Innköllun - Nóróveira fannst í Alletiders Frugt Hindbær
Aðföng hafa tilkynnt matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um innköllun á Alletiders frosnum hindberjum. Um er að ræða varúðarráðstöfun þar sem Aðföngum hefur borist tilkynning frá A Frost A/S í Danmörku um að þar hafi greinst nóróveira í vörunni. Eftirfarandi upplýsingar auðkenna vöruna sem innköllunin einskorðast við:
Tegund innköllunar: Mengun af völdum nóróveira.
Vöruheiti: Alletiders Frugt Hindbær (hindber).
Umbúðir: Poki.
Nettóþyngd: 250 g.
Framleiðandi: Varan er framleidd fyrir A Frost A/S í Danmörku.
Geymsluskilyrði: Frystivara.
Pökkunardagur: 14.08.2010.
Best fyrir: 14.08.2012.
Strikanúmer: 5706911288784.
Dreifing: Verslanir Bónuss, Hagkaupa og Stórkaupa og einnig í verslunum 10-11 Glæsibæ, Laugalæk, Staðabergi, Barónsstíg og Hjarðarhaga.
Alletiders frosin hindber með ofangreindum rekjanleikaupplýsingum eru ekki lengur í dreifingu. Neytendur sem eiga í fórum sínum Alletiders frosin hindber með ofangreindum rekjanleikaupplýsingum eru beðnir að farga vörunni eða hafa samband við Aðföng í síma 530 5600 eða á netfangið gaedastjori@adfong.is. Nánari upplýsingar veitir Baldvin Valgarðsson, gæðastjóri Aðfanga, í síma 530 5645. Samkvæmt upplýsingum á umbúðum vörunnar er neytendum ráðlagt að hitameðhöndla hindberin fyrir neyslu.
Upplýsingar um nóróveiruna:
Nórórveirur er samheiti yfir nokkrar gerðir af skyldum veirum sem valda iðrasýkingum í mönnum. Þessar veirur hafa einnig verið kallaðar Norwalk-veirur. Veiran uppgötvaðist eftir að hafa valdið faraldri iðrasýkinga í skóla í Norwalk í Ohio í Bandaríkjunum 1968, en í dag eru þekktir margir undirflokkar sem saman eru kallaðir nóróveirur. Allir geta sýkst af þeim því ekki eru til lyf gegn sýkingunni né bóluefni til að hindra hana.
Einkenni nóróveirusýkinga eru vanalega ógleði, uppköst, niðurgangur og stundum magakrampar. Sumir fá að auki væga hitahækkun, hroll, höfuðverk, vöðvaverki og þreytu. Veikindin byrja skyndilega og vara stutt, yfirleitt einn til tvo daga. Almennt fá börn meiri uppköst en fullorðnir en flestir sem sýkjast fá bæði uppköst og niðurgang.
Algengast er að einkenni komi fram 24 til 48 klst. eftir smitun. Er fólk þá smitandi og yfirleitt í þrjá daga eftir að einkenni hætta. Einstaklingar sem sýktir eru af veirunni ættu ekki að tilreiða mat á meðan einkenni vara og í 3 daga eftir að þeir hafa jafnað sig af veikindunum.
Sýkingin er oftast nær ekki alvarlegur sjúkdómur þó fólk sé mjög veikt á meðan á henni stendur og kastar upp mörgum sinnum á dag. Flestum batnar að fullu eftir 1-2 daga. Í einstaka tilfellum getur fólk ekki drukkið nægan vökva til að endurbæta vökvamissi vegna uppkasta og niðurgangs og getur þurft á læknisaðstoð þess vegna. Slíkt ástand getur einkum skapast hjá mjög ungum börnum, þeim sem eldri eru eða hjá fólki með sem veikt er fyrir.
Nóróveirur eru víða í umhverfinu og getur fólk smitast með því að:
- Borða mat eða drekka vökva sem eru mengaðir af veirunni.
- Snerta yfirborð eða hluti sem er mengað og stinga síðan hendinni í munninn.
- Vera í snertingu við annan einstakling sem er sýktur og með einkenni, t.d. þegar verið er að sinna veikum einstaklingum eða deila mat eða mataráhöldum með einhverjum sem er veikur og þegar ungum bleiubörnum með niðurgang er sinnt.
Draga má úr sýkingarhættu með eftirtöldum aðferðum:
- Þvo hendur oft, sérstaklega eftir salernisferðir, eftir bleiuskipti og áður en matur er tilreiddur og hans neytt.
- Þvo ávexti og grænmeti fyrir neyslu.
- Sjóða neysluvatn ef grunur er á að vatnsból hafi mengast.
- Þrífa yfirborð sem mengast við veikindi af völdum nóróveira (af uppköstum eða niðurgangi) með sápuvatni og e.t.v. fara yfir með klórefni.
- Þvo strax fatnað eða lín af rúmum sem mengast með heitu sápuvatni.
Upplýsingar um nóróveiruna eru af heimasíðu landlæknisembættisins.
Frekari upplýsingar veitir Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sími 411 1111.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Innköllun - Nóróveira fannst í Alletiders Frugt Hindbær“, Náttúran.is: 4. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/04/innkollun-noroveira-fannst-i-alletiders-frugt-hind/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.