Arnbjörg - um eini, hreinlæti o.fl.
„Góð og forstöndug húsmóðir gætir þess jafnan að allur hennar matur sé hreinn, þokkalegur álits, smekkgóður og allra helst að hann hollur sé. Hér til vandar hún mest hreinláta meðferð allra hluta, helst matvælanna og allra þeirra kera og íláta. sem þar til brúkast, svo sem eru mjaltafötur, rjómatrog og dallar, samt öll keröld, sem til matar er höfð. Hún lætur það allt vera vel þvegið áður brúkað sé í hvert sinn. Aldrei líður hún að súr komi í þau ílát. En verði það, í móti vilja hennar, nær hún aftur súrnum úr þeim með sjóðandi vatni, einu eða fleirum. Þar til lætur hún sjóða einilauf í greindu vatni að síður súrni aftur, eins og hr. Ström segir frá og ráðleggur Norðmönnum.
Hún síar vel alla nýja mjólk og aftur rjómann. Smjörið hnoðar hún og eltir vel að ekkert af áfum verði þar í eftir og hrærir síðan áður en hún saltar það. Um smjörgerð og osta og það hreinlæti, sem þar til hlýðir, hefur sekretéri Olavius skrifað greinilegan og þarfan bækling 1) sem bæði er og má vera í afhaldi hjá forstöndugum og góðum húsfreyjum, því hann kennir það sama sem þær hafa áður brúkað og brúka enn, samt nokkur fleiri góð ráð framandi þjóða í því efni. En sá bæklingur er miðlungs vinsæll hjá óþrifnum og óhreinlátum konum. Enda telur þær engi maður með góðum húsmæðrum heldur fyrir forrotnan í efnum og beinum bónda síns.“
1) Ólafur Olavius: Fáeinar skýringargreinar um smjör og ostabúnað. Kbh. 1780. Ummæli sr. Björns sýna að hann þekkti þrjósku margra gegn umbótum og að þeir uppnefndu sumir þann mæta höfund Ólaf ost, til að hæða bæklinginn.
Kaflinn sem hér birtist (nr. 56) er úr kverinu: Arnbjörg - æruprýdd dáindiskvinna á vestfjörðum Íslands, afmálun skikkun og háttsemi góðrar húsmóður í hússtjórn, barnauppeldi og allri innanbæjar búsýslu. Kverið skrifaði séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1724-1794), en það var þó ekki gefið út fyrr en eftir andlát Björns, eða árið 1843 í Viðey. Ritið er eitt fjögurra í bókinni Rit Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og fæst hér á Náttúrumarkaði.
Myndin er af einiberjarunna [Juniperus communis] sem vex í stórum breiðum, neðst í suðurhlíðum Snæfellsjökuls. 20.06.2004. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Arnbjörg - um eini, hreinlæti o.fl.“, Náttúran.is: 26. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/arnbjorg/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 1. janúar 2013