Almenningi gefst nú tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við drög að frumvörpum sem lögð eru fram vegna fullgildingar Árósasamningsins. Hægt er að senda athugasemdir með tölvupósti á postur@umhverfisraduneyti.is til og með 4. febrúar næstkomandi. Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Frumvörpunum er ætlað að tryggja að reglur íslenskra laga samræmist Árósasamningnum sem gerður var í Árósum í Danmörku 25. júní 1998 og öðlaðist gildi 30. október 2001. Til stendur að fullgilda samninginn hér á landi og eru frumvörpin liður í því ferli.

Frumvörpin fela meðal annars í sér að almenningur getur borið ákvarðanir sem varða mikilvæga umhverfishagsmuni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd og leitað virkra úrræða til að tryggja verndarhagsmuni umhverfisins.

Við vinnu frumvarpsins var tekið mið af niðurstöðum nefndar sem skipuð var af umhverfisráðherra þann 25. febrúar 2005 til að greina efni Árósasamningsins og meta hvaða breytingar þyrfti að gera á íslenskri löggjöf með hliðsjón af ákvæðum Árósasamningsins. Niðurstöður nefndarinnar birtust í skýrslu hennar frá 28. september 2006. Þann 13. mars 2009 skipaði umhverfisráðherra starfshóp til að undirbúa fullgildingu Árósasamningsins og leggja fram tillögur um hvor tveggja leiða, svonefnd stjórnsýslu- eða dómstólaleið, væri talin henta best til að tryggja almenningi aðgang að réttlátri málsmeðferð við fullgildingu Árósasamningsins. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni 18. desember 2009 og lagði þar til að farin væri svonefnd stjórnsýsluleið.

Helstu breytingar á lögum sem lagðar eru til vegna fullgildingar Árósasamningsins eru eftirfarandi:

 

  1. Lagt er til í frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins að allar stjórnvaldsákvarðanir er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum verði kæranlegar til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um hlutverk nefndarinnar, skipan, aðild og málsmeðferð er fjallað í frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála myndi leysa af hólmi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefnd hollustuhátta og mengunarvarna sem eru þar með lagðar niður.
  2. Lagt er til að ákvæðum laga sem fela ráðherra að taka ákvarðanir sem vísað er til hér að framan verði breytt og leyfisveitingavaldið fært viðeigandi undirstofnunum.
  3. Lagt er til í frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd að aðild að kærum vegna tiltekinna ákvarðana stjórnvalda verði opnuð öllum (actio popularis). Um er að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, um sameiginlegt umhverfismat og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir ýmissa stjórnvalda um að leyfa framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur um að leyfa sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og að markaðssetja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær.

Auk framangreindra breytinga eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum sem tengjast ekki ákvæðum Árósasamningsins með beinum hætti en þykir rétt að gera til að tryggja samræmi í stjórnsýslu þeirra málaflokka sem frumvarpið snertir. Þannig er til dæmis lagt til að ýmsar stjórnvaldsákvarðanir, sem annað hvort tengjast ákvörðunum vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, eða falla í dag undir valdsvið úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eða úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarna, verði kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Drög að frumvörpunum eru unnin af nefnd sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í febrúar 2010. Í nefndinni sátu: Kristín Rannveig Snorradóttir, formaður, umhverfisráðuneyti, Ingvi Már Pálsson, lögfræðingur, iðnaðarráðuneyti og Sigríður Norðmann, lögfræðingur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Nefndin starfaði með Kristínu Haraldsdóttur, lögfræðingi, sem vann frumvörpin.

Birt:
Jan. 13, 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Drög að frumvörpum vegna fullgildingar Árósasamningsins til umsagnar“, Náttúran.is: Jan. 13, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/13/drog-ad-frumvorpum-vegna-fullgildingar-arosasamnin/ [Skoðað:April 17, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: