Í kjölfar Umhverfisþings umhverfisráðuneytisins sem fram fór í byrjun október gerðu hjónin og líffræðingarnir Menja von Schmalensee, sviðsstjóri Náttúrustofu Vesturlands, og Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður sömu stofnunar, greinargerð um þá hugmynd sína að hrinda í framkvæmd umhverfisvottun fyrir öll sveitarfélög á Íslandi á fjórum árum.

Menja og Róbert hafa bæði tekið virkan þátt í Green Globe*-vottunarverkefninu á Snæfellsnesi nánast frá upphafi þess og búa því yfir reynslu og þekkingu á vottunarferlinu.

„Við höfum möguleika á því að gera Ísland að fyrsta umhverfisvottaða landi í heiminum og í því myndu felast gríðarleg tækifæri og möguleikar til styrkingar á ímynd landsins, en að auki myndi það styrkja atvinnuþróun og efla sjálfbæra þróun. Við teljum að hægt sé að fá fullnaðarvottun á fjórum árum fyrir öll sveitarfélög á landinu því reynslan er til staðar og hægt er að ráða fagaðila til verksins, sem myndi greiða mikið fyrir því að verkefnið taki tiltölulega stuttan tíma,“ útskýrir Menja.

Boltinn hjá stjórnvöldum
Í greinargerð sinni fara Menja og Róbert ítarlega yfir kosti þess að markmiðið um umhverfisvottað Ísland náist, hvernig best sé að vinna slíka vinnu, kostnað við hana og ávinning.

„Bankahrunið og kreppan varð kveikjan að því að við ákváðum að benda á þessa leið og kynna hana betur. Áður en við kynntum hugmyndina opinberlega bárum við þetta undir Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra, sem er mjög jákvæð gagnvart hugmyndinni og hefur þessu hvarvetna verið vel tekið,“ útskýrir Menja, sem segir
að óvíst sé með framhaldið en að boltinn liggi nú hjá ríkisstjórn og Alþingi. Greinargerðin hefur verið send til valinna aðila, svo sem þingmanna og ráðherra og til stendur að senda hana einnig til fulltrúa sveitarfélaga.

Ávinningur verkefnisins getur orðið mikill og felst meðal annars í bættri ímynd landsins, tækifærum í markaðssetningu og eflingu atvinnulífs, sparnaði í rekstri og myndi þetta marka leið að sjálfbærara Íslandi.

„Vottunin tekur ekki til einkaaðila en við höfum mestar áhyggjur af því að fólk og forsvarsmenn fyrirtækja gætu hræðst verkefnið, að því leyti að verið sé að setja einhvers konar hömlur. Samkvæmt reglum vottunaraðila tekur ferlið eingöngu til starfsemi sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum. Þetta myndi því ekki snerta fyrirtæki beint og það sama á við um bændur, tel ég. Síðan er fyrirtækjum og einstaklingum velkomið að stefna á vottun af einhverju tagi, það þarf ekki endilega að vera Green Globe, en það gæti þá talist til tekna í verkefni sveitarfélaganna og öfugt. Það er mikilvægt að hafa í huga að einstaklingar þurfa ekki að óttast að verið sé að taka fram fyrir hendurnar á þeim, því það yrði þeirra eigin ákvörðun ef þeir vildu fara í einhverskonar vottunarferli síðar eða samhliða.“ (Greinargerðina má nálgast á vef Náttúrustofu Vesturlands www.nsv.is).

*Sjá þá aðila á Íslandi sem náð hafa fullnaðarvottun Green Globe hér á grænum síðum.

Birt:
7. desember 2009
Höfundur:
ehg
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
ehg „Ísland verði fyrsta umhverfisvottaða land í heimi“, Náttúran.is: 7. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/07/island-veroi-fyrsta-umhverfisvottaoa-land-i-heimi/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: