Umhverfisvæn orka - Arðbær fjárfesting eða græn bóla?
Fjárfestar um allan heim telja mögulegt að græða vel á fjárfestingum í umhverfistækni á næstu árum og áratugum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, t.d. eykst eftirspurn eftir orku í heiminum stöðugt, bæði vegna fólksfjölgunar og vegna aukinnar eftirspurnar í ný markaðsríkjum á borð við Kína og Indland. Aukin umhverfisvitund neytenda þrýstir á fyrirtæki að verða „grænni“, auk þess sem hluthafar þrýsta á um það sama. Síðast en ekki síst má svo nefna að orkuverð hefur hækkað mikið og virðist ætla að hækka meira, og því sjá fjárfestar tækifæri í tækni sem eykur nýtingu orku.
Miklir fjármunir í húfi
Þar sem það er næsta víst að umtalsverðu fjármagni mun á næstu árum verða eytt í að minnka losun koldíoxíðs (CO2) er eðlilegt að fjárfestar velti fyrir sér hvar gróðatækifæri vegna þess sé að finna. Fjárfestingafyrirtækið Alliance Bernstein hefur líkt og aðrir fjárfestar beint sjónum sínum að orkugeiranum. Hópur á vegum fyrirtækisins vann að rannsókn um framtíð græna orkuiðnaðarins í rúmlega tvö ár. Hópurinn tók viðtöl við meira en 500 einstaklinga og vann úr niðurstöðunum spá um hvernig markaðir muni bregðast við vaxandi ógn vegna loftslagsbreytinga á næstu 20 árum.
Alliance Bernstein spáir því að orkunotkun heimsins muni nánast tvöfaldast á næstu 20 árum. Jafnframt telur fyrirtækið að á næstu árum munu stjórnvöld setja sífellt strangari reglur um losun gróðurhúsalofttegunda og að losunin verði skattlögð í auknum mæli.
John Granholm, yfirmaður í eignastýringu AllianceBernstein, var staddur hér á landi á dögunum og kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á málþingi sem fyrirtæki hans hélt í samstarfi við Landsbankann á Grand Hótel. „Burtséð frá deilum um réttmæti og skynsemi þess að leggja út í mikinn kostnað til að berjast gegn loftslagsbreytingum af manna völdum er næsta víst að miklum fjármunum verður eytt til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum.“
Myndtexti: Pólitískur þrýstingur á að minnka losun kolefnis í heiminum hefur aukist gríðarlega á undanförnum áratug og mun líklega aukast enn meira. Fjárfestar telja að lausnir til þess verði arðbærar í framtíðinni. Mynd af vg.is.
Birt:
Tilvitnun:
Máni Atlason „Umhverfisvæn orka - Arðbær fjárfesting eða græn bóla?“, Náttúran.is: 24. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/24/umhverfisvaen-orka-arobaer-fjarfesting-eoa-graen-b/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.