Endurvinnsla sparpera (Compact Fluorescent Lamp integrated– CFLi)

Hvernig á að farga sparperum að líftíma þeirra loknum?
Aðrar reglur gilda um perurnar en venjulegt heimilissorp og því má ekki fara með þær sem slíkt. Þess í stað þarf að fara með þær á endurvinnslustöðvar til förgunar. Vinsamlegast komið aftur með perurnar í IKEA verslunina til endurvinnslu eða kynnið ykkur endurvinnslumöguleika í ykkar sveitarfélagi.

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir mig sem viðskiptavin?

Með því að tryggja að sparperum sé fargað eða þær endurunnar á réttan hátt, hjálpar þú til við að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið og heilsu manna. Sparperur innihalda kvikasilfur sem getur haft skaðleg áhrif á fólk og umhverfi ef það er losað út í umhverfið. Förgun verður að vera í samræmi við umhverfisreglugerðir á hverjum stað.

Hvernig get ég vitað hvort henda má sparperum með heimilissorpi eða hvort þeim þurfi að skila til endurvinnslu?
Rétt eins og allur rafmagns- og rafeindabúnaður sem IKEA selur, eru sparperurnar með tákni sem sýnir ruslatunnu á hjólum sem búið er að krossa yfir. Þetta er evrópskt tákn úr WEEE-tilskipuninni sem þýðir að afhenda þarf vöruna til endurvinnslu að líftíma hennar loknum (WEEE stendur fyrir Waste of Electric and Electronic Equipment).

Hvað verður um sparperur sem skilað er til IKEA?
Samþykktir endurvinnsluaðilar, sem eru sérfræðingar í endurvinnslu, sjá um sparperurnar. Yfirleitt eru 80% efnisins í perunni nýtt við endurvinnslu (málmur, gler og kvikasilfur). Hin 20% eru að mestu plast sem oftast er notað til orkuframleiðslu. Mjög lítill hluti peranna verður afgangs.

Ef peran brotnar

Ef köld pera brotnar lekur dálítið af kvikasilfri út úr henni í dropum sem dreifast um svæðið. Droparnir eru nokkuð fljótir að detta á gólfið með brotum úr perunni, t.d. glerbrotum. Ef heit pera brotnar fer gas- og málmkennt kvikasilfur út í andrúmsloftið.

Hvað á að gera ef köld pera brotnar?
Safnaðu saman brotum úr perunni með stífum pappír eða pappa og settu þau í glerkrukku með loki. Þurrkaðu síðan gólfið með litlum rökum klút. Settu klútinn í glerkrukkuna, lokaðu henni og merktu, t.d. með textanum „gæti innihaldið kvikasilfur úr sparperu“. Farðu með krukkuna á endurvinnslustöð sem tekur á móti úrgangi sem er hættulegur umhverfinu.

Notið ekki ryksugu því hún getur stuðlað að uppgufun kvikasilfursdropanna og dreift þeim um loftið. Það veldur aukinni hættu á innöndun.

Hvað á að gera ef heit pera brotnar?
Lokaðu dyrunum að herberginu þar sem peran brotnaði. Loftræstu herbergið (með því að opna glugga) og yfirgefðu það. ELC (The European Lamp Companies Federation) mælir með því að herbergið sé tómt í 20-30 mínútur.

Safnaðu síðan saman brotum úr perunni, með stífum pappír eða pappa og settu þau í glerkrukku með loki. Þurrkaðu síðan gólfið og fleti nálægt brotnu perunni með litlum rökum klút. Settu klútinn í glerkrukkuna, lokaðu henni og merktu, t.d. með textanum „gæti innihaldið kvikasilfur úr sparperu“. Farðu með krukkuna á endurvinnslustöð sem tekur á móti úrgangi sem er hættulegur umhverfinu.

Notið ekki ryksugu því hún getur stuðlað að uppgufun kvikasilfursdropanna og dreift þeim um loftið. Það veldur aukinni hættu á innöndun.

Heimild: Sænska eiturefnastöðin. Efni birt þýtt á vef IKEA.

Birt:
1. september 2010
Uppruni:
IKEA á Íslandi
Tilvitnun:
Sænska eiturefnastöðin „Endurvinnsla sparpera“, Náttúran.is: 1. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/01/endurvinnsla-sparpera/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: