Ályktun strætóhóps Samtaka um bíllausan lífsstíl vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á þjónustu Strætó.

Mótmælt er fyrirhugaðri skerðingu á þjónustu Strætó með styttingu aksturstíma á kvöldin og um helgar. Á tímum samdráttar þegar einkabílum fækkar er mikilvægt að bjóða upp á nothæfan valkost í samgöngum með Strætó. Þótt að skerðing þjónustunnar valdi væntanlega minnstum skaða þegar minnst eftirspurn er eftir henni minnkar hún möguleika Strætó til að vera þessi valkostur.

Lýst er yfir skilningi á hækkun á verði þjónustu Strætó. Strætó er mjög ódýr valkostur fyrir fasta notendur í samanburði við kostnað við bílaeign og í samanburði við verð á þjónustu almenningssamgangna á Norðurlöndum.

Leggja þarf áherslu á að viðhalda þjónustu á öllum tímum dags, þ.m.t. á kvöldin og um helgar til að tryggja hlutverk strætó sem grunnþjónustu fyrir alla. Þjónustutími strætó þarf að vera frá um 6:30 á morgnanna til um 24:00 á kvöldin virka daga en frá um 8:00 til 24:00 um helgar.

Kanna þarf raunsparnað niðurskurðaraðgerðanna fyrir sveitarfélögin, ríkið, fyrirtækin og almenning.

Framtíðarsýn um strætó í almannaþjónustu

Mælt er með því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, ríkið og Vegagerðin setji sér sameiginlega stefnu um þjónustu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og við nágrannabyggðir. Í þeirri stefnu ætti að felast eftirfarandi:

  • Strætó verði besti kosturinn til samgangna á svæðinu hvað varðar ferðatíma og kostnað.
  • Markmið verði sett um meðalhraða og aksturstíma vagna. Til þess þarf m.a. að fjölga forgangsakreinum fyrir strætó. Einnig að færa vegi að þörfum strætó og fækka eða breyta hraðahindrunum.
  • Markmið verði sett um fjarlægð heimilis frá biðstöðvum.
  • Markmið verði sett um fjarlægð biðstöðva frá helstu vinnustöðum. Sú fjarlægð verði skemmri en fjarlægð frá bílastæði vinnustaðar.
  • Stefnt verði að upptöku samgöngusamninga á helstu vinnustöðum og verði skattlagning jafngild á greiðslum skv. samgöngusamningum og á bílastæðum.
  • Markmið verði sett um þjónustu á skiptistöðvum og biðstöðvum.
  • Stefnt verði að bættri þjónustu og aukinni tíðni vagna sérstaklega á annatíma.
  • Stefnt verði að bættri þjónustu á norður suður ás um Reykjanesbraut.
  • Stefnt verði að stækkun þjónustusvæðis strætó að Borgarnesi á Vesturlandi og til sveitarfélaga á Suðurnesjum og flugstöðvarinnar í Keflavík. Í því sambandi kemur til greina að hafa endastöðvar almenningsvagna sem ríkið styrkir til samgangna á landsbyggðinni í Borgarnesi og á Selfossi.
  • Í skipulagsmálum verði umferð almenningsvagna sett í forgang og tryggður aðgangur vagna að helstu þjónustukjörnum og miðstöðvum. Ótækt er að láta fólk ganga 500 m um bilastæðaflæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir gangandi fólki eins og víða er regla í skipulagi við stærstu vinnu- og verslunarstaði.
  • Bætt verði sölukerfi miða og korta. Til dæmis settir upp sjálfsalar þar sem margir koma í íþróttamiðstöðvum, skólum og verslunarkjörnum.
  • Sveitarfélög á þjónustusvæði strætó aðlagi skólahald í fyrsta tíma á morgnanna og í leikfimi, sundi og öðru skólahaldi að þjónustu strætó. Á móti kemur Strætó til móts við þarfir skóla eins og hægt er. Á móti má minnka notkun á sérstökum skólaakstri og spara með því að reka aðeins eitt almenningssamgöngukerfi.
  • Skoða þarf misræmi í skattlagningu hins opinbera á almenningssamgöngum í þéttbýli og dreifbýli og haga skattlagningu þannig að rekstur á umhverfisvænum vögnum eins og metan vögnum verði hagstæður.
Birt:
12. febrúar 2011
Tilvitnun:
Magnús Jensson, Anna Karlsdóttir, Claudia Overesch, Árni Davíðsson „Ályktun strætóhóps samtaka um bíllausan lífsstíl um strætó og framtíð hans!“, Náttúran.is: 12. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/12/alyktun-straetohops-samtaka-um-billausan-lifsstil-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: