Saving Iceland sendir út nýtt alþjóðlegt ákall til verndar íslenskri náttúru
Saving Iceland hefur sent frá sér nýtt alþjóðlegt ákall til náttúruverndar- og aðgerðarsinna um að flykkjast til Íslands til að berjast gegn frekari nauðgun á hérlendri náttúru í nafni stóriðju, og þá sérstaklega áliðnaðarins. Einnig eru landsmenn sérstaklega hvattir til að fara nú að láta þessi málefni sig varða í ljósi þeirra augljósu eyðilegginga og spillingarforarpitts sem þegar hefur hlotist af stóriðjustefnu stjórnvalda og orkugeirans.
Takið þátt í baráttu okkar gegn iðnvæðingu einna sérstæðustu náttúrusvæða Evrópu og grípið til beinna aðgerða gegn stóriðju!
Ákall Saving Iceland:
Baráttan fram að þessu
Baráttan heldur áfram til varnar eins hlutfallslega ósnortnasta víðernisins sem eftir er í Evrópu. Síðustu fimm árin hafa sumarbúðir beinna aðgerða á Íslandi beinst gegn álbræðslum, risastíflum og jarðgufuvirkjunum.
Eftir þá skelfilegu eyðingu sem fylgdi í kjölfar byggingar stærstu stíflu Evrópu og mikilla jarðgufuvirkjana í Hengli, er enn tími til að rjúfa þá „snilldaráætlun“ sem stefnir að stíflum í öllum stórum jökulám, gernýtingu allra helstu háhitasvæðanna og byggingu álvera, olíuhreinsistöðva, gagnavera og sílikonverksmiðja. Þetta myndi ekki aðeins eyðileggja einstakt landslag og vistkerfi, heldur einnig hafa í för með sér stórfellda aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á íslandi.
Pólitískt landslag
Saving Iceland hefur endurnýjað borgaralega óhlýðni og anarkískar hugmyndir í íslenskum grasrótarhreyfingum og staðið fyrir fjölda beinna aðgerða. Mörgum slíkum hugmyndum var beitt með árangursríkum hætti í „búsáhaldauppreisninni“ á síðasta ári, þar sem reyndir aðgerðasinnar úr röðum Saving Iceland voru stöðugt í fararbroddi og þrýstu á þolmörkin. Saving Iceland og starf okkar árum saman var einn af meginhvötum þess að það tókst að velta hinni spilltu og stóriðjusinnuðu ‘Alcoa ríkisstjórn’.
Engu að síður voru þingkosningar síðasta árs verulegt áfall fyrir umhverfishreyfinguna á Íslandi þar sem Vinstri grænir ýttu til hliðar sínum eigin umhverfisráðherra fyrir að bera raunveruleg náttúruverndargildi fyrir brjósti sér. Leiðtogi flokksins hafnaði eigin umhverfisstefnu sem væri of „hreintrúarsinnuð“ til að duga á slíkum tímum efnahagsþrenginga. Með því, og áframhaldandi setu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn horfum við enn upp á verulega eflda stóriðjuríkisstjórn sem reynir ekki einu sinni að vera græn eða hið minnta framfarasinnuð. Í ofanálag eru spillt stéttarfélög föst í hagsmunagreipum áliðnðarins og kalla á atvinnusköpun hvað sem það kostar umhverfið.
Staðan nú
Hin djúpa efnahagslega og siðferðislega kreppa sem reið yfir Ísland haustið 2008 hefur ollið orkufyrirtækjunum tímabundnum erfiðleikum við að afla erlendra lána fyrir verkefni sín, en lobbýistar áliðnaðarins eru blóðþyrstari nú en nokkru sinni fyrr. Nú er röksemd þeirra sú að vegna efnahagshrunsins hafi Ísland hreinlega ekki efni á að taka mið af umhverfissjónarmiðum. Í raun afhjúpar þetta þau duldu sannindi að áliðnaðurinn hafi alltaf verið meðvitaður um lögmæti sjónarmiða umhverfisverndarsinna. Áliðnaðurinn vill djöflast áfram með hrylling sinn, á grundvelli kreppu sem hann sjálfur ber meginábyrgð á að hafa skapað.
Tilhneiging er til að ofmeta þátt bankanna í kreppunni meðan aðrir orsakaþættir eru vanræktir. Skýrsla Sérstakrar rannsóknarnefndar, sem kannaði aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins, hefur hins vegar beint sjónum sínum að áhrifum stóriðjunnar í lykilkafla skýrslunnar. Útþensla fjármálakerfisins yfir sjálfbærnismörk landsins er fortakslaust rakin aftur til risaverkefna í þágu stóriðjunnar. Fjölmiðlar hafa vanrækt þennan kafla, sem og annan sem sýnir samsekt fjölmiðla sem voru gagnrýnislausir þjónar banka- og iðnaðarkerfisins.
Grundvallarvandamál varðandi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og hið almenna andrúmsloft afneitunar sem fagnaði henni er að hún kemur innan úr innsta kjarna hins rotna íslenska ríkisvalds. Að því leyti er raunverulegt hlutverk hennar að halda öllum valkostum í glímunni við hina gríðarlegu spillingu og lýðræðisbrest innan sviðs réttarkerfisins og þingræðisstjórnmála: Tryggilega undir stjórn þess sama kerfis sem í upphafi skapaði alla þessa valdníðslu.
Á vettvangi fjármálamisferlis þýðir þetta áralöng og langdregin réttarhöld sem smátt og smátt munu glata allri merkingu fyrir almenningi, sem situr eftir í þeirri súpu að þurfa að greiða þær hrikalegu skuldir sem fjársvikin hafa valdið.
Á sviði rótfastra spillingarhefða og þess óttahlaðna andrúmslofts sem ál- og orkufyrirtækin þrífast svo vel á, eru loforð um gegnsæi og lýðræði ekkert annað en blekkingarhula yfir ennþá stórtækari rán stórfyrirtækja á orkulindum landsins. Þetta rán, stutt af endurbyggingarskyldum í lánasamningum við AGS, er beint framhald á gjörspilltri einkavæðingarstefnu og miskunnarlausri iðnvæðingu, og af nákvæmlega sama sauðahúsinu og sú stefna sem gat af sér kreppuna.
Núverandi skotspónar aðgerða
Century Aluminium álverið í Helguvík, sem hefur verið skotmark Saving Iceland undanfarin þjú sumur, er enn verið að byggja þó að hægt gangi. Enn ríkir óvissa um hvaðan orka til álversins eigi að koma, en það mun krefjast allt að átta nýrra orkuvera, þar af sjö gufuaflsvirkjana á Reykjanesi (HS/MAGMA) og Hellisheiði (Orkuveita Reykjavíkur). Ein gufuaflsvirkjunin í þágu Century álversins gæti orðið í Bitru í nágrenni Hengils, og áttunda orkuverið verður líklega stór stífla í hinni fögru Þjórsá sem Landsvirkjun vill endilega byggja sem allra fyrst. Norðurþing á í samningaviðræðum við Alcoa um álbræðslu að Bakka við Húsavík þar sem orkan á að koma úr viðkvæmum óbyggðum norðanlands. Platina Resources vill hefja rannsóknir vegna gulls og annarrar námavinnslu á Austfjörðum.
Grípið til aðgerða!
Í stað þess að efna til sumarmótmælabúða í ár, þá sendum við ákall eftir andspyrnu óháðri árstíðum. Sérstaklega hvetjum við Íslendinga til að grípa til aðgerða allan ársins hring, en einnig umhverfissinna allsstaðar að úr heiminum til að koma til Íslands þar sem við fögnum hjartanlega hvers konar einstaklingsbundnum aðgerðum gegn ál- og orkufyrirtækjunum sem spilla umhverfinu af kappi.
Það hefur sýnt sig að táknrænar aðgerðir duga ekki til þess að stöðva eyðingaröflin. Markmið aðgerðanna ætti að vera að koma í veg fyrir frekari nauðgun landsins. Saving Iceland vísir einlæga samstöðu með öllum aðgerðum sem koma áhrifaríkum höggum á áliðnaðinn og orkufyrirtækin þar sem þau hafa sem mest áhrif.
Jafnvel þótt þú komist ekki til Íslands til að beita beinum aðgerðum, væri ómetanlegt að fá liðsinni við baráttu okkar með samstöðuaðgerðum, fjárstyrkjum, þýðingum og með því að dreifa boðskapnum.
Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband með tölvupósti á netfangið savingiceland@riseup.net og á heimasíðu hreyfingarinnar, savingiceland.org
Birt:
Tilvitnun:
Saving Iceland „Saving Iceland sendir út nýtt alþjóðlegt ákall til verndar íslenskri náttúru“, Náttúran.is: 12. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/12/saving-iceland-sendir-ut-nytt-althjodlegt-akall-ti/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. ágúst 2010