Nú berast fréttir af rannsóknarleyfum Suðurorku ehf. Hvað er Suðurorka ehf. og hver eru tengsl HS Orku og Suðurorku ehf.? 
Á hve mörgum landsvæðum fær Magma Energy Sweden AB rannsóknarleyfi og hugsanlega virkjanaleyfi ef af sölunni á HS Orku verður? Hver er orsök tafar á uppbyggingu á Suðurnesjum?

Við undirrituð viljum benda á nokkur atriði sem orka mjög tvímælis í umræðunni um áform HS Orku og Magma Energy Sweden AB. Nýlega bárust fréttir af nýjum rannsóknarleyfum Suðurorku ehf., en HS Orka á þriðjung í því fyrirtæki. Virðist sem að ef af fyrirhugaðri sölu á HS Orku verði muni Magma Energy fá rannsóknarleyfi Suðurorku ehf.

Forsvarsmenn Magma Energy hafa ítrekað sakað Björk Guðmundsdóttur um rangfærslur. En orð þeirra eru mjög misvísandi og villandi. Hvað er Magma Energy Sweden AB og eftir hverju er það að sækjast?
Við undirrituð óskum eftir að upplýsingar um rannsóknarleyfi fyrirtækisins, ásamt upplýsingum um leyfi HS Orku og Suðurorku ehf., verði birtar opinberlega, rannsakaðar og skýrðar.
Samanlagt virðast þessi leyfi ná til mjög umfangsmikils landsvæðis mikilvægra orkuauðlinda.

Einnig gerum við athugasemd við frétt á bls. 2 í Morgunblaði í gær, 12. ágúst, um að tafir geti orðið á áframhaldandi uppbyggingu á Suðurnesjum vegna óvissu um eignarhald Magma Energy Sweden AB í HS Orku þar sem hið rétta er að tafirnar stafa að mestu af vöntun á virkjanaleyfum vegna óvissu um að næg orka sé fyrir hendi á svæðinu.

Hver eru tengsl HS Orku og Suðurorku ehf.?
Fyrir hve mörg landsvæði fær Magma Energy Sweden AB rannsóknarleyfi og hugsanlega virkjanaleyfi ef af sölunni á HS Orku verður?

Í frétt Morgunblaðsins 10.8.2010 er haft eftir Ásgeiri Margeirssyni, framkvæmdastjóra Magma Energy á Íslandi, að Björk fari ekki með rétt mál þegar hún telur upp staði sem fyrirtækin eiga að hafa sýnt áhuga. Björk nefnir fimm staði og hefur þær upplýsingar frá Láru Hönnu sem hefur þær frá ónefndum heimildamanni sem ekki vill láta nafns síns getið, sem á ella á hættu að missa vinnuna, og kom því upplýsingunum til hennar (Sjá umfjöllun Láru Hönnuhttp://blog.eyjan.is/larahanna/2010/07/22/hver-axlar-abyrgdina/). Þá er haft er eftir Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS Orku, að lítið sé til í máli Bjarkar og segist hann ekki vita um nein áform önnur en þau sem eru hjá HS Orku, þau séu öll uppi á borðinu. Hann segir að HS Orka starfi í Krýsuvík og á Reykjanesi og segist ekki vita af öðrum áformum Magma Energy. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, segir upptalningu Bjarkar ekki eiga við rök að styðjast og áréttar staðina án þess að skýra málið mikið frekar.

Okkur undirrituðum þætti áhugavert að rannsaka virkjanaleyfi og viðræður forsvarsmanna HS Orku og Magma Energy, til að vita hversu mikið land er undir, hve margar orkuauðlindir og náttúruperlur eru til skoðunar í raun.

Þau staðanöfn sem Björk nefndi voru þessi: Hrunamannaafréttur, Öræfi (Skaftá og Tungufljót), Mývatn, n.t. Reykjahlíð, Vogar og Bjarnarflagsvirkjun. Björk nefnir síðan Kerlingafjöll og Krýsuvík í öðru samhengi sem dæmi um náttúruperlur í bréfi sínu til Ross Beaty.

Ásgeir sagði áður,  eða þann 3. ágúst s.l. í kjölfarið á gagnrýni á málflutningi Bjarkar:
“Við stefnum einungis að einni fjárfestingu í einu orkufyrirtæki.“
Í ljósi nýrra frétta um rannsóknarleyfi á fyrirhugðum virkjana- og fjárfestingarsvæðum Suðurorku ehf. er rétt að spyrja hvað átt sé við þegar sagt er að um eina fjárfestingu í einu orkufyrirtæki sé að ræða. Málið virðist flóknara en svo að almenningur nái að átta sig á umfangi þess án frekari skýringa. Eru forsvarsmenn Magma og HS Orku hugsanlega margsaga í málinu eða tvöfaldir í roðinu?

Í sambandi við landvinninga Magma Energy viljum við undirrituð koma á framfæri þeim mikilvægu upplýsingum sem hafa ekki komið skýrt fram í umræðunni en gætu skýrt misvísandi upplýsingar sem berast um rannsóknarleyfi og virkjana- og fjárfestingaáform, nefnilega þeim að með kaupum Magma Energy á meirihluta í HS Orku fær fyrirtækið þau rannsóknarleyfi sem HS Orka hafði fyrir, en jafnframt fær fyrirtækið í kaupbæti rannsóknarleyfi fyrirtækisins Suðurorku ehf.  sem nýlega fékk t.d. rannsóknarleyfi á vatnasviðum Skaftár og Tungufljóts vegna 150 megavatta virkjunar, sjá http://www.visir.is/fa-leyfi-til-ad-rannsaka-virkjun-i-skafta-og-tungufljoti/article/2010796090030&sp=1
“Suðurorka, félag í eigu Íslenskrar orkuvirkjunar og HS Orku sem er í eigu Magma Energy, áformar að reisa Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi. -  http://www.ruv.is/frett/magma-a-thridjung-i-bulandsvirkjun

Eignarhlutir HS Orku í öðrum fyrirtækjum, samkvæmt ársreikningi HS Orku 2009:

Bláalónið hf ,Ísland 24,4%
DMM-lausnir ehf .,Ísland 25,4 %
Suðurorka ehf,Ísland  31,2 %

(Sjá áhugaverðar ábendingar Láru Hönnu á tengslunum á milli Magma Energy, HS Orku og Suðurorku á http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/05/25/thaulhugsad-leynimakk/)

Við viljum benda á nokkur atriði sem vert er að athuga betur:
Það hefur ítrekað komið fram í fréttum á undanförnum mánuðum að Magma hyggist skoða möguleika á nýtingu jarðhita á svæðinu ofan byggðar í Hrunamannaafrétti frá Flúðum og allt inn að Kerlingafjöllum og að um “óformlegar viðræður væri að ræða” http://visir.is/article/20100430/FRETTIR01/307143379: “Sveitarfélagið hefur rannsóknarleyfi á hluta svæðisins en svæðið sem Magma vill rannsaka er um tíu sinnum stærra", sjá frétt í Ríkisútvarpinu í maí, www.ruv.is/frett/vilja-rannsaka-kerlingarfjoll-0. Í sömu frétt kemur fram að formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Árni Finnsson vilji láta breyta skipulagslögum svo að réttur sveitafélaga til að veita rannsóknarleyfi á svæðum einstakra náttúruperla verði afnuminn.
Morgunblaðið hefur eftir Ásgeiri Margeirssyni þann 24.5. sl.: “Þá segir hann að eina verkefni sem Magma hafi áformað fyrir utan verkefni HS Orku, séu jarðhitarannsóknir í Hrunamannahreppi. Fram hefur komið að fyrirtækið vill hefja jarðhitarannsóknir í Hrunamannaafrétti, frá Flúðum og inn í Kerlingarfjöll, og hefur óskað formlega eftir samstarfi við hreppinn.” sjá, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/05/24/fjarlaeg_bulandsvirkjun/.

Ásgeir ræðir líka í frétt frá 30. apríl s.l. um að orkufyrirtækið Magma Energy “líti Kerlingafjöll hýru auga til framtíðar hvað orkuöflun varðar og hefur fyrirtækið átt viðræður við sveitarstjórn Hrunamannahrepps vegna þess áhuga.” http://visir.is/article/20100430/FRETTIR01/307143379. Ásgeir segir að HS Orka, þar sem Magma Energy er hluthafi, sé, eftir nýafstaðna hlutafjáraukningu, í góðri stöðu til þess að ráðast í stór verkefni. Og hann segir: „Það er jarðhiti í Kerlingarfjöllum, en svo er líka jarðhiti niðri á Flúðum og spurning hvað er að finna þar á milli. Það vita menn ekki nema rannsaka það,"

Vegna ummæla Ásgeirs og fullyrðinga um að þeir stefni einungis að einni fjárfestingu í einu orkufyrirtæki, viljum við minna á ummæli Ross Beaty í fréttatilkynningu Geysis Green frá 17. maí s.l.: „Það er okkur mikið ánægjuefni að hafa náð þessu samkomulagi og HS Orka er nú orðið flaggskip okkar í enn frekari sókn á sviði jarðhitanýtingar, bæði hér á Íslandi og á alþjóðavettvangi,“ segir Ross J. Beaty, stjórnarformaður og forstjóri Magma Energy og bætir við: „Við stöndum frammi fyrir afar þýðingarmikilli uppbyggingu gufuaflsvirkjana hér á Suðurnesjum, s.s. stækkun Reykjanesvirkjunar og frekari rannsóknum og framkvæmdum...”

Að gefnu tilefni spyrjum við því: Er ekki rétt að almenningur fái að vita um þessi áform, að þau séu skýrð í samhengi og að haldbærar upplýsingar liggi fyrir? Um gríðarlegt hagsmunamál er að ræða fyrir almenning í landinu og ef þjóðin á að geta mótað nýja orkustefnu og gert upp við sig hvernig nýtingu orkuauðlindanna eigi að vera háttað í framtíðinni þurfa þessar grundvallar upplýsingar um áform orkufyrirtækja sem nýta orkuauðlindir okkar að vera opinberar, aðgengilegar og skýrar.

Hver er orsök tafar á uppbyggingu á Suðurnesjum?

Í tengslum við rangfærslu í frétt á bls. 2 í Morgunblaðinu í gær, 12. ágúst, um HS Orku viljum við benda á að HS Orka hefur keypt 50 MW gufuhverfil til landsins, án þess að fullvissa sé um að nægilega orku sé að finna til þess að knýja hverfilinn og án þess að virkjanaleyfi hafi fengist. Tafirnar á að setja allt í gang virðast því ekki síður eða aðalega vera vegna óvissu um virkjanaleyfi, ástand og þolmörk auðlindarinnar en ekki vegna óvissu um eignarhald á HS Orku eins og kemur fram ítrekað fram í fréttum og þá haft eftir forsvarsmönnum HS Orku og Magma Energy, nú síðast í dag 13. ágúst í Morgunblaðinu þar sem Ásgeir Margeirsson segir að tafirnar séu m.a. vegna rannsóknar stjórnvalda. En Alexander K. Guðmundsson forstjóri Geysis Green Energy segir að málið sé í vinnslu og gengið verði frá kaupunum.

Í því sambandi má vísa til greiningar Sigmundar Einarssonar jarðfræðings sem auk þess að skrifa ítarlega grein um málið (sjá: http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2327) segir eftirfarandi með góðfúslegu leyfi til birtingar hér:

En hinn grafalvarlegi sannleikur í þessu máli er ekki sá sem forstjórinn vill vera láta. Samþykki Orkustofnunar og iðnaðarráðherra er forsenda þess að heimilt verði að stækka Reykjanesvirkjun eins og HS Orka áformar. Hlutverk Orkustofnunar er að gæta þess að jarðhitasvæðið sé skynsamlega nýtt og að nýting verði sem best til lengri tíma litið. Í undirbúningsferli vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar benti Orkustofnun HS Orku ítrekað á að jarðhitasvæðið gæti ekki staðið undir áformaðri stækkun virkjunarinnar. Í athugasemdum Orkustofnunar við matsskýrslu vegna stækkunar virkjunarinnar segir m.a.: „Að öllu samanlögðu er þetta vinnslusvæði fjarri því að standa undir fyrirhugaðri tvöföldun Reykjanesvirkjunar í 200 MWe til lengri tíma“. Og nú reynir forstjóri HS Orku að sýna fram á að ekkert verði úr stækkun Reykjanesvirkjunar nema Magma Energy kaupi HS Orku. Forstjórinn lætur í það skína að leyfi fyrir stækkun virkjunarinnar sé í farvatninu og vonast þá jafnframt til þess að Magma muni skera hann og aðra stjórnendur HS Orku niður úr snörunni. En hinn blákaldi sannleikur er að það er ekkert sem bendir til að leyfið sé á leiðinni. Þessi 50 MW eru ætluð álveri í Helguvík og eru um 8% af orkuþörf þess.

Sigmundur vísar til umsagnar Orkustofnunar um matsskýrslu, sjá http://vso.is/MAU-Gogn/4-1-mau-staekkun-reykjanesvirkjunar/skjol-og-myndir/09-08-20-endanleg-matsskyrsla.pdf en þar stendur meðal annars þetta eftir ítarlega greinargerð um ástandið á því svæði sem áformað er að virkja meira: “Orkustofnun telur ekki nægileg gögn vera til staðar til þess að styðja þá væntingu að borholur sem ná til 2,5 km2 vinnslusvæðis geti til lengdar staðið undir 200 MWe jarðvarmavirkjun sem fyrirhuguð er. Það sem hvetur til varúðar er veruleg þrýstingslækkun innan vinnslusvæðisins og á síðasta ári [2008] dró ekki úr hraða hennar.“

Við skorum á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og á Alþingi Íslendinga að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald og nýtingu orkuauðlinda íslensku þjóðarinnar. Nú þegar hafa mörgþúsund manns skrifað undir þá áskorun. Undirskriftasöfnun fer fram á vefnum www.orkuaudlindir.is

Björk Guðmundsdóttir, Jón Þórisson, Oddný Eir Ævarsdóttir.

Birt:
Aug. 13, 2010
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir, Björk Guðmundsdóttir, Jón Þórisson „Margsaga Magma“, Náttúran.is: Aug. 13, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/13/margsaga-magma/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: