Í umfjöllun um díoxínmengun í Fréttablaðinu í dag er rætt við þá Árna Finnsson en þar kemur fram að undanþágan sem Ísland sótt um gangi gegn meginþema utanríkisstefnunnar. Eining er rætt við Stefán Gíslason sem telur að Umhverfisstofnun hefði átt að bregðast við og að regluverkið sé meingallað.

Baráttumál Íslands

Árni Finnsson formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands, segir að síðustu tvo áratugi hafi íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á alþjóðlegt samstarf til að draga úr mengun sjávar af völdum þrávirkra lífrænna efna á borð við díoxín og fúran.

„Í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar árið 1992 lagði Ísland mjög mikla áherslu á að ná fram ákvæði um alþjóðlegar aðgerðir gegn mengun frá landstöðvum sem þá var talin nema um 70-80 prósentum af þeirri mengun sem berst til sjávar. Einkum lagði Ísland áherslu á að gert yrði lagalega bindandi samkomulag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um bann við losun þrávirkra lífrænna efna, þar með talið díoxín.“

Að baki liggja gríðarlegir hagsmunir fiskútflutningsfyrirtækja, að sögn Árna, og því hefur barátta gegn mengun verið meginþema í utanríkisstefnu Íslands.

„Í ljósi þessa er afar einkennilegt að íslensk stjórnvöld hafi sótt um undanþágu frá strangari ákvæðum Evrópusambandsins fyrir mengun frá sorpbrennslustöðvum í þeim tilgangi einum, að því er virðist, að forða sveitarfélögum frá kostnaði við fullkomnari mengunarvörnum. Enn fremur sætir furðu hversu óskýr hlutverk og valdheimildir Umhverfisstofnunar eru og að réttur almennings á Ísafirði til upplýsinga um mengun vegna starfsemi Funa var virtur að vettug.“

Regluverkið er meingallað

verkamaður með díoxínskaða á hálsiStefán Gíslason, umhvefisstjórnunarfræðingur hjá Umís ehf. Environice, segir að díoxín og fúrön hafi töluverða sérstöðu meðal algengustu mengunarefna vegna þess hversu alvarleg og langvinn áhrif þau geti haft á lífríkið og heilsu fólks.

„Í raun geta menn alls ekki leyft sér að umgangast þessi efni og vísbendingar um óhóflegan styrk þeirra með viðlíka léttúð og ef um önnur og minna eitruð efni væri að ræða. Því þykir mér það mjög sláandi og reyndar ógnvekjandi hversu lítið virðist hafa verið gert með þessar niðurstöður úr díoxínmælingunum frá 2007. Sjálfsagt geta sérfræðingar rökrætt um það hver séu eðlileg viðmiðunarmörk fyrir díxoín. Skoðun mín er einfaldlega sú, að ef díxín og fúrön mælast einhvers staðar yfir viðmiðunarmörkum verður að grípa tl aðgerða þegar í stað, hvort sem styrkur efnanna er rétt yfir viðmiðunarmörkum eða tvítugfaldur.“

Stefán telur að eðlileg hefði verið að krefjast þegar í stað annarrar mælingar til að staðfesta niðurstöðurnar og grípa í framhaldinu þegar í stað til róttækra aðgerða til úrbóta.

„Mér finnst eðlilegt og algjörlega nauðsynlegt að velta fyrir sér og fara vel ofan í saumana á því hvernig hægt var að láta þrjú aðgerðalaus ár líða frá því að niðurstöðurnar frá 2007 lágu fyrir. Fljótt á litið sýnist mér að veilan liggja fyrst og fremst í regluverkinu, þar sem ekki virðist vera gert ráð fyrir að neitt sérstakt ferli fari tafarlaust í gang við aðstæður sem þessar.“

Grafík: Formúlugrind að dioxíni af Wikipediu, sjá nánar um díoxín á Wikipedíu.
Neðri myndin sýnir verkamann sem unnið hefur við framleiðslu illgresiseyðis og díoxín hefur safnast fyrir í fituvefjum líkamans.

Birt:
6. janúar 2011
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Baráttumál Íslands - Regluverkið meingallað“, Náttúran.is: 6. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/06/barattumal-islands-regluverkid-meingallad/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: