Eins og fram hefur komið í  fjölmiðlum hafa 3 ráðuneyti, Orkuveita Reykjavíkur og þau sveitarfélög sem aðild eiga að HS Orku og sölu hlutafjár í því  fyrirtæki til Magma Energy AB Sweden verið beðin um allar upplýsingar er varða samskipti við Magma Energy AB Sweden og Magma Energy Corporation Kanada og sölu hlutafjár í HS Orku.

Þeir Jón Þórisson og Haraldur Hallgrímsson sem sendu inn beiðni sína um upplýsingar með vísan til laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt og upplýsingalaga nr. 50/1996 fengu svar frá Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem beiðni þeirra er hafnað  á grundvelli þess að um sé „að ræða upplýsingar er varða viðskipti með hlutabréf og munu þær ekki afhentar“ eins og segir í svari OR dags. þann 23.júlí s.l.

Tilefni þessarar beiðni er áskorun til stjórnvalda um að stöðva söluna á meirihlutaeign í HS Orku til Magma Energy Sweden AB og til Alþingis um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald á orkuauðlindunum sem finna má á vefsíðunni orkuaudlindir.is.

Þessi synjun Orkuveitur Reykjavíkur hefur nú verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kærendur vísa til þess að framangreind ráðstöfun, þ.e. sala á hlut OR í HS Orku til Magma Energy Corp, sé augljóslega málefni sem fellur undir gildissvið laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Í 3. gr. laganna eru þær upplýsingar, sem kærendum er tryggður aðgangur að samkvæmt 5. gr., skilgreindar með rúmum hætti, í samræmi við það markmið laganna að "tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál", sbr. 1. gr.

Umræddar upplýsingar lúta sem fyrr greinir að samningi um sölu á hlut í stærsta orkufyrirtæki landsins til kanadíska félagsins Magma Energy Corp. Slík ráðstöfun varðar almenning í landinu með beinum hætti, enda er ljóst að breyting á eignarhaldi rétthafa nýtingarréttar orkuauðlindar, sér í lagi sala til erlends aðila, getur haft umtalsverð  áhrif á nýtingarhátt, vinnslu og meðferð auðlindanna sem um ræðir. Jafnframt getur slíkt leitt til hækkunar orkuverðs og eftir atvikum lakari þjónustu við almenning. Er því  um að ræða ráðstöfun á sviði umhverfis- og orkumála sem er sýnilega til þess fallin að hafa bein áhrif á  náttúruauðlindir landsins, mögulega til hins verra. Brýnt er að  almenningur eigi greiðan aðgang að öllum upplýsingum er varða söluferlið í heild sinni, svo sem viðræður og fundi íslenskra stjórnvalda við verðandi kaupendur og aðra hlutaðeigandi, stjórnsýslumeðferð málsins og einstakar ákvarðanatökur þar að lútandi, hugsanlegt arðsemismat á sölunni og athuganir á áhrifum sölunnar á orkuverð og þjónustu til langs tíma.

Að síðustu er bent á  að synjun Orkuveitu Reykjavíkur byggðist ekki á þeim grunni að upplýsingarnar væru sérstaklega undanþegnar upplýsingarétti. Ekki kemur fram í rökstuðningi Orkuveitu Reykjavíkur, sem fyrirtækið  kaus þó að láta fylgja með ákvörðun sinni um synjun, að upplýsingarnar teljist falla undir ákveðin undantekningarákvæði laga nr. 23/2006. Af því tilefni vilja kærendur taka fram að  ekki verður fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál leyst úr beiðni kærenda, svo og lögmæti synjunar Orkuveitu Reykjavíkur, á  öðrum grundvelli en synjun fyrirtækisins var upprunalega reist á. Með öðrum orðum getur fyrirtækið ekki dregið ný  sjónarmið eða eftirfarandi röksemdir fyrir synjun inn í  málið við meðferð þess fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, önnur en þau sem rökstuðningur synjunarbréfsins gefur tilefni til og fjallað er um hér að framan.

Að mati kærenda verður að  gjalda varhug við málamyndarökstuðningi sem stjórnvöld gætu mögulega teflt fram gegn aðgangi almennings, þ.m.t. fjölmiðla, að gögnum málsins. Reynslan hefur sýnt að meðferð á grundvallarhagsmunum þjóðarinnar sé oftlega sveipuð leynd og fari fram fyrir luktum dyrum, þrátt fyrir að það sé  augljóslega ósamboðið í ríki sem kennir sig við lýðræði. Upplýsingaréttur er eitt af þeim fáu réttarúrræðum sem almenningur hefur til að láta til sín taka á sviði umhverfismála, en íslenska ríkið hefur vanrækt þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar samkvæmt Árósarsamningi um aðgang að  upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum frá  25. júní 1998, um að tryggja almenningi möguleika og rétt til virkrar þátttöku í ákvarðanatöku um umhverfismál. Ef fallist er á höfnun Orkuveitu Reykjavíkur á upplýsingarétti kærenda, og þar með almennings, í svo mikilvægu og umdeildu máli sem hér um ræðir, er að mati kærenda ljóst að  lögbundinn upplýsingaréttur almennings um umhverfismál er svo gott sem dauður bókstafur.

Mynd: Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Aug. 5, 2010
Tilvitnun:
Jón Þórisson, Haraldur Hallgrímsson „Synjun Orkuveitunnar kærð“, Náttúran.is: Aug. 5, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/05/synjun-orkuveitunnar-kaerd/ [Skoðað:June 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: