Upplýsingaöflun um einær og tvíær garðblóm
Grasagarður Reykjavíkur í samstarfi við Norrænu erfðaauðlindastofnunina og Erfðanefnd landbúnaðarins óskar eftir upplýsingum um einærar og skammlífar garðplöntur sem hafa verið í ræktun í görðum landsmanna frá því fyrir 1970. Þetta geta verið tegundir sem hafa erfst í gegnum kynslóðir, sérstakar tegundir sem menn hafa tínt fræ af og ræktað til útplöntunar í áratugi eða plöntur sem vitað er að hafi lifað hálfvilltar í görðum til langs tíma.
Vitir þú um svo gamla stofna af slíkum garðplöntum hefur Grasagarður Reykja- víkur áhuga á að fá að vita meira. Við höfum áhuga á að heyra sögur þessara plantna. Í hversu mörg ár hafa þær verið ræktaðar? Af hverju eru þær ræktaðar? Er eitthvað sérstakt við þær, eins og til dæmis blómlitur? Hver hefur ræktað þær, hvar og hvernig? Við hvern er hægt að hafa samband til að nálgast fræ og nánari upplýsingar? Það væri einnig mjög gagnlegt að fá myndir sendar af tilteknum plöntum.
Norræna erfðaauðlindastofnunin varðveitir fræ af ræktuðum plöntum fyrir hönd Norðurlandanna og vill gjarnan stuðla að varðveislu garðplantna. Sérstakir stofnar einærra og skammlífra plantna eiga hættu á að hverfa sjónum okkar ef ekkert er að gert. Því er von okkar sú að fólk skrifi okkur línu og deili vitneskju sinni með okkur. Meiri upplýsingar má finna á heimasíðu Grasagarðsins og erfða- nefndarinnar, www.grasagardur.is og www.agrogen.lbhi.is.
Með kveðju,
Hjörtur Þorbjörnsson, safnvörður, hjortur.thorbjornsson@reykjavik.is.
Ljósmynd: Morgunfrú, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hjörtur Þorbjörnsson „Upplýsingaöflun um einær og tvíær garðblóm“, Náttúran.is: 27. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/27/upplysingaoflun-um-einaer-og-tviaer-gardblom/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.