Náttúruvaktin leggst eindregið gegn áformum sveitarstjórnar Skagafjarðar að setja virkjunarkosti við Villinganes í Jökulsánum inn á skipulag.
-
Villinganesvirkjun hefur í för með sér umtalsverð óafturkræf umhverfisáhrif og er ekki sjálfbær þar sem að lón hennar mun fyllast af framburði á fáum áratugum. Hagkvæmni og arðsemi virkjunar við Villinganes grundvallast á að farið verði einnig í gerð Skatastaðavirkjunar enda virkjunin sögð hagkvæm sem „fyrsti áfangi virkjunar Héraðsvatna“ í rammaáætlun um orkunýtingu. Með því að setja Villinganesvirkun inn á aðalskipulag hefur sveitarstjórnin lýst sig fylgjandi framkvæmdinni og fátt því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir.
Það sætir furðu að sveitarstjórnarmönnum sé svo umhugað um að eyðileggja Jökulsárnar sem hafa á undanförnum árum markað sér sess með bestu flúða – og straumvatnsám Evrópu og skapa sem slíkar Skagafirði mikla sérstöðu í ferða- og afþreyingarþjónustu. Árnar ásamt jaðarstarfsemi skapa á annan tug starfa í héraðinu. Það er því með öllu óskiljanlegt að vilja fórna svo einstakri náttúru og atvinnumöguleikum fyrir það eina starf sem slík virkjun skapar í Skagafirði. Öllum má vera ljóst að verði Héraðsvötnin virkjuð verður sú orka notuð í stóriðju annars staðar.

Lón Villinganesvirkjunar myndi, auk þess að eyðileggja flúðasiglingar og einstæða náttúruskoðun, kaffæra fornminjar, sérstakar jarðmyndanir, laugar í gljúfurveggjum, einstakar birkihríslur, skemma laxagengd, auk þess að hafa veruleg áhrif á alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þá ber að geta þess að þegar framburður ánna hættir berast um láglendar flæður við Héraðsvötnin geta áhrifin orðið umtalsverð þar sem rofmáttur sjávar tekur völdin og ströndin mun færast innar með ófyrirséðum afleiðingum.
-

Nýting ánna í núverandi horfi er bæði arðsöm og sjálfbær. Náttúruvaktin hvetur sveitarstjórnarmenn í Skagafirði að skoða málið vel frá öllum hliðum áður en virkjanakostir verða festir á skipulag.
-

Stjórn Náttúruvaktarinnar

Birt:
5. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ályktun frá Náttúruvaktinni vegna fyrirhugaðra virkjana Héraðsvatna í Skagafirði“, Náttúran.is: 5. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/alyk_natturuvaktar/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 15. maí 2007

Skilaboð: