Breytt umræða um náttúruvernd
Hef mikið hugsað um þær breytingar sem orðið hafa á umræðu um náttúruvernd og umhverfismál undanfarin misseri. Ætlaði mér að skrifa um það í náttúruverndarannál fyrir 2010 en það fórst fyrir í jólaletinni.
Innlegg Benedikts Erlingssonar á Rás 2 í gær og viðbrögð almennings við því segir okkur heilmikið. Leiðari Þóru Kristínar á Smugunni um þöggun er annað dæmi og viðbrögð Landsvirkjunar við Gjástykkismálinu er þriðja.
Öll heila ríkisstjórnin virðist sammála um friðlýsingu Gjástykkis og hvenær gerðist það síðast að 40 - 60 MW voru tekin frá, sisona? Fólk hélt náttúrulega - í cynisma sínum - að friðlýsing Gjástykkis væri bara útspil umhverfisráðherra í þessum venjulega pólitíska pókerspili; að í raun hefði hún ekkert á hendi. Ummæli iðnaðarráðherra á alþingi fyrir jól sögðu mér að eitthvað væri að breytast. Nú er það staðfest.
Svona raðast atburðirnir eins og perlur á hálsband en það tekur tíma að sjá hvort perlurnar séu ekta, nógu margar eða hvort bandið er nógu sterkt til að hálsfestin haldi. Kannski er of snemmt að „ropa hej!" eins og Svíinn segir. Skoðanakannanir annað hvort liggja ekki fyrir, eru gamlar eða óskýrar.
Árið 2004 voru 65% aðspurðra fylgjandi stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, samkvæmt könnun Capacent fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Samkvæmt þjóðarpúlsi Capacent í upphafi árs 2005 voru líka 65% aðspurðra andvígir Norðlingaölduveitu. Í dag hafa náttúruverndarsamtök lítil efni á að láta gera svona kannanir.
Á síðasta ári var stefnubreyting Landsvirkjunar og þá ekki síður framkoma forstjóra hennar í fjölmiðlum verulega athyglisverð. Þar kveður við nýjan tón. En það hefur tekið tíma fyrir fjölmiðla og aðra þátttakendur umræðunni átta sig á því hvort stefnubreytingin er raunveruleg. Í ár sýnist mér að stækkun friðlands Þjórsárvera í suður svo tryggt verði að Norðlingaölduveitu verði aldrei komið á ásamt innleiðingu Árósasamningsins um réttindi almennings í lög gætu haft mest áhrif á náttúruverndarumræðuna. Gott væri líka að ræða hvort kröfur Evrópusambandsins um sterkara umhverfisráðuneyti og stofnanir þess sé bæði nauðsynleg og brýn aðlögun fyrir Ísland að ESB.
Ekki má samt gleyma einstaklingunum. Þeir hafa áhrif á söguna. Umhverfisráðherra hefur í Gjástykkismálinu styrkt stöðu sína verulega því allir sjá að hún hafði betur. Aðstaða umhverfisráðherra til góðra verka hefur styrkst en það þarf líka manninn til að nýta sér tækifærin. Í íslenskri umræðu skiptir miklu máli hvað ráðherrar segja eða láta ósagt.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Breytt umræða um náttúruvernd“, Náttúran.is: 15. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/15/breytt-umraeda-um-natturuvernd/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.