Hann er fjórði mánuður vetrar að forníslensku tímatali og hefst með föstudegi í 13. viku vetrar (19. - 25. janúar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld, en er einnig í Snorra Eddu, þar sem nöfn mánaðanna eru talin upp. Margir hinna gömlu mánaða báru fleiri en eitt heiti, en þorri virðist ekki hafa átt sér neinn slíkan keppinaut. Svo er að sjá sem það hafi verið ævagömul venja að hafa einhvern mannfagnað á heimilum fyrsta dag þorra og heilsa honum með virktum.

Um þetta segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld, að það var „skylda bænda“ „að fagna þorra” eða „bjóða honum í garð” með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa.

Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag. Þetta hét „að fagna þorra”. Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur”. Á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn þorrablót.” Mönnum hefur ekki borið alveg saman um það, hvort hjónanna ætti að fagna þorra og hvort góu. Hefur það verið útbreiddur skilningur á Vestfjörðum og víðar á norðvesturhluta landsins, að þessu væri öfugt farið við það sem stendur í þjóðsögunum: konan ætti semsé að taka á móti þorra o.s.frv. Þessi skilningur á sér reyndar mun eldri stóð í bréfi sr. Jóns Halldórssonar í Hítardal frá 1728 til Árna Magnússonar. Eru þetta svör Jóns við ýmsum fyrirspurnum Árna Sr. Jón segist ekki vita, hvort það sé gömul siðvenja að bjóða þorra og góu eða nýlegt uppátæki hjá einfölum almúga. Hann kveðst ekki hafa vitað skynsamara fólk leggja þann hégómaskap í venju og segist eiginlega fyrirvirða sig að setja soddan fávisku á pappír til göfugra persóna. Engu að síður skýrir hann frá því merkilega sjónarmiði „að svo sem vetrartíð og veðrátta liggur hér í landi oft þungt á fólki, að henni mætti því heldur lina eður aflétta, þá ættu húsfreyjur að ganga út fyrir dyr næsta kvöld fyrir þorrakomu og svo sem öðrum góðum virðingargesti innbjóða til sín með fögrum tilmælum, en að væri sér og sínum léttur og ekki skaðsamur.

Góu ættu bændur allir að innbjóða með viðlíkum hætti, yngismeyjar einmánuði, en yngismenn hörpu eður fyrsta mánuði sumarsins.” Varðandi þessa verkaskiptingu kynjanna ber að vísu að hafa í huga, að sr. Jón er af Vesturlandi. En af ummælum hans má ráða, að þvílíkir tilburðir voru hafðir í frammi eigi síðar en um 1700, þótt hann sjálfur og ugglaust fleiri lærðir menn telji sig hégóma. Og tilgangurinn er auðsær: að vingast við þessar vættir. Jón Árnason nefnir, að mannfagnaður á fyrsta degi þorra væri enn kallaður þorrablót. Það orð kemur að fornu aðeins fyrir í Flateyjarbók seint á 14. öld, þar sem segir frá fornkonunginum Þorra, sem var blótmaður mikill og hafði hvert ár blót að miðjum vetri. Það köluðu þeir Þorrablót. Dóttir Þorra hét Góa, en annað kóngafólk, sem fyrir kemur í þessari frásögn heitir t.d. Ægir, Logi, Kári, Frosti og Snær. Ljóst má því vera, að hér eru höfuðskepnurnar og önnur náttúrufyrirbæri persónugerð. Í því samfloti sýnist eðlilegast að líta á Þorra sem einskonar vetrarvætti eða veðurguð.

Tilvera orðsins þorrablót bendir til þess, að einhver slík samkoma hafi einhverntíma verið til siðs, en á ritunartíma, Flateyjarbókar hafi menn löngu verið búnir að gleyma tilefninu og fyrrnefnd fornaldarsaga komin í staðinn. Og hafi þorrablót verið staðreynd í forneskju, hefur hinn eðlilegi tilgangur þess væntanlega verið hinnsami og annarra blóta: að blíðka þann sem blótaður er. Og hafi þorri verið vetrarvættur eða veðurguð, þá er slíkt athæfi engan veginn fjarri lagi, sbr. frásögn sr. Jóns Halldórssonar hér á undan. Þegar kristni var lögtekin, hefur auðvitað verið bannað að blóta slíkar heiðnar vættir, enda nóg af kirkjulegum stórhátíðum allt um kring. Því hlutu þorrablótin fornu að falla í gleymsku. En auðsætt er þó, að þorri hefur verið blótaður á laun á venjulegum heimilum fram á okkar daga.

Í tengslum við rómantíkina og sjálfstæðisbaráttuna á 19. öld virðist sú hugmynd hafa kviknað að efna til þorrablóta „að fornum sið”. Hafnarstúdentar sýnast hafa riðið á vaðið eins og á mörgum sviðum öðrum, og fyrsta þorrablót í nýjum sið, sem vitað er um, er haldið í Kaupmannahöfn 24. janúar 1873. Næstir taka Akureyringar siðinn upp á þjóðhátíðarárinu 1874, og virðist hann hafa haldið þar óslitið síðan. Í Reykjavík sést hinsvegar ekki getið um þorrablót fyrr en 1880, og er það á vegum Fornleifafélagsins, sem þá var nýstofnað. Sumir guðhræddir menn höfðu horn í síðu blótanna, og virðist þráðurinn hafa verið eitthvað slitróttari í Reykjavík en á Akureyri.  Á blótum þessum var reynt að skreyta salarkynnin eftir þeim hugmyndum sem menn höfðu um veisluskála fornmanna með öndvegissúlur og langelda á gólfi en skjaldarmerki á veggjum. Menn mæltu fyrir, signdu og drukku full ása og ásynja auk fósturjarðarinnar og merkra samtíðarmanna. Einkum hafa menn þó drukkið minni Ása-Þórs, enda var vinsæl sú skýringartilraun á nafninu þorri, að það væri gælunafn á Þór.

Skal hér tekin upp samtíma lýsing á þorrablótinu í Reykjavík árið 1881, sem birtist í blaðinu Norðanfara: “Fornleifafjelagið. 21. d. jan. hjeldu hjerumbil 50 fjelagar – þar á meðal 6 konur – fornleifafjelagsins miðsvetrar- eða Þorrablót að fornum sið. Það var háð í salnum í veitingahúsi konsúls M. Smith, sem hann hefir nýlega látið reisa og sem ber langt af öðrum veitingahúsum í Rvík. Salurinn var tjaldaður fornum tjöldum og skjaldarmerki á veggjum, öndvegissúlur fornar reistar þar og langeldar á miðju gólfi. Þegar menn voru setztir undir borð, stóð upp Sigurður Vigfússon og setti grið með mönnum að fornum sið. Þegar menn höfðu snætt og borð voru upp tekin, voru auknir langeldar og full drukkin. Fyrst var drukkið full Óðins, Álföður og mælti Sig. Vigfússon fyrir því og signdi það geirsoffi og bað aðra svo gjöra. Síðan var drukkið full Þórs og sungið fyrir sæmilega laglega kveðið kvæði eptir Björn Ólsen , en Sig. Vigfússon gjörði hamar yfir og bað aðra svo signa fullið. Síðan var dukkið full: 1. Freys og Njarðar, 2. Braga og 3. Freyju og allra annarra Ásynja.

Sig. Vigfússon mælti fyrir þeim, og þá er hann mælti fyrir minni Ásynja minntist hann kvennanna, einkum þeirra, sem voru við blótið; var það góð tala. Þá mæti Björn Ólsen fyrir minni forfeðranna. Þá lýsti forseti fjelagsins, Árni landfógeti yfir því, að þær ræður væru haldnar, sem fjelagsstjórnin hefði ákveðið að haldnar væru. Eptir það hjeldu þeir helztar tölur Ári landfógeti út af heitstrengingu að Þorrablóti í fyrra, Bergur amtmaður fyrir vexti og viðgangi fornleifafjelagsins, Steingrímur skáld fyrir dánarminni Jóns Sigurðssonar og Matthías skáld um forfeðurnar. Samsætið fór vel fram og stóð fram á nótt með fjöri miklu.” Það vekur nokkra athygli, að í öllum þessum minnaflutningi er ekkert mælt fyrir minni konungs Íslands og Danmerkur, og eru þó æðstu embættismenn hans viðstaddir hófið. Úti í sveitum munu þorrablót hefjast austur á Fljótsdalshéraði 1896 eða 1897, síðan í Eyjafirði laust eftir aldamót. Smám saman breiðist siðurinn út um landið austanvert, en virðist varla stinga sér niður vestanlands fyrr en upp úr 1920. Þó er óvíða um árvissan atburð að ræða. Milli 1940-50 taka sum átthagafélög í Reykjavík að halda þorrablót, og hafa Eyfirðingar líklega verið fyrstir til þess. En það er naumast fyrr en um 1960, sem þorrablót fara að verða sjálfsögð athöfn í hverri sveit og kaupstað. Þá kemur og til sögunnar orðið þorramatur, sem a.m.k. mun ekki hafa sést á prenti fyrr en 1958.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

Grafík: Bóndadagsbóndi, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
25. janúar 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Þorri“, Náttúran.is: 25. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/orri/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 20. janúar 2013

Skilaboð: