Morgunblaðið sagði  frá því í síðustu viku að hvalveiðar Kristjáns Loftssonar gangi mjög vel.

Minna hefur farið fyrir fréttum af sölu hvalkjöts en fyrstu 6 mánuði ársins flutti Hvalur hf út nær 372 tonn til Japans. Skráð útflutningsverðmæti eru 584,9 milljónir kr. Ekkert var flutt út í fyrra en í lok vertíðar 2009 voru 1500 tonn af hvalaafurðurm í frystigeymslum Hvals hf. Því eru ríflega 1100 tonn enn í frystigeymslum Hvals hf. Við bætist það magn sem hlaðist hefur upp í frystigeymslum Hvals hf. í sumar.

Miðað við að hver skepna gaf af sér 12 tonn í fyrra (1500/125) og að 89 langreyðar hafa verið veiddar það sem af er sumri má gera ráð fyrir að bæst hafi við 1068 tonn við þau 1128 frá því í fyrra sem enn höfðu ekki verið flutt úr landi í lok júní s.l. Samanlagt gera það 2196 tonn. Takist Hval hf. að fylla kvótann (150 dýr) má búast að við að önnur 732 tonn bætist við í frystigeymslur Hvals hf. Samtals 2900 tonn af hvalaafurðum.

Til samanburðar skal bent á að á heildarafli (kjöt, spik og aðrar afurðir)  japanska hvalveiðiflotans á síðustu veiðitímabili (2009 - 2010) var 2046 tonn. Kristján Loftsson hyggst því auka framboð hvalaafurða á Japansmarkaði um 250% – markaði sem hefur farið hnignandi s.l. 20 ár.

Spurningin er: Hvað hafa hluthafar Hvals hf. haft upp úr krafsinu? Sannast sagna er það ekki mikið því samkvæmt japönskum tollskýrslum fyrir fyrstu sex mánuði ársins var ekkert flutt inn af hvalaafurðum frá Íslandi fyrr en í júní s.l. Þá voru 33,4 tonn tollafgreidd og var verðmæti þess magns skráð $380,000 (€296,00 eða 45,6 milljónir króna).

Óvarlegt er að álykta að fyrirtæki sem flytur inn hvalaafurðir frá Íslandi greiði Hval hf. fyrir vörur fyrr en þær fást tollafgreiddar. Enn ku vera óselt á markaði í Japan kjöt sem Kristján Loftsson flutt þangað í lok maí 2008.

Það magn sem fékkst tollafgreitt í júní s.l. samsvarar 3 langreyðum en miðað við neyslu á langreyðarkjöts í Japan á tímabilinu 2006 – 2009 eru efri mörk framboðs á langreyðarkjöti á Japansmarkaði 116,4 tonn á ári eða sem nemur afurðum 13 langreyða frá Íslandi, en japanskir hvalveiðimenn hyggjast halda áfram veiðum á langreyði og selja á heimamarkaði. Geri þeir það gæfist rými fyrir um það bil 3 langreyðar frá Íslandi á ári.

Hlutfall innflutnings frá Íslandi í júní s.l. er 1,6% (33,4/2046 = 1,6%)  af því sem japanski flotinn aflaði í Suðurhöfum á síðustu vertíð eða um 2,2% (33,4/1500 = 2,2%) af þeim 1500 tonnum sem unnin voru af Hval hf. á vertíðinni 2009. Takist Kristjáni Loftssyni að ná 150 dýrum í ár yrði hlutfallið af heildarafla 2009 og 2010 svo mikið sem 0,01% (33,4/2900 - 0,01%). Ekki verður því sagt að sala hvalkjöts gangi jafn glimmrandi vel og veiðarnar.

Hverjar voru væntingarnar? Í janúar 2009 þegar Einar K. Guðfinnsson, þ.v. sjávarútvegsráðherra, gaf út reglugerð um hvalveiðikvóta fyrir árin 2009 - 2013 upplýsti hann hlustendur RÚV um að veiðarnar gætu aflað  þjóðarbúinu allt að 5 milljörðum  króna í gjaldeyristekjur árlega eða 41 milljón bandaríkjadala miðað við gengi ISK gagnvart dollar 27. janúar 2009. Skýring Einars K. Guðfinnssonar á ákvörðun sinni stangast á við ummæli hans í viðtali við Reuters þann 24. ágúst 2007, en þá sagði Einar K. Guðfinnsson, að "The whaling industry, like any other industry, has to obey the market. If there is no profitability there is no foundation for resuming with the killing of whales," Sjá: www.reuters.com/article/idUSL2460655320070825

Birt:
23. ágúst 2010
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Af sölu hvalaafurða“, Náttúran.is: 23. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/23/af-solu-hvalaafurda/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: