ÞeistareykirÍ síðustu bloggfærslu minni á Eyjunni, Þeistareykir – forsagan, fjallaði ég um boranir á Þeistareykjum undanfarin ár. Þar gagnrýndi ég nokkuð aðkomu skipulagsyfirvalda, einkum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis, en einnig aðkomu Umhverfisstofnunar. Stefán Thors skipulagsstjóri ríkisins (starfsheiti forstjóra Skipulagsstofnunar) hefur brugðist við umfjöllun minni á heimasíðu Skipulagsstofnunar þar sem hann kýs að gera hlut starfsfólks Skipulagsstofnunar að aðalatriði málsins í pistli sem hann nefnir: Hefur starfsfólk Skipulagsstofnunar misskilið hlutverk sitt? (http://www.skipulagsstofnun.is/skipulagsstofnun/greinar/nr/246) Það er vissulega virðingarvert af skipulagsstjóra að verja sína stofnun þegar að henni er vegið og því framtaki hans ber að fagna. Málsvörnin er á hinn bóginn heldur veikburða. Í greininni gerir skipulagsstjóri lítið úr þekkingu minni og lætur sem ég þekki ekki muninn á rannsóknar- og vinnsluborunum annars vegar og orkunýtingu á háhitasvæðum hins vegar. Hann reynir jafnframt að skáka í því vafasama skjóli að sama sé á hvern veg ákvarðanir Skipulagsstofnunar falli, ávallt verði einhverjir óánægðir.

Í pistli mínum benti ég á að nú þegar hafi verið aflað 50 MWe af gufuafli fyrir Þeistareykjavirkjun án þess að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum en samkvæmt lögum er 10 MWe raforkuver undantekningalaust matsskyld framkvæmd. Í 3. viðauka laganna um mat á umhverfisáhrifum eru settar fram skýrar viðmiðanir þegar ákvarða skal matsskyldu framkvæmda. Þar segir í 1. tl. að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til:

i.  stærðar og umfangs framkvæmda

ii.  sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum

Þegar litið er til stærðar og umfangs framkvæmda er óhjákvæmilegt að líta til sambærilegra framkvæmda sem ávallt eru matsskyldar skv. 1. viðauka laganna. Þar segir í 2. tl.: Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira og önnur orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira. Það hefur alla tíð legið fyrir að tilgangurinn með rannsóknum á Þeistareykjum hefur miðast við byggingu raforkuvers. Varðandi matsskyldu liggur það ljóst fyrir að þegar taka skal tillit til stærðar og umfangs skal miða við 10 MWe uppsett rafafl. Það viðmið á að sjálfsögðu við um alla þætti framkvæmdarinnar en ekki aðeins framkvæmdina í heild sinni eins og skipulagsstjóri heldur fram, eða svo eitthvað sé nefnt: orkuöflun vegna 10 MWe raforkuvers, vegagerð vegna 10 MWe raforkuvers, stöðvarhús fyrir 10 MWe raforkuver, förgun afrennslis frá 10 MWe raforkuveri o.s.frv. Er skipulagsstjóri kannski tilbúinn að halda því fram að afla megi 50 MWe gufuafls fyrir 10 MWe raforkuver án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum þeirrar  orkuöflunar? Slík röksemdafærsla endar í tómri vitleysu. Með því að heimila gufuöflun fyrir 50 MWe raforkuframleiðslu án umhverfismats hefur Skipulagsstofnun (og umhverfisráðuneyti í úrskurðum vegna kærumála) farið langt út fyrir eðlileg mörk við ákvörðun matsskyldu vegna framkvæmda á Þeistareykjum. Samkvæmt lagatúlkun skipulagsyfirvalda geta framkvæmdir verið langt komnar þegar kemur að umhverfismati. Það er andstætt markmiðsákvæðum laganna og andstætt náttúruverndarsjónarmiðum yfirleitt.

Í svari skipulagsstjóra segir að Skipulagsstofnun hafi fjórum sinnum borist tilkynning um borun rannsóknaholu/hola á Þeistareykjasvæðinu. Í öllum tilfellum taldi Skipulagsstofnun ljóst að í hverju tilfelli fyrir sig væri umfang og eðli framkvæmdar ekki þess eðlis að áhrifin væru líkleg til þess að verða umtalsverð.

Hér vekur sérstaka athygli orðalagið í hverju tilfelli fyrir sig. Svo er að sjá sem Skipulagsstofnun hafi yfirsést ákvæðið í 3. viðauka þar sem fjallað er um sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum (sbr. feitletrun hér að framan). Skipulagsstofnun túlkar lögin þannig að skoða skuli hverja borholu (eða hverja umsókn framkvæmdaraðila) fyrir sig, án tillits til annarra framkvæmda, t.d. framkvæmda við aðrar boranir. Niðurstaða slíkrar túlkunar er að ef aðeins er raskað nógu litlu í einu, þá er augljóslega heimilt að spilla svæðinu í heild ef aðeins er passað upp á að gera það í nógu mörgum áföngum. Þessi túlkun laganna byggist á því að loka augunum fyrir ákvæðinu um sammögnunaráhrif á sama hátt og horft hefur verið framhjá ákvæðinu um stærð og umfang.

Ekki er mér kunnugt um að fallið hafi dómar um túlkun laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því verður að ætla að túlkun Skipulagsstofnunar á lögunum byggist á leiðbeiningum frá umhverfisráðuneyti. Svo virðist sem álit Skipulagsstofnunar á borð við þau sem hér hafa verið tilgreind, og staðfest hafa verið af umhverfisráðuneyti, verði að kæra til dómstóla. Aðeins þannig virðist mögulegt að ná fram þeim markmiðum laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og koma í veg fyrir að lögin verði áfram túlkuð náttúrunni í óhag.

Mynd: Frá Þeistareykjum. Ljósmynd. Sigmundur Einarsson.

Birt:
Aug. 4, 2010
Höfundur:
Sigmundur Einarsson
Tilvitnun:
Sigmundur Einarsson „Svar til skipulagsstjóra“, Náttúran.is: Aug. 4, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/04/svar-til-skipulagsstjora/ [Skoðað:June 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: