Nú keppast hagsmunaðilar við að útmála hræðilegar afleiðingar mögulegs eignarnáms ríkisins á hlut Magma Energy AB Sweden í HS Orku og kostnað sem falla muni á ríkissjóð. Aðstandendur undirskriftasöfnunar á vefnum orkuaudlindir.is vilja af því tilefni minna á að krafan um að stjórnvöld vindi ofan af sölunni á HS Orku er enn í fullu gildi og að eignarnám virðist í því sambandi vera mjög hagstæð leið þegar vel er skoðað.

Beinn kostnaður af eignarnámi  sem falla myndi á ríkissjóð nú, er samkvæmt okkar útreikningum, ekki meiri en sem nemur árshagnaði af rekstri HS Orku. Afborganir af yfirteknum lánum verður sömuleiðis hægt að greiða af hagnaði fyrirtækisins. Eignarnám er sennilega ódýrt í samanburði við tap þjóðarbúsins ef eignarhald verður óbreytt.

ÚTREIKNINGURINN:

Byrjum fyrst á hagnaði af rekstri HS Orku. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 8. febrúar 2010 nam hagnaður HS Orku árið 2009, 6,8 milljörðum króna.

Þessa upphæð þarf að skoða í ljósi þess að leigutekjur Reykjanesbæjar af auðlindinni fyrir sama tímabil var um 50 milljónir króna, eða um 0,8% af bókfærðum hagnaði af rekstri HS Orku. Um þetta hafa verið gerðir samningar til 65 ára eða 130 ára með framlengingu!

Til samanburðar má geta þess að Norski olíusjóðurinn tekur til sín yfir 70% af hagnaði af allri olíuvinnslu Norðmanna!

Fram hefur komið að tekjur Reykjanesbæjar af því að leigja HS Orku afnot af auðlindinni nægja ekki fyrir afborgunum af lánum sem bæjarfélagið tók til þess að kaupa aðra eigendur út!

Í uppgjöri  Magma fyrir árið 2009 er bókfært verð HS Orku 27,8 milljarðar eða $ 234.793.000. (sjá viðhengi Magma Interim Financial Statements dags 30.09.2010 bls. 14) Í sama uppgjöri (bls. 18) er andvirði skuldabréfa sem Magma hefur gefið út vegna kaupa á HS Orku  sagt vera $ 180.703.000 (21.4 milljarðar). Magma hefur  því greitt $ 54.090.000  (ca. 6.4 milljarða) nettó í reiðufé fyrir 98,5% hlut í HS Orku, restin af kaupverðinu er tekin að láni. Samkvæmt fréttum DV var þessi upphæð ekki greidd í erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum sem Magma keypti á aflandsmarkaði á verulegum afslætti. Það er ljóst af ofangreindum tölum að hagsmuna almennings hefur ekki verið gætt við söluna á HS Orku. Hagur seljenda af þessum samningum er enginn og eðlilegt að spyrja hvað mönnum hafi  gengið til að selja sig svona ódýrt?

Fylgismenn sölunnar færa rök fyrir því að ágæti erlendra fjárfestinga sé óumdeilt og nauðsynleg fyrir þann bata í efnahagslífinu sem allir eru að bíða eftir. En í þessu tilfelli er sáralítið nýtt fé sem kemur til – og ekki í erlendum gjaldeyri, heldur aflandskrónum. Stærsti hluti hinnar svokölluðu erlendu fjárfestingar er í formi 7 ára kúlulána seljanda og að því er virðist með óbreyttum ábyrgðum. Allt er þetta með endemum og ljóst að hagsmunir eigenda, almennings, hafa ekki ráðið för í þessu máli og því brýnt að vinda ofan af þessum samningum með yfirtöku ríkisins á HS Orku.

Áform um styttingu nýtingartíma og kaup lífeyrissjóðanna á 25% hlut í HS Orku eru ekki lausnir sem hægt er að sætta sig við.  Magma hefur eignast 98.5% í HS Orku með því að greiða 54.1 milljón dollara með peningum og fengið afganginn að láni. Með sölu á 25% hlut fengi Magma í hendur um 58,7 milljónir dollara í peningum (25% af bókfærðu verði HS Orku)! Þannig hefði Magma eignast 75% í HS Orku með 100% kúluláni á lágum vöxtum, með veði í bréfunum sjálfum og fengi að auki 4,5 milljónir dollara í reiðufé út úr öllu saman.

Samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms nr 11/1973 er ríkinu heimilt að beita lögunum þannig að taka yfir umráð yfir eign áður en niðurstaða matsnefndar um eignarnámsbætur liggur fyrir. Í kjölfar ákvörðunar um eignarnám tekur matsnefnd eignarnámsbóta málið til umfjöllunar og metur eðlilegt endurgjald fyrir eignina. Ef eignarnámsþoli er ekki sáttur við úrskurð um bætur getur hann farið með málið fyrir dómstóla. Sönnunarbyrði í slíku máli er öll Magma megin. Fyrirtækið þarf að sanna meintan skaða.

Allar staðhæfingar um að ef Íslensk stjórnvöld taki af skarið og gegni þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að gæta hagsmuna þjóðarinnar, muni erlendir fjárfestar forðast okkur, eru úr lausu lofti gripnar og ekki byggðar á öðru en huglausum getgátum. Er ekki líklegra að fjárfestar fagni því að stjórnvöld hafi staðfestu til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar og beiti landslögum til þess að snúa við óheillaþróun þessarar fáránlegu viðskiptafléttu  – sem hófst með vafasömum kaupum Geysir Green Energy á stórum hluta HS Orku?

Eins og sjá má af ofangreindum tölum, þá eru raunverulegir peningar sem skipt hafa um hendur í sölunni á HS Orku um 6,4 milljarðar, restin af söluverðinu eru skuldabréf á gríðarlega hagstæðum kjörum. Beinn kostnaður ríkisins vegna eignarnáms sem fellur á ríkið strax er því að hámarki 6,4 milljarðar – upphæð sem er lægri en bókfærður hagnaður af eins árs rekstri HS Orku. Það sem útaf stendur eru 7 ára kúlulán á 1,52% vöxtum – og miðað við ofnagreindar tölur af hagnað af rekstri HS Orku stendur hann undir þeirri skuldbindingu og vel það.

Nú þegar hafa forsvarsmenn Magma hótað hærra orkuverði ef farið verður samningaleiðina…..

Hvað tefur stjórnvöld?

Virðingarfyllst,

aðstandendur áskorunar á orkuaudlindir.is; Björk Guðmundsdóttir, Jón Þórisson, Oddný Eir Ævarsdóttir

Birt:
27. janúar 2011
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Hvað kostar eignarnám HS Orku í raun og veru?“, Náttúran.is: 27. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/27/hvad-kostar-eignarnam-hs-orku-i-raun-og-veru/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: