Yfirlýsing frá níumenningunum
Dómurinn sem féll í héraðsdómi í morgun er málamyndadómur. Hann er í engu samræmi við þær alvarlegu ákærur sem við höfum setið undir síðasta árið. Hann er nógu mildur til að sefa mögulega reiði fólks en þó það harður að hann fullnægir refsiþörf ríkisvaldsins, breiðir yfir skömm þess og ýtir stoðum undir áframhaldandi ofsóknir í garð pólitískra andstæðinga þess.
Við höfum þetta um málið að segja:
Alþingi er smánarblettur á íslensku samfélagi og ber upphaflega ábyrgð á þessu máli. Fjölmargir þingmenn og starfsmenn þingsins – sér í lagi forseti alþingis, klappstýra ákæruvaldsins – tóku virkan þátt í að bera út róg um okkur. Þær smávægilegu tilraunir örfárra þingmanna til að vega upp á móti þessari lygaherferð voru þaggaðar í hel af þeim sömu og lugu hvað mest. Jóhanna Sigurðardóttir og félagar: Við fyrirlítum tækifærissinnaða og örvæntingarfulla tilraun ykkar til að bjarga eigin skinni á seinustu stundu.
Embætti ríkissaksóknara er fjarstýrður ofsækjandi og fór í öllu eftir fyrirmælum þeirra sem vildu okkur dæmd. Þegar embættinu berast kærur gegn hinu opinbera, til dæmis lögreglunni, er þeim yfirleitt vísað frá vegna ólíklegrar sakfellingar. En sú regla gildir ekki þegar ríkið kærir niður á við.
Dómstólar sem ráðnir eru af valdhöfum eru hápólitískir og afhentu lögreglunni stjórn yfir málaferlunum strax frá fyrsta degi. Oft er sannleikurinn ótrúlegri en skáldskapurinn: Þeir sem stjórnuðu réttarhöldunum yfir okkur voru þeir sömu og á endanum báru vitni gegn okkur.
Ritstjórar stærstu fjölmiðlanna eru Göbbelsar íslensks ríkis og alþjóðakapítals og dæmdu okkur um leið og ákæran var birt. Út frá þeim pólitíska dómi ætluðu þeir sér að stýra umræðunni í átt að sakfellingu af hálfu samfélagsins jafnt sem dómstólanna. Á sama tíma var grátið tárum tilfinningakláms til stuðnings jakkafataklæddum peninga- og valdafígúrum vegna afskipta ríkisvaldsins af þeirra viðskiptum. Þannig afhjúpaðist viðhorf valdsins til hins meinta réttlætis réttarríkisins. Réttlætis sem aldrei á að bitna á toppum valda- og áhrifapýramídans.
Samfélagið er alla jafna meðvirkt og í afneitun gagnvart því að ríkið geti haft rangt fyrir sér. Það sýnir sinnuleysi gagnvart möguleikanum á því að hafa sjálft áhrif. En eftir því sem á málið leið settu fleiri og fleiri spurningamerki við framgang ríkisins gegn pólitískum andstæðingum þess. Í kjölfarið urðum við vitni að sjaldgæfu aðhaldi gagnvart refsiarmi ríkisvaldsins. Þrátt fyrir tilraunir ofangreindra aðila til að stýra og afvegaleiða umræðuna tókst að rétta skekkjuna af og birta óþægilega en sanna mynd af málinu.
Við erum sannfærð um að sú samstaða sem okkur var sýnd með ýmsum hætti, hér á landi jafnt sem erlendis, hafi skipt sköpum. Við þökkum innilega fyrir þann stuðning um leið og við hvetjum fólk til að halda áfram samskonar aðhaldi gagnvart ríkisvaldinu auk þess að snúa vörn í sókn og ráðast á bákn valdastéttarinnar og aðrar þær stofnanir sem viðhalda þeirri samfélagsskipan sem við búum við.
Að lokum lýsum við yfir fullum stuðningi við allt það fólk sem hefur staðið, stendur og mun standa í okkar sporum, hvar sem er í heiminum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, Snorri Páll Jónsson, Þór Sigurðsson, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður Esther Briem, Teitur Ársælsson og Jón Benedikt Hólm.
Birt:
Tilvitnun:
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Jón Benedikt Hólm, Ragnheiður Esther Briem, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Sólvegi Anna Jónsdóttir, Teitur Ársælsson, Þór Sigurðsson „Yfirlýsing frá níumenningunum“, Náttúran.is: 16. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/16/yfirlysing-fra-niumenningum/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.