Í bloggfærslu á dögunum minntist ég á fræðslumyndina „The Story of Stuff“, þar sem fróðleikur um umhverfismál er settur fram á einkar líflegan og fræðandi hátt með einföldum teiknimyndum og með aðstoð sögumanns. Þann 21. júlí sl. var gefin út ný mynd af sama toga, „The Story of Cosmetics“. Hér á eftir ætla ég að gera hana að umtalsefni.

Í „The Story of Cosmetics“ eða „Sögunni um snyrtivörunar“ eru skaðleg efni í snyrtivörum tekin til sérstakrar umfjöllunar. Þar er m.a. bent á að í raun hafi aðeins um 20% af öllum þeim efnum sem notuð eru í þessar vörur verið prófuð með tilliti til áhrifa þeirra á líkamann. Myndu ekki flest okkar hika að fljúga með flugfélagi, þar sem aðeins 20% flugvélanna fara reglulega í skoðun?

Hvers vegna leynast hættuleg efni í snyrtivörum? Er það vegna þess að framleiðendurnir séu að reyna að eitra fyrir okkur? Nei, auðvitað ekki. Hins vegar er framleiðslan enn byggð á hálfrar aldar gömlum viðskiptahugmyndum, frá þeim tíma þegar menn höfðu ekki grun um skaðsemi margra þessara efna.

Framleiðendur viðurkenna að sjálfsögðu að í vörunum þeirra sé að finna tiltekin efni, sem vitað er að geti verið skaðleg. En tilvist efnanna er oftast varin með því að þetta sé svo lítið magn að það skipti engu máli. En þarna vantar miklu meiri rannsóknir. Hvaða áhrif getur það t.d. haft þegar maður notar reglulega pínulítið af þessu og pínulítið af hinu? Hefur einhver spáð í samanlögðu áhrifin?

Í myndinni er m.a. minnst á Varúðarregluna (e. Precautionary Principle). Hún var almennt viðtekin af ríkjum heims á Ríóráðstefnunni 1992, en samt er henni ekki beitt við framleiðslu á snyrtivörum enn þann dag í dag. Samkvæmt Varúðarreglunni ætti ekki að setja snyrtivörur á markað, nema búið sé að sýna fram á skaðleysi innihaldsefnanna. Það er sem sagt ekki neytandans að sýna fram á skaðsemina, heldur framleiðandans að sýna fram á skaðleysið! Það er ekki nóg að segja að skaðsemin sé ekki sönnuð! Fjarvist sönnunar er nefnilega ekki fjarvistarsönnun!

Sumt af því sem fram kemur í myndinni er sérstaklega miðað við bandarískar aðstæður. Þetta á helst við umfjöllun um eftirlitskerfið, en það er þó svo sem ekkert svo óskaplega frábrugðið því evrópska. Hér geta menn alla vega markaðssett alls kyns vöru sem „náttúrulega“ eða „jurta-eitthvað…“ án þess að þurfa neitt að sanna hvað sé á bak við þá fullyrðingu. Hins vegar er bannað að markaðssetja vöru sem „lífræna“ nema hún sé vottuð sem slík. Á Íslandi laumast samt nokkrir seljendur til þess, og komast upp með það af því að eftirlitið er fáliðað. Ég get nefnt fáein dæmi, en vil frekar benda viðeigandi aðilum á að úrbóta sé þörf, en að „svartmála“ einstaka seljendur á meðan aðrir sleppa.

Og hvað er þá til ráða í þessum snyrtivöruraunum? Það er t.d. hreint ekkert einfalt að botna í innihaldslýsingum sem ýmist eru með svo smáu letri að maður sér það ekki, eða fullt af orðum sem maður getur naumast stautað sig í gegnum, hvað þá skilið. Jú, fyrsta góða ráðið er náttúrulega að nota ekki vörur sem maður þarf ekki á að halda. Næsta mjög góða ráð er að kaupa umhverfismerktar vörur (t.d.Svansmerktar) og vörur með lífræna vottun (t.d. frá Vottunarstofunni Túni). Þá er maður nokkurn veginn öruggur með að ekki sé verið að selja manni neitt eitur.

Ég hvet alla til að horfa á „The Story of Cosmetics“. Enskan í myndinni er auðskilin fyrir flesta sem eru sæmilega sjóaðir í því tungumáli – og svo segja myndirnar líka sitt. Sýningartíminn er eitthvað um 10 mínútur. Nú er bara að smella á http://storyofstuff.org/cosmetics/ og byrja að horfa og hlusta!

Myndin hér að neðan er tekin að láni úr „The Story of Cosmetics“. Hún gefur hugmynd um hvers konar verk er þarna á ferðinni.

 

Skjámynd úr „The Story of Cosmetics“. Smellið á myndina til að horfa.

Birt:
Aug. 19, 2010
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Sagan um snyrtivörurnar“, Náttúran.is: Aug. 19, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/19/sagan-um-snyrtivorurnar/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: