Viðskiptablað Morgunblaðsins kemur húðlitað í plastumbúðum inn um lúguna. Það getur ekki talist sérlega umhverfisvænt og er í raun alger tímaskekkja. Plastið á hugsanlega að gefa blaðinu meira gildi og undirstrika mikilvægi blaðs um viðskipti, kannski umfram almenna blaðið. Þó virkar Viðskiptablaðið ósköp vesælt og viðkvæmt húðlitað í plastinu.

Nú þegar að aðrar þjóðir fara í herferðir gegn plastpokum heldur Morgunblaðið innpökkuninni til streitu. Morgunblaðið sem hefur grætt hvað mest á Kolviðarauglýsingunum og grænu herferðum bílaframleiðanda nú undanfarið, herferða sem nýta sér það að kolefnisjafna til að sýna sig sem „græn fyrirtæki“ í augum illa upplýstra neytenda. Slíkt er verið að banna með lögum í nágrannalöndunum en við erum í þessu eins og því miður svo mörgu öðru dolítið á eftir tímanum.

 

Hvað með eigin umhverfisímynd Morgunblaðsins? Ég veit að á mörgum sviðum stendur blaðið sig mjög vel, er t.a.m. með Svansvottun á prentsmiðjunni og ef notaður yrði einnig umhverfisvænn pappír væru öll prentun Morgunblaðsins vottuð með Svaninum, umhverfismerki Norrænu ráðherranefndarinnar.

En aftur til Viðskiptablaðsins. Leiðari blaðsins í dag skýrir nokkuð berlega afstöðu blaðsins til umhverfismála. Leiðarahöfundur lætur í ljós mikla tortryggnu gagnvart yfirlýsingum ný skipaðs umhverfisráðherra Þórunnar Sveinbjarnardóttur. En í viðtali í Viðskiptablaðinu í gær boðar Þórunn breytta tíma sem m.a. eiga að felast í nánu samstarfi við iðnaðarráðherra og að hún vilji efla sitt ráðuneyti.

Leiðarahöfundur lýsir áhyggjum sínum af vilja umhverfisráðherra til að efla ráðuneytið og vinna með iðnaðarráðuneytinu. Hann segir m.a.:

„Ef skilja má ráðherra rétt þá virðist hún tala fyrir því að nýting auðlinda landsins falli undir umhverfisráðuneytið. Er það skynsamleg ráðstöfun? Munu þeir sem fara með málefni atvinnulífsins í ríkisstjórn sætta sig við að þurfa að eiga allt sitt undir umhverfisráðuneytinu? Er það í anda þeirra hugmyndar að setja upp og efla það ráðuneyti sem fer með málefni atvinnulífsins, væntanleg til að gera hlutina skilvirkari og markvissari. Allt með það að markmið að efla samkeppnisstöðu Íslands í viðskipta-og efnahagsmálum. Sama má segja um hugmyndir ráðherrans um að taka til sín útgáfu rannsóknarleyfa“.

Hann heldur áfram... „Það dylst ekki þegar orð ráðherrans eru skoðuð að það hyggst hún gera til að geta hægt á framkvæmdum þegar svo ber undir. Á meðan sumir hafa þá skoðun og sannfæringu að minnka þurfi umsvif og ítök ríkisvaldsins þegar kemur að atvinnulífinu þá er heldur óþægilegt að heyra slíkar skoðanir“.

Ekki furða að Viðsktiptablaðið komi pakkað í plast inn um lúguna, árið 2007.

Myndin er af Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
14. júní 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Plastpökkuð viðskipti“, Náttúran.is: 14. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/14/plastpkku-viskipti/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007

Skilaboð: