í dag mánudaginn 21. apríl 2008 kemur stofnandi Saving Iceland, Ólafur PallSigurðsson fyrir héraðsdóm Austurlands ákærður fyrir eignaspjöll. Ákæran er til komin vegna atburða í mótmælabúðunum við Snæfell í júlílok 2006.

Öll borgaraleg vitni segja að fjórhjóladrifsjeppa lögreglunnar hafi viljandi verið ekið á Ólaf Pál á hraða sem gat haft lífshættu í för með sér. Ökumaðurinn, Arinbjorn Snorrason, lögregluþjónn nr. 8716 og háttsettur við stjórn aðgerðanna við Kárahnjúka, reyndi einnig að aka yfir aðra mótmælendur við mörg önnur tækifæri þetta sumar sem og við Lindur (nú undir vatni en þar voru mótmælabúðir Saving Iceland) og við mótmælaaðgerðir á byggingarsvæði Desjarárstíflu.

Í aðdraganda atviksins hafði lögreglan komið á bílnum sem Arinbjörn ók til þess að áreita mótmælendur og ögra þeim. Lögreglan ljósmyndaði mótmælendur úr kyrrstæðum bílnum þar sem þeir voru í biðröð fyrir utan matartjald. Lítill hópur fólks, þeirra á meðal Ólafur Páll, gekk í átt að lögreglubílnum. Skyndilega, og án nokkurrar viðvörunar, ók Arinbjörn snöggt og hratt í átt að Ólafi Páli og síðan á hann. Allir sem á horfðu undruðust að hann skyldi sleppa frá árásinni tiltölulega óskaddaður.

Þar sem þetta atvik hefði í raun getað kostað hann lífið, lagði Ólafur Páll fram formlega ákæru gegn lögreglunni. Hálfu ári síðar lýsti ríkissaksóknari yfir því að hann sæi enga ástæðu til þess að hleypa þessari ákæru lengra, eftir að hafa talað við lögreglumenn sem
viðstaddir voru. Þrátt fyrir að allmörg borgaraleg vitni væru reiðubúin að bera vitni gegn lögreglunni var aldrei haft samband við þau til að gefa skýrslu. Ríkissaksóknari neitaði að hefja nokkra rannsókn á atviki því sem leitt hefði getað til dauða Ólafs Páls, nema auðvitað að tala við árásarmennina sem lögðu fram gagnákæru. Nú, tveim árum síðar, er málið tekið fyrir við hérðasdóm.

Þess er krafist að Ólafur Páll greiði bætur fyrir skemmdir á bílnum (sem eiga að hafa orðið þegar ekið var á hann), og að honum verði refsað samkvæmt lögum. Þegar atvikið átti sér stað var enn í gildi skilorðsdómur yfir Ólafi Páli fyrir að sletta skyri ásamt tveim öðrum mótmælendum, yfir gesti á alþjóðlegri álráðstefnu í Reykjavik í júní 2005. Af því leiðir að ef Ólafur Páll verður sekur fundinn um að hafa skemmt lögreglubílinn kann hann að verða hnepptur í fangelsi.

Mótmælendurnir saka lögregluna um að vilja hefna sín á Saving Iceland. “Þessi blanda af persónulegri illgirni og fullkomnum virðingarskorti fyrir lýðræðislegum rétti til mótmæla er dæmigerð fyrir íslensku lögregluna í samskiptum við mótmælendur Saving Iceland,” segir talsmaður Saving Iceland.

“Saving Iceland telur að ríkissaksóknari hafi látið það viðgangast að þessu glæpsamlega athæfi lögreglunnar sem ætlað var að valda Ólafi Páli líkamlegum skaða, sé snúið upp í farsakennd lögregluréttarhöld dulbúin sem hversdaglegt skemmdarverkamál. Verði niðurstaðan af málinu sú að Ólafur Páll þurfi að sæta fangelsisvist verður hann augljóslega pólitískur fangi íslenska ríkisins. Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að ímynda sér að þau geti leynt svo hneykslanlegri misbeitingu réttarfars fyrir alþjóðasamfélaginu.”

Viðbótarupplýsingar um baksvið málsins

Fyrr á þessu ári var Þorsteinn Davíðsson skipaður héraðsdómari Austurlands. Faðir hans, Davíð Oddsson (fyrrverandi forsætisráðherra um árabil og núverandi seðlabankastjóri) er yfirleitt talinn hafa verið ein helsta driffjöður stóriðjustefnu stjórnvalda. Ráðning Þorsteins í stöðu héraðsdómara olli mikilli hneykslunarbylgju um allt Ísland og þungum ásökunum á hendur stjórnvalda fyrir að hygla ættingjum, jafnvel frá hæstu stöðum í réttarkerfinu. “Kannski fann Þorsteinn að það yfirbragð trúverðugleika sem dregið var yfir þennan blygðunarlausa tilbúning var fullþunnt og því hafi hann vikið sæti í þessu máli” sagði talsmaður Saving Iceland.

Flestir sem voru í einhverjum hinna þriggja mótmælabúða Saving Iceland sumarið 2006 geta sagt einhverjar sögur af Arinbirni Snorrasyni lögregluþjóni. Að hann hafi reynt að aka yfir þá, skorið í eigur þeirra með hnífi, bundið þá með rafmagnsvír með andlitið í leðjunni tímunum saman eða nærri hálsbrotið þá með járnaklippum. “Allir minnast þess að hann hafi verið óstöðugur og hættulegur,” sagði talsmaðurinn.

Þetta eru vissulega ekki fyrstu atvikin þar sem ríkið brþtur á aðgerðasinnum Saving Iceland. Lögreglan hefur ítrekað farið inn í bústaði án heimildar, beitt óþarfa ofbeldi við handtökur mótmælenda og eitt skipti varð hún til þess að Jóhann Axelsson, eldri háskólaprófessor, þurfti að leggjast inn á sjúkrahús eftir að hann varð vitni að ólöglegri handtöku. Sumarlangt árin 2005 og 2006 eltu merktir og ómerktir lögreglubílar farartæki Saving Iceland landshorna á milli. Þegar þessu eftirliti var haldið áfram í Reykjavík í ágúst 2005 harðneitaði aðstoðarríkislögreglustjóri því (í Fréttablaðinu) að nokkrir aðgerðasinnar væru undir eftirliti, – þangað til hinn þrautreyndi sjónvarpsfréttamaður Ómar Ragnarsson stóð lögregluna að verki og kvikmyndaði hana (fyrir sjónvarpfréttir) þar sem hún elti Ólaf Pál nokkra hringi í kringum sama hringtorgið. Árið 2005 setti Útlendingastofnun saman ‘svartan lista’ yfir erlenda aðgerðasinna sem lögreglan ætti að elta uppi og senda úr landi. Í fyrstu neitaði stofnunin tilvist listans en þegar sannað var að hún sagði ósatt viðurkenndi hún loksins að brottvikning úr landi hefði ekki stoð í lögum. Skemmra er síðan lögreglan reyndi að koma því í kring að umhverfisfræðingnum Miriam Rose væri vísað úr landi, rétt eftir að hún var látin afplána 8 daga fangelsisdóm í einangrunarálmu karlafangelsi vegna þátttöku hennar í andófi gegn stóriðjuframkvæmdum, með þeim rökum að hún væri ‘alvarleg ógn við grunngildi samfélagsins’.

Þessi ítrekuðu brot lögreglunnar gegn íslenskum lögum og alþjóðalögum um rétt mótmælenda hafa nú í apríl orðið til þess að Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur nú krafist þess að dómsmálaráðherra riti skýrslu um framgöngu lögreglunnar gegn mótmælendum Saving Iceland. Krafan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á Alþingi Íslendinga.

Dómsmálið gegn Ólafi Páli Sigurðssyni hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag mánudag kl. 13.00 í sal 101.
Birt:
21. apríl 2008
Höfundur:
Saving Iceland
Uppruni:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Saving Iceland „Stofnandi Saving Iceland ákærður af íslenskri lögreglu“, Náttúran.is: 21. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/21/stofnandi-saving-iceland-akaerour-af-islenskri-log/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: