Vegna fréttar Fréttablaðsins um mótmæli Skógræktarfélags Ísland
Vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag um afstöðu Skógræktarfélags Íslands til draga að lagafrumvarpi um breytingar á náttúruverndarlögum vill umhverfisráðuneytið vekja athygli á því samráði sem haft hefur verið við Skógræktarfélagið:
- Þann 20. maí 2010 sendi þáverandi formaður nefndar sem vinnur að endurskoðun laganna Skógræktarfélagi Íslands erindi í tölvupósti þar sem félaginu var gefinn kostur á að koma ábendingum á framfæri við nefndina. Þetta erindi er sent áður en tillaga nefndarinnar að breytingum á náttúruverndarlögum var fullmótuð og því gafst Skógræktarfélaginu tækifæri til að koma sínu sjónarmiðum á framfæri. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands svaraði þessu erindi samdægurs með tölvupósti þar sem hann þakkaði traustið fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands og sagði að félagið myndi áreiðanlega leggja fram efnislegar athugasemdir er tengdust endurskoðun laganna. Þessi boðaða athugasemd barst ekki frá Skógræktarfélagi Íslands.
- Sameiginlegur fulltrúi félagasamtaka á sviði umhverfisverndar hefur frá upphafi átt sæti í nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga. Félagasamtökin tilnefndu sinn fulltrúa með bréfi til ráðuneytisins þann 12. nóvember 2009 og afrit af því bréfi var sent öllum umhverfisverndarsamtökum sem hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu við umhverfisráðuneytið, Skógræktarfélagi Íslands þar á meðal.
- Svo virðist sem ákveðins misskilnings gæti í viðbrögðum Skógræktarfélags Íslands við túlkun þeirra frumvarpsdraga sem hafa verið auglýst til umsagnar. Sá misskilingur kann að stafa af því að frumvarpsdrögin eru ekki nægilega skýr eða af vöntun á umfjöllun um einhver atriði er lúta að málefnum skógræktar á Íslandi. Því er mikilvægt að Skógræktarfélag Íslands hvetji aðilarfélög sín til að fara vel yfir frumvarpsdrögin og senda inn málefnalegar ábendingar um það sem þar má betur fara.
- Sú aðferð að birta frumvarpsdrög til umsagnar á heimasíðu umhverfisráðuneytisins áður en frumvarpið er fullunnið og lagt fram á Alþingi er hluti af auknu samráði við félagasamtök og almenning. Markmiðið með þessum vinnubrögðum er að kalla eftir víðtækum sjónarmiðum allra þeirra sem láta sig náttúruvernd varða til að það frumvarp um breytingar á náttúruverndarlögum sem ráðherra hyggst leggja fram á Alþingi endurspegli eftir fremsta megni þau fjölmörgu sjónarmið sem uppi eru. Umhverfisráðuneytið hvetur því Skógræktarfélags Íslands, sem og alla þá sem láta sig náttúruvend varða, að senda inn athugasemdir við drög að frumvarpi til breytingar á náttúruverndarlögum fyrir 21. janúar næstkomandi.
Birt:
12. janúar 2011
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Vegna fréttar Fréttablaðsins um mótmæli Skógræktarfélags Ísland“, Náttúran.is: 12. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/12/vegna-frettar-frettabladsins-um-motmaeli-skograekt/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. janúar 2011