og kolsýru út. Þeir stuðla að jafnari vökun þar sem vatn á greiða leið um göng þeirra. Og þeir brjóta niður lífræn efni eins og sölnað lauf og gras. Það gerir einnig fjöldinn allur af öðrum lífverum sem við verðum ekki vör við eins og eftirfarandi saga sýnir.
Líffræðingar tóku sýni úr skógi í norðvesturhluta Bandaríkjanna.
Í þessu sýni hafa þegar verið greindar um 3.400 tegundir og líkur benda til að þær verði á endanum í kring um 8.000. Flestar þessar tegundir eru töluvert miklu minni en punkturinn á eftir þessari setningu eins og sést á því að gerlarnir voru um 4.000 milljónir í hverju grammi jarðvegs og prótósóur, sem lifa að mestu á þeim, álíka margar. Í hverri únsu (28 gr.) var lengd sveppaþráða 1.77 mila. Niðurstaðan var að lífverur í jarðvegi væru um 3% af heildarþunga hans. Ofanjarðar, þar sem sýnið var tekið, voru aðeins 143 tegundir lífvera!
Þannig má segja að plönturnar séu eins og færiband sem flytja efni frá jarðveginum og upp á yfirborðið þar sem ný tist þeim sem ofanjarðar eru. Þegar plönturnar sölna og deyja fellur allt þetta efni aftur til jarðar þar sem ný hringrás hefst.
Sýrustig jarðvegs er mælt í stigum, sem kölluð er ph-gildi og eru frá 0 til 14. Meðalgildið er talið 7 og er þá sagt að jarðvegurinn sé hlutlaus. Flestar plöntur vaxa best við hlutleysi og margar þola örlítið súran jarðveg, þ.e. lægri gildi en 7. Sumar eru þó ansi sérhæfðar og fúlsa við jarðvegi sem hæfir þeim ekki hvað sýrustig varðar. Nokkrar krefjast mjög basísks jarðvegs en aðrar mjög súrs eins og t.d. ýmsar lyngtegundir. Þar sem er mikið barrfelli, er jarðvegur súr vegna efnaeiginleika barrsins þegar það brotnar niður. Jarðvegur á báðum endum skalans er mjög fastheldinn á næringarefnin sem hann hefur að geyma.
Aðalástæða þess að nota innlendar plöntur skrifast á Darwin gamla. Hann sagði einhvern tíma að aðeins þeir hæfustu kæmust af. Plönturnar “okkar” hafa þróast um þúsundir ára í harðri samkeppni. Því er það að þegar þú gróðursetur eða sáir innlendri plöntu eru að nýta þér þróunarsögina. Veistu um betri ástæðu fyrir vali á blómplöntu en þá að plantan er ef til vill með hundruð þúsunda eða milljónir ára reynslu við þínar aðstæður?
 En hvað eru þá innlendar plöntur? Það eru þær plöntur sem hafa þróast hér og eru eðlilegur hluti lífkeðjunnar. Aðrar eru aðfluttar. Stundum nefndar “exótískar” jurtir upp á útlensku. Í raun og veru eru allar plöntur innlendar einhvers staðar nema svokallaðar “híbríður” eða afbrigði en það eru þær jurtir sem hafa verið meira og minna búnar til með einræktun og kynblöndun til þess að fá stærri blóm eða blöð, öðruvísi vaxtarlag, stærri aldin eða eitthvað annað.
Til þess að nota innlendar plöntur verðurðu að skoða plönturnar úti í náttúrunni. Þá færðu þér góða handbók og trítlar af stað. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli hvernig þú aflar þér plantnanna svo framarlega sem þú ferð að öllu með virðingu fyrir lífríkinu. Ef þú lærir ekki allt sem þú getur um hverja tegund sem þú aflar þér, þá ertu í djúpum... eins og sagt er. Því meira sem þú veist, því auðveldara og skemmtilegra. Því þú ert í rauninni ekki í innkaupaferð heldur leiðangri.
Lærðu að þekkja plönturnar, íslenskt nafn, latneskt nafn, blómskipun, lauf, vaxtarlag, vaxtarstað og blómgunartíma.
Aðeins ef þú þekkir jurt verðurðu þess umkomin að finna hana út í náttúrunni, eða gróðrarstöðinni, og veist hvort þig langar að hafa hana í garðinum. Þetta er auðveldasti hluti garðyrkjunnar, eins konar “hægindastólsgarðyrkja”. Allar skyndamlegar ákvarðanir sem þú tekur um nánasta umhverfi þitt verða að byggjast á upplýsingum.
Þegar þú finnur plöntu sem þér líst á, skoðarðu skilyrðin sem hún vex við eins og jarðveg, félagsskapinn ( aðrar plöntur) sem hún vex í og hvort hún vex í skugga, mót sól, í raka eða þurrki og þú athugar hvenær hún þroskar fræ.
Svo ferðu aftur á staðinn áður en fræfall hefst og þiggur frægjöf frá plöntunni. Mundu eftir að þakka fyrir þig. Þú hefur með þér skóflu og plastpoka og tekur smá jarðveg svo þú getir boðið henni sömu skilyrði heima hjá þér. Að sjálfsögðu gengurðu vel um og skilur ekki eftir sár sem getur stækkað og orðið upphafið að meiriháttar uppblæstri.
Þegar heim er komið sáirðu fræjunum strax því sumar plöntur hafa innbyggða loka í genunum og þurfa bæði frost og þíðu til þess að spíra.
Reyndar eru sumar svo magnaðar að þær þurfa tvo vetur eða fleiri áður en þær kíkja upp úr moldinni. Þetta er hægt að fara í kring um með því að setja þær í frysti í nokkra mánuði, láta þær svo þiðna í nokkrar vikur og frysta þær svo aftur. Þá hefurðu platað fræið og ættir að fá lítinn grænan sprota upp úr pottinum.
Ef þú ætlar að flytja lifandi plöntu úr náttúrunni í garðinn þinn þá skaltu taka eins stóran hnaus með henni og þú getur og slatta af aukajarðvegi í poka. Þú verður að athuga að rótarkerfið má ekki verða fyrir miklu hnjaski og í raun og veru er alltaf betra að taka fræ heldur en lifandi plöntur. Auk þess eru nokkrar plöntur sjaldgæfar og friðaðar.

Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „4. kafli - Jarðvegur og plöntuval“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/4-kafli-jarvegur-og-plntuval/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: