Í gær hélt Orkuveita Reykjavíkur kynningu á frummatsskýrslu tveggja nýrra jarðgufuvirkjana á Hellisheiðinni, þ.e. Bitruvirkjunar (sem átti áður að heita Ölkelduhálsvirkjun) og Hverahlíðarvirkjunar. Kynngin var haldin í móttökurými Hellisheiðarvirkjunar.

Framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar er í sveitarfélögunum Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi. Áætlað er að jarðhitavinnsla á Bitru nægi til allt að 135 MWe rafmagnsframleiðslu. Framkvæmdasvæði Hverahlíðarvirkjunar er í sveitarfélaginu Ölfusi. Áætlað er að jarðhitavinnsla í Hverahlíð nægi til allt að 90 MWe rafmagnsframleiðslu.

Kynningin leiddi í ljós að OR hefur unnið áætlanir út frá nýrri sýn og tekur nú tillit til þess að umræðan í þjóðfélaginu var farin að snúast gegn þeim vegna gríðarlegra sjónrænna áhrifa í tengslum við Hellisheiðarvirkjun. Nýjar áherslur í umhverfismálum hafa skilað sér þannig að athafnasvæði fyirhugaðra virkjana hefur dregist saman og er farið út úr svæðum sem teljast viðkvæm og jarðfræðilega sérstök eins og t.a.m. Ölkelduhálsi. Eins hafa sjónræn áhrif verið tekin til sérstakrar endurskoðunar bæði hvað varðar lagnir röra og bygginga. Þó skal tekið fram að byggingar hafa ekki verið hannaðar og ekki endanlegar ákvarðanir teknar um hve faldar þær verða í landslaginu. Niðurstaða frummatsskýrslu um umhverfisáhrif Bitruvirkjunar og Hverahlíðarvirkjunar er að þau verði „veruleg til talsverð“.

Áberandi orð í kynningunni vorur „huldulagnir“, „hulduvegir“ og orðið „torsýniegt“ sett framan við ýmsar framkvæmdir. Þessi álfheimaorð hafa greinilega verið leiðandi við áætlanagerð og það er vel. Þó var ekki ætlunin að ræða neitt varðandi línulagnir, möstur eða jarðstrengi á kynningunni enda talið mál Landsnets. Sjónræn áhrif eru þó að miklum hluta háð útliti og magni sýnilegra mastra á svæðinu og því ekki hægt að draga ályktanir af þeim útlitsmyndum sem lagðar voru fram án þeirra og varla hægt að komast að niðurstöðu um að áhrif haldist innan matsins „veruleg til talsverð“.

Sveitarfélagið Ölfus hefur fengið tillögur Landsnets í hendur og er nú að skoða þær en greinilegt er að kröfur Ölfuss eru í samræmi við yfirlýsingar fv. stjórnarformanns OR frá því í fyrrahaust um að nýjar línur verði lagðar í jörð, en í október á síðasta ári lagði OR fram athugasemdir við matsáætlun Landsnets um línulagnir fyrir nýju virkjanirnar (sjá frétt) og sýndi áhuga á að íta á Landsnet um að nýjar línur verði „alla“ lagðar í jörðu á svæðinu og þegar kemur að endurnýjun Búrfellslínu verði hún einnig lögð í jörðu.

Sjá skýrsluna.

Myndin er tekin á fundinum í gær. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
5. október 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun“, Náttúran.is: 5. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/05/bitruvirkjun-og-hverahlarvirkjun/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: