SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, vilja að Gjástykki í Þingeyjarsýslu verði verndað fyrir hvers konar raski.

Gjástykki er ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk vestan Kröflu sennilega það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýnir hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Landrekskenningin sannaðist þarna fyrir augum okkar á 8. og 9. áratug síðustu aldar og allt var vel skoðað og skráð. Á þessum slóðum eru aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefast annars staðar og í því felast mikil tækifæri, bæði andleg og efnaleg. Þegar málefni Gjástykkis eru skoðuð í víðu samhengi er ljóst að verðmæti svæðisins er afar mikið og í þeirri orku sem þar kann að vera tæknilega nýtanleg felst minnstur hluti þeirra verðmæta. Auðlegð svæðisins er fólgin í ímynd þess fyrir Ísland, fræðslugildi þess fyrir Ísland og umheiminn og því að þar eru óhemjumiklir möguleikar fyrir útivist og ferðaþjónustu, t.d. í gönguferðum milli Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði og Mývatns. Allt rask, þar með taldar rannsóknarboranir, ógnar þessu gildi og rþrir ímynd og gæði. Stjórnvöld, þar á meðal sveitarfélög í héraðinu, ættu því að berjast fyrir uppbyggingu eldfjallafræðagarðs í Gjástykki og við Leirhnjúk.

SUNN lýsa af ofangreindum ástæðum andstöðu við rannsóknarboranir í Gjástykki sem nú eru í matsferli vegna umhverfisáhrifa. Vissulega var það áfangi á sínum tíma að hafa fengið í gegn að ekki mætti bora í Gjástykki í rannsóknarskyni nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Þess háttar boranir kosta hins vegar sitt og það er auðvitað öllum ljóst að virkjunaraðili fer ekki út í þær nema að ætla sér að virkja. Við sem viljum vernda Gjástykki viljum ekkert rask þar og teljum að kostnaður við rannsóknarboranir sé óásættanlegur ef þar verður svo aldrei virkjað. Slíkur kostnaður er svo sem aldrei ásættanlegur — en núna er íslenska ríkið stórskuldugt og Landsvirkjun líka.

Af sömu ástæðum lýsa SUNN yfir andstöðu við hvers konar breytingar á skipulagi, svo sem aðalskipulagi sveitarfélaga eða skipulagi miðhálendisins, sem heimila orkuvinnslu í Gjástykki.

Friðlýsing Gjástykkis er forsenda þess að gæði svæðisins verði ekki skert. SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi nota tækifærið og beina því til ráðherra umhverfismála að hefjast þegar handa við undirbúning friðlýsingar svo tryggja megi eftir föngum að svæðið verði lyftistöng fyrir Ísland í samræmi við þáær einstöku aðstæður sem þar eru fyrir hendi.

Mynd frá Kröflu af vef Landverndar landvernd.is.
Birt:
12. ágúst 2009
Tilvitnun:
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson „ Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi vija að Gjástykki í Þingeyjarsýslu verði verndað“, Náttúran.is: 12. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/12/samtok-um-natturuvernd-norourlandi-vija-ao-gjastyk/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: