Hvernig á að brauðfæða heimsbyggðina? - Matvælaframleiðsla á krossgötum
Bændasamtök Íslands halda hádegisfund um matvælaframleiðslu á heimsvísu þriðjudaginn 18. janúar nk. kl. 12:00-13:00 í Bændahöllinni í Reykjavík. Á fundinum verður m.a. fjallað um þau viðfangsefni sem blasa við mannkyninu við að brauðfæða þjóðir heims þegar framundan er mikil fólksfjölgun og loftslagsbreytingar hafa neikvæð áhrif á ræktunarskilyrði.
Aukinn kaupmáttur víða um heim og þverrandi jarðefnaeldsneyti hefur gjörbreytt því hvernig horft er til matvælaframleiðslu framtíðarinnar. Við þurfum að framleiða meiri mat á heimsvísu – en hvernig á að fara að því og geta þjóðir á norðurslóðum lagt sín lóð á vogarskálarnar?
Það er fyrirlesarinn Christian Anton Smedshaug, sem er doktor í umhverfisfræðum og starfar hjá Norsku bændasamtökunum, sem mun halda erindi en á eftir verða umræður. Christian Anton gaf út bókina „Feeding the World in the 21st Centur“ en þar er m.a. fjallað um matvælaframleiðslu í sögulegu samhengi og möguleika landbúnaðarins til að mæta erfiðum viðfangsefnum framtíðarinnar.
Fundurinn hefst eins og áður segir kl. 12:00 þriðjudaginn 18. janúar og er hann haldinn á 2. hæð Hótel Sögu í salnum Harvard II. Fundurinn verður á ensku, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Birt:
Tilvitnun:
Bændasamtökin „Hvernig á að brauðfæða heimsbyggðina? - Matvælaframleiðsla á krossgötum “, Náttúran.is: 17. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/17/hvernig-ad-braudfaeda-heimsbyggdina-matvaelaframle/ [Skoðað:4. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. mars 2014